Jóhann Ingimar Hannesson fæddist í Bolungarvík 17. apríl 1933. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Ísafold 17. janúar 2015.

Foreldrar hans voru Sigurjóna Guðrún Jóhannsdóttir, f. 4. maí 1910, d. 1995, og Hannes Lárus Guðjónsson, f. 6. ágúst 1905, d. 2003. Jóhann átti fimm systkini: Inga Hafdís, f. 1930, d. 1997. Guðjón, f. 1935. Sigurður, f. 1936. Sævar, f. 1937, og Rúnar, f. 1940.

Jóhann kvæntist 29. desember 1956 eftirlifandi eiginkonu sinni, Elsu Björnsdóttur frá Stykkishólmi, f. 6. júlí 1935. Foreldrar hennar voru Björn Hildimundarson, f. 1906, d. 1983, og Elísabet Magnúsdóttir, f. 1912, d. 1984.

Börn Jóhanns og Elsu eru: 1) Sigrún Jóna, f. 14. október 1956, gift Þorsteini Gunnarssyni, f. 28. júlí 1954. Börn þeirra eru: a) Jóhann Ingi, f. 10. júlí 1980, maki Dagný Thelma, f. 5. ágúst 1983. Þau eiga þrjú börn: Óliver Ottó og Kamillu Jönu, f. 10. nóvember 2008, og Diljá Maren, f. 7. júní 2010, b) Guðný Ottesen, f. 13. júlí 1983, gift Hrannari Má, f. 22. maí 1977. Þau eiga tvo syni, Styrmi Þey, f. 8. júní 2010, og Tandra Stein, f. 5. nóvember 2012. 2) Hannes Lárus, f. 8. október 1959, kvæntur Jóhönnu Björgvinsdóttur, f. 1. maí 1960. Börn þeirra eru: a) Arnbjörg Elsa, f. 18. ágúst 1977, gift Guðbergi Reynissyni, f. 17. nóvember 1971. Þau eiga fjögur börn: Róbert Andra, f. 13. maí 2001, Elvu Sif, f. 4. janúar 2004, Sunnu Dís, f. 4. júlí 2010, og Birtu Maríu, f. 27. apríl 2014, b) Jóhann Ingimar, f. 19. apríl 1988. Hans barn: Natalía Ósk, f. 1. desember 2006.

Jóhann Ingimar fluttist þriggja ára frá Bolungarvík til Reykjavíkur með foreldrum sínum. Þegar seinna stríðið skall á var hann sendur í sveit norður í V-Húnavatnssýslu til Júlíusar Frímannssonar í Meðalheimi á Ásum. Þar átti hann góð ár.

Um fermingu flytur hann suður á Vatnsleysuströnd, þá eru foreldrar hans fluttir að Halldórsstöðum.

Þar byrjaði hann strax að vinna fyrir sér í fiskverkun og sjómennsku, síðar á Keflavíkurflugvelli við ýmis störf.

Jóhann og Elsa hófu búskap sinn í Vogum suður með sjó. Jóhann starfaði á rafmagnsverkstæði ÍAV til 1967, þá byrjaði hann í múrverki hjá Sigga bróður sínum.

Árið 1970 kaupir hann sér sendiferðabíl og byrjar að keyra á Sendibílastöð Kópavogs. Fljótlega varð hann í fastri vinnu með bílinn hjá Málningu hf. í Kópavogi allt þar til haustið 2006.

Hann var í sóknarnefnd Kálfatjarnarkirkju, ritari og meðhjálpari til margra ára. Hann var stofnfélagi Lkl. Keili og gegndi þar trúnaðarstörfum og var mjög virkur í starfi við fjáraflanir o.fl.

Jóhann og Elsa bjuggu í Vogum í 50 ár. Þau fluttu í Garðabæ árið 2006.

Jóhann var dugnaðarforkur alla tíð og átti það illa við hann að þurfa að hætta að vinna eftir að hann missti sjónina að mestu.

Jóhann dvaldist á Vífilsstöðum og hjúkrunarheimilinu Ísafold síðustu þrjú ár.

Útför Jóhanns verður gerð frá Vídalínskirkju í Garðabæ, í dag, 23 janúar 2015, kl. 13.

Hann var drengur góður. Það eru fyrstu orðin sem koma upp í huga mér þegar ég hugsa um pabba. Hann var ávallt tilbúinn að rétta hjálparhönd. Hverjum sem er. Hann hafði mætur á þeim sem voru duglegir, báru sig vel og komu fram á heiðarlegan hátt. Þegar maður kom heim 12 ára gamall úr fiskvinnu, dauðþreyttur, þá var hann stoltur og sagði: Rosalega hefur þú gott af þessu.

