[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bogi Þór Arason bogi@mbl.is Ríkisstjórn Úkraínu skýrði í gær frá því að uppreisnarmenn, sem njóta stuðnings Rússa, hefðu náð alþjóðaflugvellinum í Donetsk á sitt vald eftir harðar árásir síðustu daga.

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Ríkisstjórn Úkraínu skýrði í gær frá því að uppreisnarmenn, sem njóta stuðnings Rússa, hefðu náð alþjóðaflugvellinum í Donetsk á sitt vald eftir harðar árásir síðustu daga.

Varnarmálaráðuneytið í Kænugarði viðurkenndi að stjórnarherinn hefði aðeins nokkrar byggingar í grennd við flugvöllinn á valdi sínu. Alþjóðaflugvöllurinn var áður einn af bestu og fjölförnustu flugvöllum Austur-Evrópu. Flugstöðin var endurbyggð fyrir jafnvirði tæpra 130 milljarða króna fyrir lokakeppni Evrópumótsins í fótbola í Úkraínu og Póllandi árið 2012 en margar bygginganna hafa verið lagðar í rúst. Flugvöllurinn hefur haft táknræna þýðingu fyrir stjórnarherinn og uppreisnarmennina, að sögn fréttaskýrenda. Þeir segja að það sé mikið áfall fyrir ríkisstjórn Úkraínu að uppreisnarmennirnir skyldu ná flugvellinum á sitt vald og það veiki stöðu hennar í samningaviðræðum við aðskilnaðarsinnana í austurhéruðum landsins.

Skýrt var frá brottflutningi herliðsins frá flugvellinum nokkrum mínútum eftir að minnst þrettán óbreyttir borgarar biðu bana þegar flugskeyti eða sprengjum var skotið á rafknúinn strætisvagn nálægt miðborg Donetsk. Stjórn Úkraínu kenndi uppreisnarmönnum um árásina en stjórnvöld í Rússlandi neituðu því og sögðu að stjórnarhermenn hefðu verið að verki.

Segja þúsundir rússneskra hermanna í Úkraínu

Uppreisnarmenn drógu úkraínskan stjórnarhermann, sem þeir höfðu tekið til fanga, að staðnum þar sem árásin var gerð og borgarbúar gengu í skrokk á honum. Seinna voru um 20 fangar úr röðum stjórnarhermanna fluttir á staðinn og hópur borgarbúa kastaði á þá snjóboltum og glerbrotum úr strætisvagninum, að sögn fréttaveitunnar AFP .

Alls biðu 40 manns bana í árásum í Austur-Úkraínu í gær og yfir 5.000 hafa látið lífið í átökunum frá því að þau hófust í apríl á liðnu ári.

Stjórnin í Kænugarði sagði í fyrradag að um 9.000 rússneskir hermenn hefðu verið sendir til Austur-Úkraínu til að berjast með uppreisnarmönnunum. Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, sagði að rússneskir hermenn hefðu verið sendir inn í austurhéruð Úkraínu síðustu mánuði. „Ég vil ekki nefna neina ákveðna tölu, því við höfum séð að Rússar hafa sent herlið frá og til Úkraínu síðustu mánuði og þeir eru með fjölmennar hersveitir við landamærin. Við höfum líka séð fleiri þungavopn og rússnesk hernaðartæki í Austur-Úkraínu.“

Hættur að tala um Nýja-Rússland

Nokkrir fréttaskýrendur telja að Rússar hafi aukið stuðninginn við uppreisnarmennina að undanförnu. Aðrir eru á öðru máli og segja að fram hafi komið vísbendingar um að Vladímír Pútín Rússlansforseti og ráðherrar hans séu að reyna að koma í veg fyrir að átökin harðni.

„Ef Úkraínuher sækir fram og kemst inn í Donetsk, svo dæmi sé nefnt, þarf Pútín forseti að bregðast við því og lendir þá í ógöngum,“ hefur fréttavefur breska ríkisútvarpsins eftir Dmítrí Trenín, forstöðumanni Carnegie-miðstöðvarinnar í Moskvu. „Ef hann reynir að snúa þróuninni við þarf hann að stórauka hernaðaraðstoðina og það gæti haft hörmulegar afleiðingar. Það er ekki það sem hann vill.“

Fréttaveitan Reuters segir að Pútín sé hættur að tala um yfirráðasvæði uppreisnarmannanna sem „Nýja-Rússland“ og noti þess í stað orðin „alþýðulýðveldin Lúgansk og Donetsk“. Fréttaskýrendur telja að þetta geti verið til marks um að málflutningur Pútíns í Úkraínudeilunni kunni að breytast. Rússar hafa notað orðið Nýja-Rússland yfir landsvæði sem Katrín mikla innlimaði í Rússland á átjándu öld.

Verðbólga hættulegust fyrir Pútín

Efnahagur Rússlands hefur snarversnað síðustu mánuði vegna lágs olíuverðs og það er farið að hafa áhrif á daglegt líf landsmanna. Það er ekki aðeins áhyggjuefni fyrir Rússa, heldur einnig fyrir grannþjóðir þeirra, að mati Tors Bukkvolls, sérfræðings í málefnum Rússlands við rannsóknastofnun norska hersins.

„Ráðamenn, sem hrekjast út í horn, eru ófyrirsjáanlegri en aðrir ráðamenn. Það getur verið ógnvænlegt, einnig fyrir önnur lönd en Rússland,“ hefur fréttavefur Aftenposten eftir Bukkvoll.

Heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað um rúman helming frá því í fyrrasumar og það hefur orðið til þess að tekjur rússneska ríkisins hafa minnkað til mikilla muna. Um 50% af tekjum rússneska ríkisins koma frá olíu- og gasvinnslu.

Um 68% af útflutningstekjum Rússa koma frá sölu á olíu og gasi, þar af 33% frá útflutningi á hráolíu, einkum til Evrópu.

Lækkun olíuverðsins hefur orðið til þess að gengi rúblunnar hefur lækkað mjög gagnvart Bandaríkjadollar. Fyrir ári greiddu Rússar 33 rúblur fyrir dollarann en nú kostar hann 63 rúblur.

Gengisfallið hefur ýtt undir vaxandi verðbólgu sem má einnig rekja til þess að rússneska stjórnin ákvað að banna innflutning á matvörum frá Vesturlöndum til að svara refsiaðgerðum þeirra vegna Úkraínudeilunnar. Verð á kjöti, fiski og grænmeti hækkaði t.a.m. um 20% á liðnu ári og verð á sykri hækkaði um 40%, að því er fram kemur á fréttavef Aftenposten .

Bukkvoll telur að ef andstaðan við Vladimír Pútín forseta eykst í Rússlandi verði það vegna hækkandi matvælaverðs. „Allar skoðanakannanir benda til þess að Rússar óttist mest verðbólgu. Ef verð matvæla heldur áfram að hækka getur stuðningurinn við Pútín minnkað hratt,“ hefur Aftenposten eftir Bukkvoll. Hann bendir þó á að fylgi Pútíns er enn mikið í Rússlandi. Um 70% myndu kjósa hann ef kosið væri nú, ef marka má kannanir.

Rúm milljón hefur flúið
» Yfir 5.000 manns hafa látið lífið í átökunum í austurhéruðum Úkraínu frá því að þau hófust í apríl sl. þegar uppreisnarmennirnir náðu Donetsk og Lúhansk á sitt vald.
» Um 1,2 milljónir manna hafa flúið heimkynni sín vegna blóðsúthellinganna, flestir þeirra til Rússlands.