Röskur Þorri Geir Rúnarsson leggur sig fram við að gera risavaxið þorrablót Stjörnunnar vel hepnað.
Röskur Þorri Geir Rúnarsson leggur sig fram við að gera risavaxið þorrablót Stjörnunnar vel hepnað. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar þorrinn gengur í garð geta þeir sem heita Þorri átt von á að verða skotspónn brandara. Stríðnin truflar þó lítið enda nafnið skemmtilegt og óvenjulegt.

Fyrir flest okkar hefur þorrinn í sjálfu sér ekki sterka merkingu, nema hvað þessi tími árs er notaður til að borða þjóðlegan mat og máski smakka örlítið af brennivíni í góðra vina hópi.

Hæfilega langt er liðið frá jólum, en enn of langt í páska, og fer vel á því um þetta leyti að finna sér góða afsökun til að halda hátíð og lífga upp á myrkustu vetrarmánuðina.

En fyrir smáan hóp manna er þorrinn annað og meira, og var jafnvel tilefni stríðni þegar þeir voru yngri að árum.

Þetta eru mennirnir sem heita Þorri.

Einn þeirra er listmálarinn Þorri Hringsson. Hann segir Þorra-nafnið hafa verið mjög sjaldgæft árið 1966 þegar faðir hans Hringur valdi nafnið. „Ég hugsa að ég hafi verið Þorri númer þrjú á Íslandi, en hinir tveir voru frændi minn Þorri Þorkelsson, sem er árinu eldri en ég, og Þorri Jóhannsson, sonur Jóhanns Hjálmarssonar skálds, þremur árum eldri en ég.“

Gerðist það því oft að fólk hváði þegar ungur drengurinn var kynntur. „Og þá var oft stutt í brandarann um hvort ég ætti systur sem heitir Góa,“ segir Þorri og bætir við að sá brandari hafi ekki verið bundinn við neinn sérstakan árstíma.

Klikkað nafn

Í dag má finna í símaskránni 26 menn sem bera Þorranafnið sem fyrsta nafn, svo eitthvað hefur fjölgað í hópnum í áranna rás. „Í menntaskóla var annar strákur sem var líka kallaður Þorri, en ef ég man rétt hét hann Þorvarður,“ segir listmálarinn.

Þorri man ekki eftir að það hafi truflað hann mikið þegar gert var grín að nafninu, en það hafi helst verið eldra fólk frekar en yngra sem síendurtók Góu-brandarann. Eftir því sem hann þroskaðist fór Þorra að þykja vænna um nafnið, og gaman að heita „þessu ferlega klikkaða nafni sem enginn annar hefur, og vera Hringsson þar að auki sem er alveg jafnklikkað“.

Óhefðbundnar nafngiftir segir Þorri að séu ættarhefð sem hafi orðið til með afa hans Jóhannesi, föður Hrings. Hann gaf börnum sínum óvenjuleg nöfn á borð við Hugi, Völundur og Freyr. „Sumir afkomendur þessara systkina héldu hefðinni gangandi og er ég gott dæmi þar um.“

Þorri fór svo sjálfur sömu braut þegar hann lét skíra dóttur sína fyrir tuttugu og fjórum árum Iðu Þorradóttur.

Aldrei óskaði Þorri þess að hafa fengið „venjulegra nafn“ og ef eitthvað er hefur nafnið verið honum styrkleiki. „Fyrir myndlistarmann spillir alls ekki fyrir að bera nafn sem sker sig úr fjöldanum.“

Merkilegt nokk hefur Þorri Hringsson aldrei farið á þorrablót, þó ekki þyki honum maturinn vondur. „Mér var eitt sinn boðið í þorrablót norður í Aðaldal en komst ekki. Maturinn finnst mér allt í lagi þó ég beri mig ekki sérstaklega eftir honum, og ágætt að smakka súrt slátur ef það er í boði, við rétt tækifæri. Þetta er þó varla matur sem ég nenni að laga sjálfur.“

Höfðaði til hégómagirndarinnar

Þormóður Dagsson fjölmiðlamaður og þýðandi er yfirleitt kallaður Þorri. Hann minnist þess að það hafi gerst snemma á grunnskólagöngunni að börnin fóru að gantast í honum um þetta leyti árs.