Eins þegar við systkinin og síðar barnabörnin komu heim með einkunnir úr skólanum var hann ánægðastur með hvað við höfðum fengið háa einkunn í hegðun og ástundun, það væri undirstaðan að frekari námi. Hann vann mikið daga sem nætur og mikið úti á landi,

Það var lítið um að pabbi tæki sér frí frá vinnu, fyrsta fríið sem ég man eftir er þegar hann, rúmlega fertugur, og mamma fóru í fyrstu sólarlandaferðina.

Á kvöldin og um helgar vann hann við að byggja við Hofið, þá fékk ég að fylgjast með honum á loftinu við múrverk og smíðar.

Þegar hann byrjaði í sendibílaakstrinum var stundum unnið langt fram á kvöld að gera við bílinn til að komast í vinnu næsta dag. Þá var kallað í mig til að pumpa upp bremsurnar eða halda á ljósahundinum.

Alltaf var hann að kenna manni hvað bæri að varast, hvernig átti t.d. að smyrja nýja legu og margt fleira. Aldrei að fara undir bíl sem er tjakkaður upp nema hafa búkka undir honum, þetta sagði hann milljón sinnum. Alltaf til í að ræða hlutina og leiðbeina hvernig best væri að vinna verkin.

Þegar maður hugsar um reynsluna sem hann hafði öðlast allt frá unglingsárunum, kemur upp í hugann: sjómennska, fiskverkun, vinna í þvottahúsi, bílaviðgerðir, rafvirkjun, staura- og mastursvinna, vinna við kyndingu, bátaútgerð, múrverk, byggingarvinnu og síðast sendibílaakstur.

Ef ég var í vandræðum með eitthvað og hann gat ekki reddað því, þá var manni bent á einhvern mann úti í bæ, farðu til hans og segðu að þú sért sonur hans Jóa Hannesar og hann bjargar þessu fyrir þig.

Hann keyrði hjá Málningu hf. í tæp 30 ár. Upp úr tvítugu fór ég að leysa hann af í keyrslunni þegar hjónin brugðu sér í utanlandsferð.

Ég fann strax hvað öllum þótti vænt um karlinn, aldrei nein vandræði, allir treystu honum og þurftu ekki að hafa áhyggjur ef hann tók hlutina að sér.

Átti vini út um allan bæ, og allir að spyrja Hvar er Jói? þegar ég mætti á trukknum.

Maður mátti vara sig á að það voru margir sem svínuðu í veg fyrir mann, því þeir vissu að Jói trukkur gaf alltaf séns. Hann gaf sér oft tíma til að hjálpa og leiðbeina sérstaklega ungu fólki sem var að byrja sinn feril á vinnumarkaðinum. Það sýnir best sú tryggð sem forráðamenn og starfsmenn Málningar hf. sýndu honum eftir að hann hætti að keyra þegar þeir buðu honum á hverju ári í jólakaffi. Hann komst ekki í boðið síðustu tvö árin, þá heimsóttu þeir hann á Ísafold og færðu honum glaðning. Síðast en ekki síst var hann góður afi og langafi, barnabörnin hændust að honum, hann var alltaf að taka þau með í allskonar ferðalög og þau muna jóladagasölu fyrir Lions. Þau voru með honum í kirkjunni þegar hann var meðhjálpari, mætti oft á kvöldin til okkar með ís og ávexti undir hendinni.

Pabbi dvaldist á Vífilsstöðum og Ísafold í rúm þrjú ár og á starfsfólkið skilið bestu þakkir fyrir frábæra umönnun og alúð sem honum var sýnd.

Hanna þakkar fyrir allt og geymir góðar minningar um mann sem tók henni eins og sinni eigin dóttur alla tíð. Takk fyrir allar minningarnar.

Hannes og Hanna.

Elsku pabbi minn, ég þakka þér fyrir allt. Allar minningar og hvað þú varst mér góður faðir.

Ég vil þig, pabbi, kveðja, þótt brostin sé þín brá

og bleikt og fölt sé ennið, er kossi' þrýsti ég á.

Ég veit ógerla enn þá, hve mikið ég hef misst,

en mér er ljóst, að fölt er ennið, sem ég hefi kysst.

Þótt lát þitt góði faðir, nú leggist þungt á mig

þá lengst af finn ég huggun við minninguna' um þig.

Hún stendur mér svo skýr, og hún er svo helg og heit

og hreinni' bæði og ástríkari' en nokkur maður veit.

