[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðmunda fæddist í Bolungarvík 23.1. 1920 og ólst þar upp á Grundum fyrstu sex árin en faðir hennar drukknaði, er hún var á fjórða árinu.

Guðmunda fæddist í Bolungarvík 23.1. 1920 og ólst þar upp á Grundum fyrstu sex árin en faðir hennar drukknaði, er hún var á fjórða árinu. Hún flutti með móður sinni að Látrum í Aðalvík 1926, fór ásamt móður sinni til systur sinnar á Ísafirði ári síðar þar sem þær mæðgur bjuggu til 1932 en þá fluttu þær til Reykjavíkur og bjuggu fyrstu árin við Smiðjustíg.

Guðmunda fór ung til Kaupmannahafnar og hóf þar söngnám við Konservatoríið 1939. Aðalkennari hennar þar var Dóra Sigurðsson prófessor. Þá stundaði hún nám hjá Kristian Riis í Kaupmannahöfn, Madame Fouresthier í París og hjá Florence Bower í New York.

Guðmunda söng í óperum, hélt tónleika á Íslandi og víða erlendis, söng t.a.m. við hátíðarmessu á jólum í Hvíta húsinu í forsetatíð Eisenhowers. Þar söng hún m.a. Heims um ból á fimm tungumálum og síðan söng hún þar í þrjú önnur skipti.

Eldri Íslendingum er Guðmunda minnisstæð sem Madame Flora í Miðlinum eftir Menotti og sem Maddalina í Rigoletto. Auk þess söng Guðmunda töluvert í útvarp og inn á hljómplötur. Þá kenndi Guðmunda söng um árabil, í Söngskólanum í Reykjavík, við Tónlistarskóla Akraness og í einkatímum.

Guðmunda lék í ellefu kvikmyndum á sextán ára tímabili.

Guðmunda var um skeið trúnaðarmaður fyrir söngvara í Félagi íslenskra leikara. Hún er heiðurslistamaður Alþingis frá 1995.

Árið 1982 kom út ævisaga Guðmundu, Lífsjátning, sem Ingólfur Margeirsson skráði.

Fjölskylda

Guðmunda giftist 24.10. 1943 Henrik Knudsen, f. 10.8. 1918, d. 8.10. 1993, gullsmíðameistara frá Maribo í Danmörku. Þau bjuggu í Danmörku til 1945 en síðan ýmist á Íslandi, í Danmörku eða í New York þar til þau slitu samvistum.

Börn Guðmundu og Henriks eru Bergþóra, f. 12.6. 1944, d. 1946; Hans Albert, f. 1.10. 1947, d. 27.11. 2009, flugumsjónarmaður i Lúxemborg, var kvæntur Laufeyju Ármannsdóttur og eignuðust þau tvö börn, Henrik Knudsen, f. 25.7. 1984, verkfræðinema við Háskólann í Reykjavík, og Helenu Sif Knudsen, f. 15.11. 1987, sjúkraliða í Lúxemborg; Sif Knudsen, f. 2.7. 1950, sjúkraliði, búsett í Reykjavík, gift Stefáni Ásgrímssyni, f. 24.7.1946, blaðamanni og ritstjóra FÍB blaðsins og eru börn þeirra Guðmundur Elías, f. 23.1. 1974, listdansari og danskennari, og Sigurlaug, f. 6.10. 1978, óperusöngkonu.

Langömmubörn Guðmundu eru átta talsins.

Vorið 1973 giftist Guðmunda Sverri Kristjánssyni, f. 7.2. 1908, d. 26.2 1976, sagnfræðingi og rithöfundi.

Alsystur Guðmundu: Þorgerður, f. 1922, lést í frumbernsku; Þorgerður Nanna, f. 23.5. 1923, d. 22.11. 2000, búsett í Reykjavík.

Hálfsystkini Guðmundu, samfeðra: Jón Árni sem drukknaði rösklega tvítugur; Olga sem lést í bernsku; Sveinbjörn sem drukknaði tvítugur; Olga, nú látin, lengst af búsett í Keflavík; Elías, lést sem ungbarn; Ágústína, nú látin, lengst af búsett í Reykjavík; Jónína, nú látin, var búsett í Hafnarfirði.

Hálfsystkini Guðmundu, sammæðra, Guðmundsbörn: Tvíburarnir Guðmundur og Sigurður sem dóu í frumbernsku; Gunnar Sólberg sem dó sjö ára; Elísabet sem fórst í flugslysi í Búðardal 1947; Kristín Halldóra sem dó í frumbernsku og Gunnar Sólberg sem dó þriggja ára. Foreldrar Guðmundu voru Elías Þórarinn Magnússon, f. 5.11. 1878, d. 7.11. 1923, formaður í Bolungarvík, og s.k.h., Sigríður Jensdóttir, f. 1.2. 1881, d. 2.1. 1968, húsfreyja.