Vonbrigði Bjarki Már Gunnarsson, Stefán Rafn Sigurmannsson, Sverre Jakobsson og Alexander Petersson sitja á bekknum daprir í bragði og vonbrigðin yfir frammistöðu liðsins gegn Tékkum leyna sér ekki. Nú þarf íslenska liðið að sigra öfluga Egypta á morgun til að komast í sextán liða úrslitin á HM.
Vonbrigði Bjarki Már Gunnarsson, Stefán Rafn Sigurmannsson, Sverre Jakobsson og Alexander Petersson sitja á bekknum daprir í bragði og vonbrigðin yfir frammistöðu liðsins gegn Tékkum leyna sér ekki. Nú þarf íslenska liðið að sigra öfluga Egypta á morgun til að komast í sextán liða úrslitin á HM. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Katar Ívar Benediktsson Kjartan Þorbjörnsson „Við byrjuðum á að moka holu sem við stukkum ofan í hver á fætur öðrum.

Í Katar

Ívar Benediktsson

Kjartan Þorbjörnsson

„Við byrjuðum á að moka holu sem við stukkum ofan í hver á fætur öðrum. Þetta er mjög slæmt hjá okkur og á margan hátt eftir góðan leik gegn Frökkum,“ sagði Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik, þegar hann gekk af leikvelli eftir 11 marka skell, 36:25, fyrir Tékkum á heimsmeistaramótinu í handknattleik í íþróttahöllinni í Al-Sadd í Doha í Katar í gærkvöldi. Úrslitin þýða að íslenska landsliðið verður að vinna Egypta í lokaleik riðlakeppninnar á morgun til þess að komast í 16-liða úrslit mótsins.

„Við eigum ennþá möguleika á sæti í 16-liða úrslitum sem er undarleg staðreynd eftir það sem á undan er gengið. Nú verður hver og einn leikmaður að taka til hjá sér og skoða hvað hann getur gert betur. Þessi skellur skrifast ekki á einn leikmann heldur liðið eins og það leggur sig. Ég er þar alls ekki undanskilinn,“ sagði Guðjón Valur. Spurður hvort þetta ætti jafnt við um leikmenn sem þjálfara sagði hann svo vera. „Það er alveg sama hvaða hlutverk maður hefur innan hópsins. Nú verða menn að fara yfir og líta í eigin barm,“ segir Guðjón Valur og bætir við að það hafi orðið algjört hrun í leik íslenska landsliðsins strax á fyrstu mínútu og það hafi verið tíu mörkum undir í hálfleik, 21:11.

„Hvert sem litið er í leik okkar þá gengur ekkert hjá okkur,“ sagði Guðjón Valur og bætti við: „Ég er að reyna að vera eins jákvæður og ég get. Ég á mjög erfitt með það eins þú kannski heyrir.

Menn verða að skoða hvort þeir hafi eitthvað meira og betra fram að færa. Við megum ekki láta svona hluti gerast. Sveiflurnar eru alltof miklar í leik okkar. Það er kaldur sannleikurinn. Nú verðum við að hjálpast að við að skríða upp úr holunni sem við grófum í kvöld,“ segir Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska landsliðsins.

Hreinlega til skammar

„Ég veit ekki hvort það er eitthvað viturlegt af minni hálfu að leita að skýringum á þessum arfaslaka leik okkar,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson við Morgunblaðið í Doha í gærkvöldi.

„Þetta var til skammar á öllum sviðum. Við vorum að leika um keppnisrétt í 16-liða úrslitum á heimsmeistaramóti á móti liði sem komið var með bakið upp að vegg. Það leit út fyrir að hlutverkin væru önnur. Við byrjum illa og tekst að skjóta enn einn markvörð andstæðinganna í gang. Það er áhyggjuefni að allir markverðir eru frábærir gegn okkur.

Leikur okkar hrundi eins og spilaborg og þótt honum væri ekki lokið í hálfleik þá var brekkan býsna brött í síðari hálfleik. Ég hef engar skýringar á þessum sveiflum í leik okkar. Það er hreinlega rannsóknarefni,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson sem lék sinn 30. landsleik á heimsmeistaramóti í gærkvöldi.

Á mbl.is/sport/hm_handbolta eru fimm myndskeið með viðtölum við landsliðsmenn og landsliðsþjálfarann, Aron Kristjánsson.