Ég vil hér ekki ljóða neitt lof eða hól um þig,

en lengst af þessi hugsun mun fróa og gleðja mig.

Og lengi mun þín röddin lifa' í minni sál

til leiðbeiningar för minni' um veraldarál.

Og tár af mínum hrjóta hvörmum

og heit þau falla niður kinn,

því vafinn dauðans er nú örmum

hann elsku – hjartans pabbi minn.

(Kristján Albertsson)

Elsku pabbi, það er sárt að kveðja en gott að vita að nú líður þér vel.

Þín dóttir,

Sigrún Jóhannsdóttir.

Þá er komið að því að kveðja Jóhann, tengdaföður minn. Kynni mín af Jóa hófust þegar ég kynntist Sigrúnu dóttur hans. Jói tók mér strax vel og auðvelt var að kynnast honum. Við urðum miklir vinir og félagar alla tíð og náðum vel samann.

Jói hafði góða nærveru, var traustur og trúr, með hjartað á réttum stað, hann var einstakur maður og alltaf var húmorinn til staðar hjá honum. Alltaf var hann tilbúinn að aðstoða alla sem leituðu til hans um aðstoð, hann kunni ekki að segja nei við nokkurn mann, var alltaf með lausnir.

Hann var stoltur af fjölskyldu sinni og var tilbúinn að gera allt fyrir hana. Við áttum margar góðar stundir saman og þín verður sárt saknað af fjölskyldunni.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Þinn tengdasonur,

Þorsteinn Gunnarsson.

Elsku yndislegi afi minn. Ég hef nú alltaf sagt að ég sé alin upp að hluta til hjá afa og ömmu í Hofi og afi var einfaldlega besti afi í heimi þar sem hann elskaði barnabörnin sín skilyrðislaust og gerði allt fyrir þau. Ég var svo heppin að fá að „eiga“ hann svolítið fyrir mig fyrstu árin þar sem ég er fyrsta og elsta barnabarnið og lengi vel átti ég hann bara ein, alla vega í mínum huga. Ég var ótrúlega mikil afastelpa og fór út um allt með afa og ömmu. Hvort sem það var með í vinnuna hans afa, heimsókn í Hólminn, ófáar gistinæturnar, Lions-fjölskylduferðir og að selja jóladagatöl rétt fyrir aðventuna. Að fara með afa í slíkar söluferðir krafðist mikillar þolinmæði og maður þurfti að þekkja vel til því afi þekkti alla og datt inn í kaffi í öðru hverju húsi og þá þurfti maður oft að leita að honum, ófá bank á hurðir og lítil stelpa að spyrja hvort afi sinn væri nokkuð staddur í kaffi. Afi var mikill ísmaður og var því alltaf til ís heima hjá ömmu og afa. Súkkulaðibitaís og vanilluís og fullt af frostpinnum sem við börnin fengum að vild. Afi var líka duglegur að kíkja í heimsókn með ís. Og í bland við ísinn var það Tommi og Jenni. Allt tók afi upp á Beta og vhs fyrir okkur og þannig var ég alin upp. Tommi og Jenni og ís. Afi átti lausnir við nánast öllu, t.d. ekki binda hnút á plastpokana heldur búa til lykkju svo hægt sé að nota þá aftur. Ekki leggja matardiskana hvern ofan á annan því þá þarf maður að vaska upp báðar hliðar. Teppi og rúðuskafa voru nauðsynjahlutir í bílnum ef maður skyldi verða stopp einhvers staðar á brautinni yfir vetrartímann. Ef maður var með kvef átti maður að nudda lauk aftan á hálsinn, það væri allra meina bót. Vera með vettlinga í erfiðum verkum svo maður færi ekki illa með hendurnar. Og helst taka inn nógu mikið af þaratöflum. Afi ráðlagði líka um lífsins mál og eitt sinn sagði hann við mig: Elsa mín, þegar hún Sigrún frænka þín var lítil og kom heim eftir að strákarnir voru búnir að stríða henni sagði ég henni að segja bara „já“ og þá létu þeir hana í friði. Eitt skipti notaði ég þetta ráð frá afa og almáttugur. Það fór úr slæmu í hræðilegt. Afi fékk sko að heyra það, að það væru breyttir tímar og svona ráð dygðu ekki lengur. Afi og amma voru dugleg að koma í heimsókn þegar þau höfðu heilsu til og þegar ég eignaðist elsta barnið mitt og fyrsta langafabarnið kom afi oft og að sjálfsögðu með ís. Síðustu ár hef ég saknað þess mikið að sjá ekki bílinn þeirra keyra upp að og afa koma röltandi inn. Mín allra kærasta minning er þegar ég sagði afa að ég væri að fara að gifta mig og ég spurði hann hvort hann treysti sér ekki til að koma. Afi var sparsamur á orðin sín en sagði: Viltu að ég leiði þig inn kirkjugólfið? Ef hann hefði haft heilsu, þá hefði ég haft afa og pabba sitthvorumegin við mig. Elsku afi minn. Söknuðurinn er ólýsanlegur. Síðustu ár hafa verið þér erfið, erfitt að geta ekki séð og tjáð sig almennilega. En ég fékk alltaf viðbrögð frá þér. Þegar ég kynnti þig fyrir nýjasta langafabarninu þínu, henni Birtu Maríu, síðasta sumar, vildi hún knúsa afa sinn og strjúka kinnarnar og tilfinningarnar sem komu fram í andlitinu þínu sögðu meira en allt. Ég elska þig, elsku besti afi minn. Ég trúi því að þú verðir okkar mesti verndarengill og við munum passa ömmu fyrir þig. Þín sonardóttir,