„Þetta var alltaf jafnvinsæll brandari og fyrir vikið varð þorrinn ekki beinlínis ein af mínum uppáhalds hátíðum.“

Þorri segir að það hafi ekki beinlínis gert hann stoltan að vera kenndur við þorramatinn, en þó var eitthvað sem höfðaði lúmskt til hégómagirndarinnar, við að bera nafn sem væri svona nátengt merkilegum tíma á almanakinu.

Segir hann Þorra- eða Þormóðsnafnið í raun ekki hafa verið til mikilla vandræða fyrr en leiðin lá út í heim í nám. „Þar kom fljótlega í ljós hvað fólk átti erfitt með að bera nafnið fram og varð því Thors-nafn þrumuguðsins ofan á í staðinn.“

Erfitt að narta í varirnar

Þorri stendur svo undir nafni þegar kemur að því að þykja þorramatur góður. „Mér þykja öll veisluhöld skemmtileg, þorrablót þar á meðal og allt sem þeim tilheyrir. Þau þorrablót sem ég hef sótt eru með þeim bestu skemmtunum sem ég hef upplifað,“ segir Þorri og bætir við að í seinni tíð sé hann meira að segja farinn að geta nartað aðeins í sviðakjamma.“

Segir hann að þorramatur hafi oft verið á borðum á æskuheimilinu en þó hafi kallað á ákveðið átak að leggja til atlögu við kjammann. „Það er erfitt að verjast þeirri tilhugsun að maður er að narta í sig andlit, og ekki stutt í ógeðstilfinninguna þegar maður bítur t.d. í varirnar. Fer ekki milli mála nákvæmlega hvaða hluta sauðkindarinnar maður er að innbyrða í hverjum bita. Hákarlinn borða ég mest upp á „kickið“ og þá helst ef brennivínsstaup fylgir strax á eftir.“

Fær nokkur skot á þorrablótinu

Þorri Geir Rúnarsson er alveg ekta Garðbæingur; nemandi við Verslunarskólann, Stjörnumaður í húð og hár og upprennandi fótboltakempa.

Í hans tilviki kom fyrsta stríðnin vegna Þorranafnsins ekki til vegna þorra-mánaðarins heldur gat hann skrifað stríðnina á vinsælt barnalag með Ladda um Þorra þorsk. „Síðan fara krakkarnir smám saman að átta sig á að þorrinn var líka eitthvert fyrirbæri í janúarlok og brandarnir meðal annars á þá leið að gaman væri að blóta mér, enda rétti tíminn fyrir þorra-blót. Ég stóð þetta af mér og blótaði bara til baka og tók eins og hverju öðru glensi. Þetta hafði engin áhrif á mig af því að mér þykir vænt um nafnið, ekki síst vegna þess að ég heiti eftir Þorgerði móðurömmu minni sem lést fyrir aldur fram.“

Tal um Þorra-mat hefur síðan reynst klassískur brandari i gegnum skólagönguna, og nefnir Þorri fimmaurabrandara um hrútspunga. Hann er líka vanur að starfa sem sjálfboðaliði á árlegu þorrablóti Stjörnunnar og fær þar sinn skammt af árvissum léttum skotum.

Þorri hefur afskaplega gaman af að taka þátt í viðburðinum sem hann segir skipta máli fyrir fjáröflun félagsins en líka vera skemmtilegt sprell að fylgjast með. Þorramaturinn leggst hins vegar misvel í unga íþróttamanninn.

Lyktin af hákarlinum er nóg

„Harðfiskur finnst mér ágætur, en því fer fjarri að mér þyki þorramaturinn spennandi, og þykir mér þó alla jafna gott að borða.“

Var það einkum amma Þorra sem reyndi að halda þorramatnum að honum og man hann eftir að hafa smakkað hjá henni sviðasultu. „En lyktin af hákarlinum er meira en nóg fyrir mig. Þegar þorramatur var í boði gekk ég bara í harðfiskinn, ef ekki var þá eldað eitthvað sér fyrir okkur afkvæmin.“

En aftur að þorrablóti Stjörnunnar, sem Þorri segir einn af hápunktum ársins. Hvað fær unga fólkið að gera þar?

„Við sjálfboðaliðarnir tökum að okkur tilfallandi verkefni og sinnum ýmsu því sem komið getur upp á meðan viðburðurinn stendur yfir. Eitt af því sem hópurinn þarf að leggja sig sérstaklega fram við er að ganga á veislugesti með happdrættismiða, og selja eins mikið af þeim og við getum svo að sem mest fé safnist fyrir félagið.“ ai@mbl.is