Grímur Friðbjörnsson fæddist í Stefánshúsi í Vopnafirði 16. júlí 1931. Hann lést á Hrafnistu í Hafnarfirði þann 15. desember 2014.
Foreldrar hans voru hjónin Kristján Friðbjörn Einarsson, fæddur á Víðirhóli á Hólsfjöllum 26. febrúar 1896, d. 16. nóvember 1970, og Gunnhildur Ingiríður Grímsdóttir fædd á Hellisfjörubökkum í Vopnafirði 7. júní 1900, d. 11. janúar 1968. Grímur var einn þrettán systkina er öll komust til manns og er hann jafnframt sá fimmti af þeim er kveður þennan heim.
Grímur kvæntist 20. apríl 1961 Guðlaugu Helgu Sveinsdóttur, f. 29. mars 1939, d. 16. október 2003. Börn þeirra eru: Sigríður Grímsdóttir, f. 1961, maki Þórður Axel Magnússon, f. 1961, Gunnhildur Grímsdóttir, f. 1963, maki Yngvi Óðinn Guðmundsson, f. 1961, Þröstur Grímsson, f. 1971. Fyrri kona Gríms var Inga J. Guðbjörnsdóttir, þau skildu. Dætur þeirra eru: Hafdís Grímsdóttir, f. 1956, maki Egil Stensholt, f. 1955. Kristjana Guðbjörg Grímsdóttir, f. 1959, maki Ragnar Heiðar Harðarson, f. 1958. Barnabörnin eru alls átta og barnabarnabörnin fimm.
Útför Gríms hefur farið fram.
Elsku pabbi minn, nú ert þú farinn frá okkur og þið mamma eruð saman á ný og eftir sitja minningarnar einar um þig. Þú varst tekinn snögglega frá okkur en þú fórst vitandi það hvað mér þótti ofboðslega vænt um þig og allt það sem þú hafðir gert fyrir mig því ég tjáði þér það eins oft og ég gat.
Við áttum margar mjög góðar stundir saman á mínum yngri árum og bjuggum til margar góðar minningar. Á þeim tíma sem ég var lagður í einelti varst þú ávallt til staðar til að hughreysta mig og veita mér góð ráð.
Svo komu mörg ár þar sem ég gerði líf ykkar mömmu mjög erfitt þegar ég leiddist út í ruglið og vitleysuna. Ég særði ykkur margoft svo þið áttuð margar svefnlausar nætur sökum þess og svo sveik ég flest ef ekki öll loforðin um að bæta mig. Svo kom loksins að því að ég stóð við loforð mitt og hreinsaði mig upp og gerði breytingar í lífi mínu og gerði allt sem ég mögulega gat gert til að bæta þér og mömmu það upp sem ég hafði gert ykkur. Ég vona bara að allt það sem ég gerði hafi verið nóg og að þú hafir verið orðinn sáttur við mig, og að ég hafi loksins verið orðinn sá sonur sem þú áttir skilið. Ég veit að nú ert þú kominn á betri stað þar sem mamma hefur tekið á móti þér þegar þú kvaddir þennan heim og nú eruð þið aftur saman á ný. Og ég veit að þið munuð vaka yfir okkur og veita okkur þann styrk sem við þurfum til að halda áfram að lifa lífinu án ykkar.
Hvíldu í friði elsku pabbi minn, þín verður sárt saknað. Þinn sonur,
Þröstur.
Var hann þá orðinn veikur af meltingarfærasjúkdómi sínum er hafði hrjáð hann í mörg ár, en þagði um það. Hann ætlaði að klára ætlunarverk sitt, leiða dóttur sína upp að altarinu sem hann og gerði með pomp og prakt. Nokkrum dögum síðar hringdi hann í mig og sagði mér af veikindum sínum. Nákvæmlega svona var faðir minn; hugsaði alltaf um alla aðra áður en hann hugsaði um sjálfan sig. Pabbi fylgdist alltaf vel með því hvað börnin hans, tengdabörn, barnabörn og seinna meir langafabörnin voru að gera og þá sérstaklega hvernig þeim yngri gengi að fóta sig í lífinu. Hann var mjög hreykinn af barnabörnunum sínum svo mikið veit ég. Síðustu tvö ár ævi sinnar bjó pabbi á Hrafnistu í Hafnarfirði. Lena Sóley, eldri dóttir Gunnhildar systur, vinnur þar og var hún mjög dugleg að kíkja til afa síns og athuga hvort hún gæti ekki gert eitthvað fyrir hann.
Það gerði hún hvort heldur sem hún var í vinnunni eða bara skrapp í heimsókn til afa síns og sat með honum góða stund og var að dunda við að gera hann sætan eins og að klippa neglurnar á höndunum á honum, bera krem í andlitið eða bara það sem hann bað hana að gera fyrir sig. Þau voru miklir vinir.
Vil ég þakka elsku Lenu Sóleyju kærlega fyrir allt sem hún hefur gert fyrir afa sinn. Ég vil líka þakka elsku Gunnhildi systur og Helgu Kristínu fyrir allt það sem þær mæðgur hafa gert fyrir pabba. Sérstakar þakkir vil ég færa starfsfólkinu á Hrafnistu í Hafnarfirði fyrir yndislega umönnum og vinarhug við föður minn.