Arnbjörg Elsa.

Jæja, elsku afi minn, þá ertu búinn að kveðja okkur í síðasta skiptið og upp koma hjá mér margar minningar um þig. Það er svo ótal margt sem þú kenndir mér og svo ótal margt sem ég fékk að bralla með þér, t.d. allar álfabrennurnar sem þú leyfðir mér að hjálpa þér með í Vogunum fyrir Lions. Við vorum aðalkarlarnir þarna í því að skvetta olíu á brennuna og halda í henni lífi. Og ófáar eru göturnar sem við gengum saman um Suðurnesin að selja jóladagatöl. Þú áttir erfitt með að fara göturnar í I-Njarðvík þar sem þú þekktir mann í öðru hverju húsi þar og þá þurftir þú að stoppa við í kaffi á öllum stöðunum. Þegar ég var í kringum fermingu fór ég með þér og þú sagðir mér að selja öðrum megin í götunni og þú ætlaðir að taka hinum megin, svo þegar ég var búinn þá fór ég að leita að þér og þá varstu bara búinn með tvö hús því þú varst dreginn inn í kaffi og restin af götunni eftir. Þegar þú bauðst mér með í ferðalag með Lions og við krakkarnir vorum alltaf að reyna að stelast í pilsnerinn þá sagðir þú að pilsnerinn væri hollari en kókið, okkur fannst það svo skrítið. Þegar það var frí í skólanum (fyllerí hjá kennurunum eins og við kölluðum það) fékk ég að fara með þér í vinnuna að keyra út fyrir Málningu hf., það var alltaf rosalegt sport, draumurinn hjá mér var alltaf að taka við bílnum hjá þér þegar þú værir kominn á aldur og halda keyrslunni í fjölskyldunni. Það var alltaf svo notalegt að koma í Hofið og einnig á Garðatorgið til þín og ömmu, kyndingin alltaf á fullu þannig að ef ég sofnaði í leðursófanum í stofunni vaknaði ég kófsveittur og límdist fastur við sófann. Þegar ég bjó hjá ykkur í eina önn í skóla þegar pabbi og mamma fluttu í Njarðvík kláraði ég 8. bekk í Stóru-Vogaskóla, þá fékkstu greiddar barnabætur í fyrsta skiptið og þú varst mjög hissa. Þegar ég keypti fyrsta bíllinn varstu tekinn með á rúntinn í bæinn til að skoða hann og jú eftir að þú varst búinn að sparka í öll dekkin og opna allar dyr þá: Jú Jói, það er eitthvert vit í þessum bíl sagðir þú. Það var líka alltaf þannig að ef maður var í einhverjum vandræðum með peninga gat maður alltaf kíkt til þín og þá reddaðirðu manni, árið 2006 kom ég til ykkar ömmu og sagði ykkur þær stóru fréttir að ég væri að verða pabbi. Þá varðstu hugsi en tókst svo utan um mig og óskaðir mér til hamingju og sagðir þessa gullnu setningu sem ég mun alltaf muna: að ég ætti að vera góður við börnin mín því það væru jú þau sem myndu velja á hvaða elliheimili ég yrði settur. Hinn 1. desember sama ár kom svo í heiminn lítil prinsessa sem fékk nafnið Natalía Ósk og var henni sko tekið vel af þér. Hún hafði miklar áhyggjur af þér þegar fréttin kom um að þú værir mjög veikur og ættir stutt eftir. Hún grét mikið og spurði einnig mikið og velti því fyrir sér að þegar þú dæir myndirðu kannski hitta mömmu þína og pabba og kannski fæðast aftur. Takk fyrir allt afi. Allt sem þú kenndir mér og allt sem þú hjálpaðir mér með. Það er sko heiður að fá að vera alnafni þinn. Svo sjáumst við seinna, þá verður sko partí þarna uppi. Takk fyrir að vera til fyrir okkur Natalíu, við elskum þig endalaust.

