Fótbolti
Sindri Sverrisson
sindris@mbl.is
„Ég kom hingað á sunnudaginn og líst mjög vel á allt. Maður er strax búinn að kynnast þýsku geðveikinni. Hér æfir maður eins og brjálæðingur,“ sagði Dagný Brynjarsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, sem í gær skrifaði undir samning við Bayern München til hálfs árs.
Allir þekkja nafn Bayern-liðsins enda karlalið félagsins eitt það hæst skrifaða í heiminum en kvennaliðið hefur verið á uppleið undanfarin ár og er sem stendur í 2. sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir toppliði Evrópumeistara Wolfsburg, en nú er vetrarhlé í deildinni. Fyrsti leikur Dagnýjar gæti orðið gegn Hoffenheim 15. febrúar. Fleiri félög voru á höttunum eftir Dagnýju, þar af tvö í Þýskalandi, tvö í Svíþjóð og eitt á Ítalíu, en af hverju varð Bayern fyrir valinu?
„Ég held að þýska deildin sé sú besta í heimi og þær eru í 2. sæti, þannig að þær hafa staðið sig vel en eru ekki alveg besta liðið. Það er gaman að geta hjálpað því í þá átt. Þetta er líka eina liðið sem sagði ekki að ég yrði lykilmaður. Ég er að fara í alvöru samkeppni og svoleiðis umhverfi bætir mann rosalega,“ sagði Dagný við Morgunblaðið í gær. Liðsfélagar Dagnýjar úr íslenska landsliðinu hafa sumir leikið í þýsku 1. deildinni en staldrað stutt við, hverju sem um er að kenna.
„Þær voru allar rosalega hissa á að ég vildi fara til Þýskalands, en ég er ekki búin að vera hérna í viku og finnst mjög gaman nú þegar. Eins og er finnst mér þetta mjög spennandi og af æfingunum sé ég strax af hverju Þýskaland er í topp 3 í heiminum,“ sagði Dagný sem var sótt eldsnemma í gærmorgun til að fara í þrekpróf, fór á æfingu kl. 9 og svo á styrktaræfingu, skrifaði undir samninginn og fékk stutta hvíld áður en hún spilaði æfingaleik síðdegis. Dagný samdi til hálfs árs en segir vel koma til greina að vera lengur.
„Eins og er þá er ekkert frekar planað, ég á eftir að sjá hvernig mér líkar hérna og hvort þau fíli mig. Þá kannski sem ég aftur hérna. Ég ætla að reyna að njóta mín eins vel og ég get hérna og gera mitt besta,“ sagði Rangæingurinn.
Hæstánægð á Flórída
Dagný kemur til Bayern frá Flórída þar sem hún var að ljúka námi við Florida State University. Með knattspyrnuliði skólans átti hún stórkostlegt lokatímabil; varð bandarískur háskólameistari, kjörin best af tímaritinu Soccer America, og lenti í 2. sæti í keppninni um Hermanns-bikarinn, þar sem þjálfarar í háskólalandsdeildinni kjósa besta leikmanninn. Hin bandaríska Morgan Brian varð fyrir valinu.„Þetta var frábær endir á verunni úti, fyrir utan að hafa ekki unnið „stjörnu Bandaríkjanna“, eftir að hafa þrisvar verið í sigurliði gegn henni. Bandarísku þjálfararnir þekktu hana auðvitað betur. En þetta er aukaatriði, markmiðið var að vinna alla titla og það tókst. Ég var efins varðandi það að fara til Bandaríkjanna en er mjög ánægð með það. Aðstaðan var fullkomin. Ég mæli með þessu fyrir alla, ef það er góður háskóli,“ sagði Dagný.
Dagný Brynjarsdóttir
» Hún er 23 ára miðjumaður frá Hellu og ólst upp hjá KFR en lék með Val frá 16 ára aldri, þar til hún gekk til liðs við Selfoss fyrir síðasta tímabil.
» Dagný varð bandarískur háskólameistari með Florida State í vetur og kjörin besti leikmaður deildarinnar þar af Soccer America.
» Hún hefur spilað 48 A-landsleiki og skorað í þeim 11 mörk.