Elsku pabbi minn, minning þín mun ævinlega lifa í minningu okkar. Ég og Þórður, tengdasonur þinn, þökkum þér fyrir samfylgdina og söknum þín. Guð blessi þig pabbi minn. Þín dóttir,
Sigríður.
Ég hitti Grím í fyrsta sinn í nóvember 1983 þegar ég kom að sækja Gunnhildi dóttur hans upp í Möðrufellið þar sem Grímur og Helga Sveinsdóttir, tengdamamma heitin, og börn bjuggu lengst af. Þau tóku strax vel á móti stráknum og reyndust frábærir tengdaforeldar, í gegnum tíðina voru mikil samskipti á milli mín og Gríms og hægt að skrifa heila bók um það hve hjálpsamur og ráðagóður Grímur var, hann var alltaf mættur þegar eitthvað var verið að framkvæma og gjarnan nefnt af barnabörnunum hans að nú væri verkstjórinn mættur enda sá gamli með eindæmum nákvæmur og vinnusamur og besta dæmið þegar hann mætti einn dag fyrir ári, þá 82 ára gamall, og hélt við spýturnar á meðan Lena Sóley var með skrúfvélina að skrúfa borðin í vegginn á sólpallinum, það er nokkuð ljóst að þar eru réttustu spýturnar í veggnum, það eru svona stundir sem barnabörnin muna.
Krakkarnir mínir, Guðmundur Hrafn, Lena Sóley og Helga Kristín, upplifðu þau forréttindi að eiga Grím sem afa og vin, hann var í miklum samskiptum við þau og fylgdist vel með hvað þau voru að gera alveg fram á síðasta dag, hvort sem var í vinnu, skóla eða íþróttum. Þegar maður skoðar gamlar myndir af Grími og barnabörnunum þá eru það ekki uppstillingar heldur myndir af Grími að leika við krakkana.
Grímur bjó síðustu tvö árin á Hrafnistu í Hafnarfirði, þar var umtalað hvað Grímur var ljúfur og mikið snyrtimeni, alltaf vel tilhafður, sjálfstæður og lítið fyrir það að láta starfsfólk Hrafnistu snúast í kringum sig að óþörfu að hans mati. Þannig var hann frá því ég kynntist honum fyrst, alltaf tilbúinn að hjálpa öðrum og hugsaði vel um sína, skuldaði engum neitt og átti fyrir sínu.
Ég ætla ekki að hafa lofræðuna lengri enda Grímur lítið fyrir svoleiðis en rétt að nefna það að Grímur skilur eftir það verðmætasta sem nokkur getur skilið eftir sig og ég skil betur en ég gerði áður þegar ég hlusta á börnin mín tala um afa Grím, það eru góðar minningar um frábæran afa og vin.
Ég kveð því þennan heiðursmann og vin með söknuði, það voru forréttindi að fá að kynnast þér, Grímur. Hvíl í friði.
Kveðja,
Yngvi Óðinn.
Nú ert þú farinn frá okkur og eftir sitja minningarnar einar.
Orð segja svo lítið, þegar missirinn er mikill og söknuðurinn sár.
Ég er svo þakklát fyrir allar þær dýrmætu minningar og þá einstöku vináttu sem við áttum.
Vinátta sem varð betri með hverju árinu sem leið. Og minningar þar sem alltaf var stutt í hláturinn. Á mínum yngri árum áttum við margar góðar stundir saman þar sem toppurinn var að fá að gista hjá afa og ömmu. Sérstaklega þegar þú vissir ekki af því og mér fannst alltaf jafn fyndið að fela mig inni í skáp og stökkva fram þegar þú hengdir upp úlpuna þína.
Í flestum heimsóknum mínum í Möðrufellið þá spiluðum við saman og mun ég seint gleyma því þegar ég bað þig um að „spila“ tínu, þú varst að sjálfsögðu til í það og hlóst alveg jafn mikið og ég, þegar ég henti spilunum í gólfið og sagði að nú mættir þú tína þau upp, hvattir mig meira að segja til þess að biðja ömmu um að spila þetta líka.
Það er ekki að ástæðulausu að ég er og mun alltaf vera heimsins mesta afastelpa.
Þú kenndir mér svo ótrúlega margt. Ég gat leitað til þín og gátum við talað saman um allt.
Þú hafðir alltaf trú á mér, sama hvað.
Það eru ekki margar manneskjur sem eru eins hjartahlýjar og þú varst.
Ég vona að þú vitir hvað mér þykir vænt um þig og allt sem þú hefur gert fyrir mig.
Þú munt lifa með mér í minningunni það sem eftir er, þú gafst mér svo mikið.
Legg ég nú bæði líf og önd,
ljúfi Jesús, í þína hönd,
síðast þegar ég sofna fer
sitji Guðs englar yfir mér.
(Hallgrímur Pétursson)
Elsku afi Grímur, sofðu nú vært.
Guð geymi þig, dreymi þig vel.
Ástar- og saknaðarkveðja,
Lena Sóley.