Þekkja einstaklinga Hnúfubakur sýnir sporðinn á listsýningu í Eyjafirði, en hægt er að þekkja einstaklinga í stofninum á litasamsetningu, mynstri og öðrum einkennum á sporði og bakhyrnu.
Þekkja einstaklinga Hnúfubakur sýnir sporðinn á listsýningu í Eyjafirði, en hægt er að þekkja einstaklinga í stofninum á litasamsetningu, mynstri og öðrum einkennum á sporði og bakhyrnu. — Morgunblaðið/Sigurður Ægisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Suðurferð hnúfubaks sem var merktur með gervihnattasendi í Eyjafirði 10. nóvember hefur þegar veitt ákveðnar upplýsingar um hegðan þessara dýra með sendingum í 74 daga.

Sviðsljós

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Suðurferð hnúfubaks sem var merktur með gervihnattasendi í Eyjafirði 10. nóvember hefur þegar veitt ákveðnar upplýsingar um hegðan þessara dýra með sendingum í 74 daga. Um leið hafa aðrar spurningar vaknað og víst er að vísindamenn fylgjast náið með ferðum hvalsins og vona að sendirinn sendi upplýsingar sem lengst. Gísli Víkingsson, hvalasérfræðingur á Hafrannsóknastofnun, getur sér þess til að hnúfubakurinn sé á leið í Karíbahafið þar sem eru þekktar æxlunarstöðvar hnúfubaka.

Seinna á ferðinni

Hnúfubakar eru þeirrar gerðar að hægt er að þekkja einstaklinga í hjörðinni á litasamsetningu, mynstri og öðrum einkennum á sporði og bakhyrnu. Þannig hefur samanburður á myndum íslenskra vísindamanna og kollega þeirra sem fylgjast með hnúfubak í Karíbahafinu staðfest að tilteknir einstaklingar eru á myndum frá báðum stöðum.

Hnúfubakar halda til hér við land í fæðuöflun og fitusöfnun frá sumri og fram á vetur. Þá hafa þeir haldið á æxlunarstöðvar og nota forðann í ferðalagið og „ljúfa lífið“ í Karíbahafinu eða á öðrum æxlunarstöðvum frá því um miðjan desember og fram í mars.

Gísli segir að áður hafi verið talið að hnúfubakur héldu síðla hausts frá Íslandi, en með sendingum frá hvalnum sem í gær var suður af Grænlandi og með sendingum frá öðrum hnúfubak fyrir nokkrum árum, hefðu fengist vísbendingar um að þeir geti allt eins farið héðan um miðjan vetur og synt þá hratt suðvestur á bóginn.

Unglingar að æfa sig?

Í tilviki dýrsins sem merkt var 10. nóvember í Eyjafirði dvaldi það fyrir norðan land í tvo mánuði og hringsólaði þar til allt í einu að það tók á rás. Gísli segir að vitað sé að hluti stofns hnúfubaks sé við landið yfir vetrartímann og fylgi loðnugöngum sem hann virðist vera sólginn í.

Án þess að það sé staðfest hafi menn ímyndað sér að þar væru, a.m.k. að hluta til, ókynþroska dýr. Síðustu ár hafi vísindamenn rannsakað hljóð hnúfubaka á Skjálfanda og víðar. Þeir hafi greint æxlunarhljóð, sem gjarnan eru kölluð „söngur hnúfubaksins“ í Karíbahafinu. Mögulega séu hnúfubakar einnig farnir að æxlast í Norðurhöfum og fari því í minna mæli suður á bóginn. Hugsanlega séu þarna „unglingar að æfa sig fyrir það sem koma skal,“ eins og Gísli orðar það.

Mikil breyting hefur orðið á stærð stofns hnúfubaks við landið á síðustu árum. Í stórri hvalatalningu árið 1987 var metið að um tvö þúsund dýr hafi verið á svæðinu við Ísland. Þeim fjölgaði síðan gífurlega og voru um 14 þúsund árið 2007.

Merktu fimm hnúfubaka

Upp úr 1980 hafi eitthvað gerst, hnúfubakurinn virðist hafa komist yfir einhvern þröskuld og fjölgað mjög við landið. Ekki sé útilokað að stærð stofnsins hafi náð hámarki miðað við vistkerfið því ekki var marktækur munur á talningu 2001 og 2007. Það kemur væntanlega í ljós í stórri hvalatalningu í sumar.

Alls voru fimm hnúfubakar merktir með gervitunglasendum í Eyjafirði á tímabilinu 10. – 15. nóvember í haust, en rannsóknirnar voru styrktar af RANNÍS. Nothæfar upplýsingar hafa fengist um staðsetningu fjögurra þessara dýra, en merki berast enn frá einu dýranna, eins og fyrr er rakið. Hnúfubakarnir voru allir merktir í grennd við Hrísey, en þar var mikið um hval í nóvember, mest hnúfubakar en einnig hrefnur og hnísur.

Ólíkir ferlar

Á vef Hafrannsóknastofnunar segir m.a.: „Athyglisvert er hve ólíkir ferlarnir eru fyrir þessa fjóra hnúfubaka sem merktir voru með nokkurra daga millibili í Eyjafirði þar sem þeir voru hluti af stórri hvalahjörð. Tvö dýrana hafa haldið langt suður í höf, hugsanlega á leið til æxlunarstöðva í sunnanverðu Norður-Atlantshafi.

Athyglisvert er að um einn og hálfur mánuður leið á milli brottfarartíma þessara hvala, en báðir fóru þó seinna en almennt hefur verið talið að væri fartími skíðishvala að hausti. Hinir tveir hvalirnir voru mun staðbundnari, en hafa ber í huga stuttan sendingatíma annars þeirra.“