Leikskólinn Edyta og sonurinn Dymitri Daniel Obara saman á góðri stundu. Lífið er leikur og lærdómur í senn.
Leikskólinn Edyta og sonurinn Dymitri Daniel Obara saman á góðri stundu. Lífið er leikur og lærdómur í senn. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Hagstætt húsnæðisverð og næg atvinna, til dæmis í ýmsum framleiðslufyrirtækjum, eru meginástæður þess hve margir útlendingar hafa sest að í Hafnarfirði síðustu árin, segir Edyta Agnieszka Janikula frá Póllandi.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Hagstætt húsnæðisverð og næg atvinna, til dæmis í ýmsum framleiðslufyrirtækjum, eru meginástæður þess hve margir útlendingar hafa sest að í Hafnarfirði síðustu árin, segir Edyta Agnieszka Janikula frá Póllandi. Nærri lætur að um tíund rösklega 27 þúsund bæjarbúa sé af erlendu bergi brotin, fólk sem kemur víða að úr veröldinni. Þau Edyta og Dominik Obora, eiginmaður hennar, fluttu hingað til lands fyrir átta árum, ættingjar hennar voru þá þegar komnir til Íslands og boltinn farinn að rúlla. Fólk sækir einfaldlega þangað sem vinnu og lifibrauð er að hafa.

Fjölsóttar sögustundir

Edyta byrjaði að vinna á Bókasafni Hafnarfjarðar fyrir tveimur árum. Þar sér hún um þjónustu við pólskumælandi fólk, en á safninu er til nokkur fjöldi bóka á þeirri tungu, auk þess sem

Edyta annast vikulegar sögustundir fyrir pólsk börn sem hafa verið fjölsóttar. „Þegar við Dominik giftum okkur síðasta sumar bað ég fólk um að leggja safninu til pólskar bækur og það skilaði talsverðu. Í dag á safnið um 1.500 bækur á pólsku. Tungumálaþekking er lykill fólks að samfélaginu og það er mjög árangursríkt í íslenskunámi af fólk til dæmis les texta fyrst á móðurmáli sínu og svo á íslensku. Þess vegna er frábært að skáldsögur Arnaldar og Yrsu séu nú komnar út í pólskri útgáfu.“

Fyrst eftir að Edyta og Dominik fluttu til Íslands bjuggu þau í Reykjavík og Kópavogi. Síðar lá leiðin í Fjörðinn. „Bærinn heldur vel utan um fólkið sitt og hér er stutt í alla þjónustu. Ég er ekki nema tvær mínútur að ganga í leikskólann á Hörðuvöllum þar sem sonur okkar er. Við leigjum ágæta íbúð hér í hjarta bæjarins. Líkar það vel, við treystum okkur ekki í eignakaup í bráð,“ segir Edyta. „Þá finnst mér bæjaryfirvöld koma vel til móts við fólk af erlendum uppruna sem hér býr og þarf þjónustu. Sjálf var ég spurð að því í fyrra hvað mætti bæta í þeirri þjónustu og þar benti ég á að upplýsingar þyrftu að vera á fleiri tungumálum og úr því á víst að bæta,“ segir Edyta og bætir við að fjölskylda sín sé komin til að vera á Íslandi. Í heimsóknum sínum til Póllands nú finni þau að ræturnar séu hér.

Hefur vegnað vel á Íslandi

Edyta er í hálfu starfi á bókasafninu í Hafnarfirði auk þess sem hún rekur lítið hreingerningafyrirtæki með eiginmanni sínum. Starfsemin, sem hófst síðasta sumar, hefur farið ágætlega af stað.

„Við unnum áður við þrif sem launafólk en fórum svo í eigin rekstur. Verkefnin eru næg, launin ágæt og vinnutíminn sveigjanlegur. Okkur hefur vegnað vel á Íslandi,“ segir bókavörðurinn – kona sem er með allt á hreinu.

Aðlögun að hópnum tekur sinn tíma

Um 7% Hafnfirðinga eru erlendir ríkisborgarar, 13% barna á leikskólum bæjarins eru af erlendum uppruna og tæp 10% grunnskólanema. Þetta kemur fram í skýrslu samráðshóps Hafnarfjarðarbæjar sem kannaði stöðu innflytjenda í bænum. Eins og öðrum bæjarbúum er innflytjendum sinnt vel „en stundum veldur lítil íslensku- og enskukunnátta erfiðleikum“, eins og segir í skýrslunni sem kom út fyrir rúmu ári.

Algengt er að innflytjendabörn hafi ekki verið í íslensku málumhverfi þegar þau koma í leikskólana í Hafnarfirði. Aðlögun þeirra tekur því oft tíma. Sömuleiðis sé takmörkuð tungumálafærni foreldra hindrun í samstarfi. Úr þessu öllu þurfi að bæta og í því efni er íslenskukennsla efst á blaði.

Hvað varðar íþrótta- og tómstundastarf virðist þátttaka barna frá útlöndum minni en annarra. Samskipti við foreldra eru ekki jafngreið og vera skyldi – og fyrir vikið skapast hætta á að börn fylgi ekki hópnum. Einnig er nefnt að gefa þurfi stöðu útlendinga á vinnumarkaði gaum. Hlutfall útlendinga meðal atvinnuleitandi fólks í bænum hefur verið allt að 18%. Í mörgum tilvikum er fólk sem á uppruna sinn á fjarlægri slóð þó afskipt, enda þekkir það ekki réttindi sín né veit hvar til dæmis félagshjálpar er að leita sé þörf á slíku.

Í framhaldi af því að skýrslan kom út haustið 2013 hefur verið farið í ýmsar aðgerðir, að sögn Rannveigar Einarsdóttur, sviðsstjóra fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðar. Ráðinn var verkefnastjóri í forvörnum sem m.a. hefur með málefni innflytjenda að gera. Stofnaður var sjóður sem á að styrkja börn innflytjenda til tómstundaiðkunar og hópur um málefni innflytjenda – vettvangur samráðs og tillagna – er tekinn til starfa.