Repjupressun Feðgarnir og minkabændurnir í Ásgerði taka nýju pressuna í notkun, f.v. Páll Sigurðsson, Sigurður Jónsson og Þorbjörn Sigurðsson.
Repjupressun Feðgarnir og minkabændurnir í Ásgerði taka nýju pressuna í notkun, f.v. Páll Sigurðsson, Sigurður Jónsson og Þorbjörn Sigurðsson. — Ljósmynd/Ólafur Eggertsson
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Byrjað er að pressa repjufræ í Ásgerði í Hrunamannahreppi. Repjuolían verður notuð í minkafóður í stað aðkeyptrar fitu og allt hratið sömuleiðis sem próteingjafi í fóðrið. Er þetta nýjung hér á landi.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Byrjað er að pressa repjufræ í Ásgerði í Hrunamannahreppi. Repjuolían verður notuð í minkafóður í stað aðkeyptrar fitu og allt hratið sömuleiðis sem próteingjafi í fóðrið. Er þetta nýjung hér á landi.

Feðgarnir og loðdýrabændurnir Þorbjörn Sigurðsson og Sigurður Jónsson í Ásgerði hafa ræktað repju og nepju í þrjú ár. Þorbjörn segir að þeir hafi verið að prófa sig áfram með mismunandi afbrigði og uppskeran verið misjöfn. Í sumar fengust aðeins 1,5 tonn af þurrkuðu fræi af hverjum hektara en áður höfðu mest náðst 2,8 tonn. Safnast hafa upp um 30 tonn af repjufræi og nú ákváðu bændur að kaupa sér pressu til að gera úr því verðmæti.

Þorbjörn segir að notuð sé aðkeypt olía til að styrkja minkafóðrið á sumrin, þegar auka þurfi orkuna í því. Þorbjörn segir að repjuolía úr þeirra eigin uppskeru komi aðeins í stað hluta þeirrar olíu sem keypt er að. Hann tekur fram að repjuolían sé mjög góð í fóðrið en margfalda þurfi ræktunina til að hún geti komið alveg í stað annarrar fitu.

Prófa hvernig hratið virkar

Þorbjörn hefur hug á því að nota hratið sem til fellur við pressunina til að auka próteinið í fóðrinu. Segir að oft vanti prótein á veturna og í minna mæli á sumrin. Fiskimjöl hefur mikið verið notað í þessum tilgangi en það er dýrt enda hágæðaprótein.

„Við eigum eftir að prófa hvernig hratið virkar, hvernig hægt er að nýta það í stað aðkeyptra hráefna,“ segir Þorbjörn og lætur þess getið að hann sé að afla sér upplýsinga hjá sérfræðingum um þetta.

Hálmurinn sem til fellur við repjuræktina nýtist einnig, ýmist sem undirburður undir dýrin eða til sölu í svepparækt.

„Þetta er liður í að nýta landið sem maður á. Ég rækta korn og repju með skít frá búinu og nota engan tilbúinn áburð. Svo er gaman að fást við eitthvað nýtt,“ segir Þorbjörn.