Skóli Hvassaleitisskóli sameinaðist Álftamýrarskóla í Háaleitisskóla.
Skóli Hvassaleitisskóli sameinaðist Álftamýrarskóla í Háaleitisskóla. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins halda því fram að ný úttekt sem Intellecta vann fyrir innri endurskoðun Reykjavíkurborgar um sameiningu skóla sé áfellisdómur yfir öllu sameiningarferlinu.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins halda því fram að ný úttekt sem Intellecta vann fyrir innri endurskoðun Reykjavíkurborgar um sameiningu skóla sé áfellisdómur yfir öllu sameiningarferlinu. Úttektin á stofnun skóla- og frístundasviðs borgarinnar og sameiningu grunnskóla var lögð fram í borgarráði í gær. Fulltrúar meirihlutans líta öðrum augum á úttektina og segja margt fá þar góða einkunn þótt alvarlegar athugasemdir séu gerðar við samráðsskort.

Í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins segir að í úttektinni sé í einu og öllu tekið undir gagnrýni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á sameiningu skóla. „Rauði þráðurinn í skýrslunni er að samráð var algjörlega ófullnægjandi auk þess sem skorti framtíðarsýn og faglegar og fjárhagslegar forsendur. Í sem skemmstu máli fær sameiningarferlið, undirbúningur og framkvæmd verksins falleinkunn,“ segir þar.

Miklar deilur urðu um sameiningu grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu á sínum tíma, sem meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar réðst í á síðasta kjörtímabili.

Meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri-grænna og Pírata bókaði á móti á borgarráðsfundinum í gær að þeir flokkar sem stæðu að nýjum meirihluta sem áttu á þessum tíma sæti í borgarstjórn hefðu ekki verið samstiga í afstöðunni til skólasameininga á síðasta kjörtímabili. Núverandi meirihluti væri hins vegar sammála um það mat að skýrslan bæri með sér að í verkefninu hefði margt verið vel gert og fengi góða einkunn en gerðar væru alvarlegar athugasemdir við mikilvæga þætti, ekki síst þá sem lytu að samráði við hagsmunaaðila og skorti á pólitískri samstöðu.