Jóhann Ingimar og Natalía Ósk.

Kallið er komið, komin er nú stundin að kveðja móðurbróður minn, sem var mér sem bróðir þar sem ég ólst upp til sjö ára aldurs á hans heimili hjá ömmu og afa. Ég veit að hann var tilbúinn, eins og ætíð, þegar hann var kallaður til flutninga fyrir mig og mína fjölskyldu, alltaf til þjónustu reiðubúinn.

Jói tókst á við veikindin með miklu æðruleysi og treysti Guði fyrir lífi sínu. Glæsimenni var hann, góðmennskan skein af tilfinningaríkum og húmorískum manni og glettnin skein úr augum hans. Það hefur verið glatt á hjalla og vel tekið á móti þér, elsku frændi, og allar þjáningar á bak og burt. Minningar lifa um ókomna tíð og gott að minnast þeirra góðu stunda sem við áttum saman. Takk fyrir allt, elsku frændi.

Ég hef augu mín til fjallanna:

Hvaðan kemur mér hjálp?

Hjálp mín kemur frá Drottni,

skaparahimins og jarðar.

Hann mun eigi láta fót þinn skriðna,

vörður þinn blundar ekki.

Nei, hann blundar ekki og sefur ekki,

hann, vörður Ísraels.

Drottinn er vörður þinn,

Drottinn skýlir þér,

hann er þér til hægri handar.

Um daga mun sólarhitinn eigi vinna þér mein,

né heldur tunglið um nætur.

Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu,

hann mun vernda sál þína.

Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu héðan í frá og að eilífu.

(121. Davíðssálmur)

Elsku Elsa og fjölskylda, sem eruð búin að standa sem klettur við hlið hans í gegnum veikindin, megi góður Guð styrkja og blessa ykkur öll. Guð blessi minningu Jóhanns.

Árný Helgadóttir og fjölskylda.

Jói var glaðlyndur, glettinn og umfram allt góður maður. Góðmennskan skein úr dökkum augunum og virtist vera rauður þráður í öllu sem hann gerði. Nú er hann Jói okkar horfinn frá okkur fyrir fullt og allt. Síðustu árin hvarf hann smám saman sjálfum sér og öðrum vegna veikinda sinna. Það var honum án efa erfið reynsla og sárt fyrir ástvini hans að geta lítið að gert.

Við mæðgur erum tengdar Elsu og Jóa mjög nánum böndum sem bæði helgast af ættartengslum og einstökum vinartengslum. Þau hafa í gegnum tíðina reynst okkur afskaplega vel enda hófum við vegferð okkar saman á heimili þeirra sem hefur æ síðan staðið okkur opið og notalegra heimili er vandfundið. Sama hvað komið var með stuttum fyrirvara þá var alltaf búið að galdra fram hlaðborð af kræsingum og alltaf var manni fagnað með innilegu faðmlagi og blíðustrokum en svo tók grínið fljótt við hjá Jóa og þessi tjáningarríku augu geisluðu af glettni og fjöri. Við viljum þakka Elsu og Jóa fyrir einstaka góðvild í okkar garð og trausta vináttu og sendum Elsu og fjölskyldu okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Guðríður Sigurðardóttir og Birna Sveinsdóttir.

HINSTA KVEÐJA
Kveðja frá eiginkonu.

Í friði og ró svo blítt þú blundar
og bjart er í kringum þig.
Í ljómann þú hverfur til lausnarans fundar,
hann leiðir þig öruggan stíg.
Að líta til baka er ljúft að minnast
þess lífs sem við áttum hér
og guði ég þakka þá
gæfu að kvænast
svo göfugum manni sem þér.
Elskaði vinur, svo orðvar og prúður
hve einlæg var lund þín og hlý.
Á friðarins landi sem fagnandi brúður
ég finn þig að lokum á ný.
Elsku Jói, þín verður sárt saknað. Ástarkveðja,
Elsa Björnsdóttir.
Elsku langafi, við munum sakna þín mikið og varðveita minninguna um kallinn afa sem startaði þessu öllu eins og þú sagðir þegar við komum að heimsækja þig.
Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni,
sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.
(Sig. Jónsson frá Presthólum)
Róbert Andri, Elva Sif, Sunna Dís og Birta María.