Frá gullöldinni Olíugróði síðustu ára í Noregi birtist í glæsilegum skrifstofubyggingum við aðaljárnbrautarstöðina í Ósló.
Frá gullöldinni Olíugróði síðustu ára í Noregi birtist í glæsilegum skrifstofubyggingum við aðaljárnbrautarstöðina í Ósló. — Morgunblaðið/Baldur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldur@mbl.is Norska fjármálafyrirtækið DNB spáir mjúkri lendingu í norska hagkerfinu í kjölfar olíuhrunsins. Kjersti Haugland, yfirhagfræðingur hjá DNB, fór yfir þessa spá bankans í samtali við Morgunblaðið í Ósló í gær.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldur@mbl.is

Norska fjármálafyrirtækið DNB spáir mjúkri lendingu í norska hagkerfinu í kjölfar olíuhrunsins.

Kjersti Haugland, yfirhagfræðingur hjá DNB, fór yfir þessa spá bankans í samtali við Morgunblaðið í Ósló í gær.

Hún segir þess vænst að olíuhrunið muni hafa mest efnahagsleg áhrif á vesturströnd Noregs, einkum í höfuðstað olíuiðnaðarins, Stafangri, og í Norður-Noregi, þar sem hafa verið miklar væntingar um olíu- og gasvinnslu á nýjum svæðum, þar með talið Barentshafi.

Olíuhrunið muni seinka vinnslu á nýjum svæðum en eftir því sem olíuverðið hækkar á ný á næstu árum muni fjárfesting í slíkum verkefnum aukast á ný. Horfir bankinn í því efni til þess að olíuvinnsla úr leirsteini í Bandaríkjunum geti í sumum tilfellum verið á mörkum þess að vera arðbær þegar olíuverðið er jafn lágt og nú.

Verð gæti hækkað um 40% í ár

Sérfræðingar DNB spá því að meðalverð á tunnu af olíu verði um 65 dalir í ár og að verðið í árslok verði um 70 dalir. Olíuverðið er nú um 50 dalir og þarf það því að hækka um 40% í ár til þess að spáin gangi eftir.

Að sögn Haugland spáir bankinn því að atvinnuleysi í Noregi aukist úr 3,5% í fyrra í 4,5% árið 2017 – þegar það nái hámarki – og að 24 þúsund fleiri verði þá á atvinnuleysisskrá en nú. Samdráttur í olíugeiranum muni koma niður á hagvexti.

Samdrátturinn í olíuiðnaðinum muni hafa í för með sér að kaupmáttur aukist aðeins um 0,5% í ár sem sé minnsta aukningin frá 1995.

Á hinn bóginn skapi það öðrum atvinnugreinum tækifæri að launakostnaður sé að lækka. Fyrirtæki í öðrum greinum muni þannig verða samkeppnisfær í launum hjá sérfræðingum, til dæmis verkfræðingum, sem olíugeirinn hefur sogað til sín.

Ávöxtunin vegur á móti lækkun

Þeirri reglu hefur verið fylgt í Noregi frá árinu 2001 að norska ríkisstjórnin má nota að hámarki sem nemur 4% af verðmæti norska olíusjóðsins til opinberra útgjalda.

Haugland segir að núverandi ríkisstjórn hafi ákveðið að hlutfallið skyldi vera 3% í ár. Vegna góðrar ávöxtunar sjóðsins verði útgjöldin aðeins sem svarar 2,5% af verðmæti olíusjóðsins. Það sé mat bankans að jafnvel þótt olíuverðið lækkaði niður í 40 dali á tunnuna og ekkert svigrúm væri til að leggja sjóðnum til fé muni vextir og arðsemi fjárfestinga í ár vega þar upp á móti. „Það setur svigrúmið sem er fyrir hendi í samhengi,“ segir Haugland og bendir á að veiking norsku krónunnar hafi aukið virði eigna sjóðsins í öðrum myntum.

Vaxtalækkun heldur verði uppi

Greiningardeild bankans telur að húsnæðisverð muni haldast stöðugt í Noregi. Vaxtalækkanir norska seðlabankans muni lækka greiðslubyrði norskra húsnæðislána sem eru að sögn Haugland flest með breytilega vexti. Það muni vega á móti neikvæðum áhrifum olíuhrunsins á hagkerfið.

Norðmenn skulda að meðaltali sem nemur 200% af árlegum ráðstöfunartekjum og hefur hlutfallið aldrei verið svo hátt.

Minni umsvif í olíuiðnaðinum muni koma niður á hótel- og ráðstefnugeiranum í Noregi, einkum í Stafangri, og á veitinga- og þjónustugeiranum. Bókanir á norskum hótelum hafi minnkað. Á hinn bóginn muni lægra gengi norskrar krónu skapa tækifæri í ferðaþjónustu.

Engin kreppa í Noregi

Greiningardeild DNB telur að gengi norsku krónunnar hafi lækkað of mikið vegna olíuhrunsins. Það sé of lágt skráð og muni hækka um 5% gagnvart evru í ár. Rökstyður Haugland það með vísan til efnahagshorfa í Noregi. „Það er engin kreppa í Noregi,“ segir hún. Haugland segir neikvæðar efnahagshorfur á evrusvæðinu hafa neikvæð áhrif á fjárfestingar norska olíusjóðsins í Evrópu. Hins vegar hafi inngrip Evrópska seðlabankans með magnbundinni íhlutun, eða peningaprentun, haft jákvæð áhrif á verðmæti eignasafnsins. Hún segir sérfræðinga DNB vera bjartsýnni á horfurnar á evrusvæðinu en sérfræðingar margra fjármálafyrirtækja og telji ekki að evrusvæðið muni liðast í sundur.