Skilaboð Guðmundur Guðmundsson kemur hér skilaboðum til sinna manna í leiknum gegn Rússum.
Skilaboð Guðmundur Guðmundsson kemur hér skilaboðum til sinna manna í leiknum gegn Rússum. — EPA
Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari Dana, gat andað léttar eftir sigur sinna manna gegn Rússum, 31:28, í næstsíðustu umferð D-riðilsins á heimsmeistaramótinu í handknattleik í Doha í Katar í gærkvöld.

Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari Dana, gat andað léttar eftir sigur sinna manna gegn Rússum, 31:28, í næstsíðustu umferð D-riðilsins á heimsmeistaramótinu í handknattleik í Doha í Katar í gærkvöld. Með sigrinum tryggðu Danir sér sæti í 16-liða úrslitunum og þeir eiga í höggi við Pólverja í úrslitaleik um annað sætið í riðlinum á morgun.

Segja má að Danir hafi lagt grunn að sigri sínum með frábærum lokakafla í fyrri hálfleik. Í stöðunni 8:8 eftir rúman 18 mínútna leik skelltu Danir vörn sinni og marki í lás. Rússar skoruðu ekki mark það sem eftir lifði hálfleiks á meðan Danir skoruðu átta og staðan í leikhléi var 16:8.

Danir héldu fengnum hlut í seinni hálfleiknum. Rússunum tókst að minnka muninn minnst niður í þrjú mörk en sigri Dana varð ekki ógnað. Rasmus Lauge átti sinn besta leik fyrir Dani í háa herrans tíð en hann skoraði níu mörk og línumaðurinn Jesper Nöddespo var með fimm. Mikkel Hansen skoraði fjögur mörk og átti fjölda stoðsendinga.

Hjá Rússunum var Daniil Shishkarev atkvæðamestur með átta mörk en Rússar mæta Argentínumönnum í hreinum úrslitaleik um farseðilinn í 16-liða úrslitin. gummih@mbl.is