Grænfáni Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra afhenti Bergdísi Helgu Jónsdóttur, formanni umhverfisráðs FÁ, Grænfánann við athöfn í vikunni.
Grænfáni Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra afhenti Bergdísi Helgu Jónsdóttur, formanni umhverfisráðs FÁ, Grænfánann við athöfn í vikunni. — Morgunblaðið/Þórður
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is Fjölbrautaskólanum í Ármúla (FÁ) var í vikunni afhentur Grænfáninn í fimmta sinn. Skólinn hefur tekið þátt í verkefni Landverndar, Skólar á grænni grein, í 10 ár, eða lengst framhaldsskóla hér á landi.

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

Fjölbrautaskólanum í Ármúla (FÁ) var í vikunni afhentur Grænfáninn í fimmta sinn. Skólinn hefur tekið þátt í verkefni Landverndar, Skólar á grænni grein, í 10 ár, eða lengst framhaldsskóla hér á landi. Um alþjóðlegt umhverfisverkefni er að ræða sem Landvernd gerðist aðili að árið 2000. Í dag eru um 230 skólar í landinu þátttakendur, allt frá leikskólum upp í háskóla, og nemendur þeirra alls um 45 þúsund talsins.

Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra afhenti fulltrúa FÁ fánann við formlega athöfn. Við sama tækifæri opnaði Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra Verkefnakistuna, sem er rafrænn vettvangur á netinu fyrir kennara til að skiptast á verkefnum í tengslum við Skóla á grænni grein.

FÁ fyrirmynd annarra skóla

Katrín Magnúsdóttir, verkefnisstjóri Skóla á grænni grein, segir það hafa verið vel við hæfi að athöfnin færi fram í FÁ, sem hefði staðið sig afar vel í umhverfismálum og verið öðrum skólum fyrirmynd.

„Þetta er umhverfismenntaverkefni fyrir skóla, sem vilja taka sig á í umhverfismálum, setja sér markmið og uppfylla þau. Ef við metum það svo að viðkomandi skóli standi sig afhendum við Grænfánann til að flagga í skólanum. Verkefnið gengur aðallega út á að virkja nemendur og skólann allan og gera fólk betur meðvitað í umhverfismálum,“ segir hún.

Af þessum 230 skólum eru flestir leik- og grunnskólar, en æ fleiri framhaldsskólar hafa tekið þátt í verkefninu. Að sögn Katrínar er misjafnt eftir skólum hvernig verkefnið er framkvæmt. Í framhaldsskólum séu t.d. starfandi umhverfisráð með þátttöku nemenda, sem fá vinnuna metna til eininga. Starfa umhverfisráð þá eftir þeim markmiðum sem skólinn hefur sett sér. Víða í grunnskólum eru tveir nemendur úr hverjum árgangi á unglinga- (og miðstigi) skipaðir í svona ráð. Fundað er reglulega og áhersla lögð á lýðræðisleg vinnubrögð. Kallað er eftir hugmyndum frá nemendum og fulltrúar þeirra standa síðan fyrir fræðslu og kynningum til allra í skólanum.

Tengir skólana betur saman

Katrín segir Verkefnakistuna hafa komið til eftir að endurskoðun fór fram fyrir nokkrum árum á verkefninu. Kennarar hafi óskað eftir vettvangi til að skiptast á hugmyndum og verkefnum og markmiðið sé jafnframt að tengja skólana betur saman. Ekki þurfi að finna upp hjólið á hverjum stað.

„Meginmarkmiðið hjá okkur er að auka umhverfisvitund nemenda og kennara. Það er mikilvægt að byrja snemma að leggja áherslu á hvað það skiptir miklu máli að ganga vel um umhverfið, taka ábyrgð á eigin hegðun og hugsa þetta í hnattrænu samhengi. Við tökum tillit til bæði mismunandi þema í Grænfánaverkefninu og grunnþátta nýrrar aðalnámskrár allra skólastiga,“ segir Katrín.

Grænfáninn
» Við athöfnina í FÁ flutti Ómar Ragnarsson hugvekju um umhverfismál og Reykjavíkurdætur sungu.
» Alls eru um 230 skólar hér á landi þátttakendur í verkefninu Skólar á grænni grein.