Lögmæti Deilt var um lögmæti tillögu Jóns Gunnarssonar í gær.
Lögmæti Deilt var um lögmæti tillögu Jóns Gunnarssonar í gær. — Morgunblaðið/Ómar Óskarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis, lagði fram munnlega tillögu á fundi nefndarinnar í gær um að skoðað yrði hvort fjórir virkjanakostir til viðbótar við Hvammsvirkjun ættu að vera í nýtingarflokki.

Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis, lagði fram munnlega tillögu á fundi nefndarinnar í gær um að skoðað yrði hvort fjórir virkjanakostir til viðbótar við Hvammsvirkjun ættu að vera í nýtingarflokki. Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri-grænna, greindi frá þessu á þingfundi í gær og vakti tillagan mikil viðbrögð á meðal þingmanna.

Forsætisnefnd kölluð saman

„Þetta mál er ekki bara háð venjulegri þinglegri meðferð eða meirihluta í nefndum. Um svona mál gilda sérstök lög, hvernig eigi að breyta virkjunarkostum og færa milli flokka. Í þeim lögum segir að ráðherra eigi að gera tillögur um nýja virkjunarkosti á grundvelli umsagnar verkefnastjórnarinnar, ekki formaður atvinnuveganefndar. Hér er því um lögbrot að ræða,“ sagði Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar. Aðrir þingmenn stjórnarandstöðunnar sögðu í ræðum sínum að breytingartillagan bryti gegn samkomulagi flokkanna um rammaáætlunina. Gerðu þeir því skóna að markmið stjórnvalda væri að afnema rammaáætlun. Var Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, hvattur til að kalla saman forsætisnefnd til þess að kanna hvort Jón gæti lagt fram umrædda breytingartillögu. Í kjölfar fundarins steig Einar í pontu og sagði að hann gæti ekki sem forseti þingsins skert rétt manna til þess að koma með breytingartillögur.

Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, gagnrýndi síðan Jón Gunnarsson harðlega í umræðum um fundarsköp forseta, sem hófust eftir að forseti þingsins lauk máli sínu. Kallaði hann Jón „pólitíska gungu“ fyrir að þora ekki að skrifa tillögur sínar niður á blað. „Það hefur enginn séð tillögu háttvirts þingmanns, hann hefur ekki þorað að skrifa hana niður á blað. Hvar er hana að finna? Hún er bara í hausnum á háttvirtum þingmanni. Ég vorkenni houm að vera svona mikill pólitískur heigull að þora ekki að fara fram með eigið mál,“ sagði Róbert. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði að farið væri með margt rangt mál í þingsal. Breytingartillagan hefði aðeins verið lögð fram til umsagnar í þinginu. Þá hefði engin ákvörðun verið tekin um að virkja.

bmo@mbl.is

Fjórir kostir úr biðflokki

Virkjanirnar sem um ræðir eru Hvammsvirkjun, Holtavirkjun, Urriðafossvirkjun í Þjórsá og Hagavatnsvirkjun. Í nóvember á síðasta ári lagði Jón fram tillögu á Alþingi um að átta virkjunarkostir yrðu skoðaðir og mætti sú tillaga mikilli andstöðu á þingi. Jón Gunnarsson vísaði gagnrýni þingmanna á bug í gær og sagði að aðeins stæði til að skoða hvort þessir kostir ættu heima í nýtingarflokki og að umsagnarfrestur hefði verið gefinn fram í febrúar. Eins og staðan er í dag eru þessir fjórir kostir í bið.