Nanjing Viðar Örn Kjartansson flytur í 8 milljóna borg.
Nanjing Viðar Örn Kjartansson flytur í 8 milljóna borg.
Víðir Sigurðsson vs@mbl.is „Mér líst mjög vel á mig hjá félaginu og bíð spenntur eftir því að byrja að æfa og spila með liðinu. Ég veit að ég er að fara í sterkari deild en í Noregi og líklega töluvert öðruvísi.

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

„Mér líst mjög vel á mig hjá félaginu og bíð spenntur eftir því að byrja að æfa og spila með liðinu. Ég veit að ég er að fara í sterkari deild en í Noregi og líklega töluvert öðruvísi. En það er bara áskorun að takast á við það og ég mun gera allt sem þarf til að standa mig vel hér,“ sagði Viðar Örn Kjartansson knattspyrnumaður við Morgunblaðið í gær, eftir að hann skrifaði í gær undir þriggja ára samning við kínverska félagið Jiangsu Sainty frá Nanjing, sem kaupir hann af Vålerenga í Noregi.

„Ég fer aftur til Noregs á morgun (í dag) en flyt síðan til Kína næsta fimmtudag og hef þá æfingar með liðinu. Ég skoðaði umhverfið og völlinn í dag og þetta eru toppaðstæður, stórglæsilegur keppnisvöllur og frekar stórt æfingasvæði við hliðina á honum. Þetta er allt til fyrirmyndar,“ sagði Viðar en leikvangurinn rúmar 65 þúsund áhorfendur. Meðalaðsókn á leik í fyrra var 24 þúsund manns og hefur best verið 31 þúsund árið 2012.

Líflegir stuðningsmenn mættu á flugvöllinn

Hann fékk góðar móttökur við komuna til Nanjing en fjöldi stuðningsmanna Sainty beið eftir honum á flugvellinum. „Já, þetta var líflegt. Þeir sungu hástöfum og eltu mig að bílnum á meðan ég sinnti þeim af bestu getu í áritunum og myndatökum,“ sagði Viðar.

Keppni í kínversku úrvalsdeildinni hefst í byrjun mars en lið Sainty endaði þar í 8. sæti af 16 liðum í fyrra og hefur leikið í efstu deild frá 2009. Besti árangurinn er annað sæti árið 2012 og þá fékk liðið silfurverðlaunin í bikarkeppinni á síðasta ári.