[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjóri: Clint Eastwood. Leikarar: Bradley Cooper, Sienna Miller, Max Charles, Luke Grimes, Kyle Gallner, Sam Jaeger og Jake McDorman as Biggles. Bandarísk. 132 mín.

Nýjasta kvikmynd Clints Eastwoods, Bandarísk leyniskytta, hefur vakið hatrammar deilur í Bandaríkjunum og fengið metaðsókn. Hægrimenn líta á myndina sem langþráða vegsömun bandarískra hermanna. Vinstrimenn saka Eastwood um að hvítþvo söguna.

Myndin fjallar um Chris Kyle, kúreka frá Texas, sem sennilega er einn þekktasti hermaðurinn, sem barðist í Írak. Kyle var leyniskytta og samkvæmt bandaríska varnarmálaráðuneytinu skaut hann rúmlega 160 manns til bana, fleiri en nokkur önnur leyniskytta í sögu Bandaríkjahers, en talið er að hann hafi jafnvel fellt 255 menn.

Kyle skrifaði bók samnefnda myndinni og er hún byggð á henni. Eastwood fer hratt yfir sögu í upphafi. Ungur segir faðir Kyles honum að þrenns konar fólk sé í heiminum; kindur, úlfar og fjárhundar, sem verndi hjörðina og séu fátíðir.

Þegar hryðjuverkamenn ráðast á Bandaríkin 11. september 2001 er Kyle nóg boðið. Hann gengur í herinn og er fyrr en varir kominn til Íraks í baráttuna gegn óvininum. Hann er leyniskytta, liggur uppi á húsþökum og á að veita félögum sínum stuðning þar sem þeir fara um götur borga Íraks. Hann á líka í höggi við dularfulla leyniskyttu frá Sýrlandi, sem veitir andstæðingnum sama skjól. Þeirra viðureign verður lykilatriði í myndinni.

Eastwood lætur eiga sig að velta vöngum yfir forsendum innrásarinnar í Írak og tengingu hennar við hryðjuverkin 11. september. Söguhetjan er algerlega sannfærð um málstaðinn. Ekki hvarflar að Kyle að hann geti hafa tekið of oft í gikkinn, hann harmar aðeins að hafa ekki tekist að bjarga fleiri félögum sínum. Hann er fjárhundurinn.

Dregin er upp mjög einhliða mynd af átökunum. Kyle og félagar fara um í endalausum eltingaleik við illfinnanlegan andstæðing, sem birtist og hverfur jafnharðan. Írakarnir eru vart mennskir. Bandarísku hermennirnir kalla þá ítrekað „villimenn“ eða „skrælingja“ eins og það er þýtt að minnsta kosti einu sinni í texta myndarinnar. Þeir eru algerlega einangraðir frá íbúum landsins, sem þeir eru að „frelsa“, fara um allt í brynvörðum bílum, gráir fyrir járnum. Íbúarnir eru lafhræddir. Jafnvel þeir, sem vilja hjálpa Bandaríkjamönnum, óttast afleiðingarnar því að bandarísku hermennirnir koma og fara og geta ekki verndað þá eins og kemur á daginn.

Þetta er örugglega trúverðug mynd af reynslu flestra bandarískra hermanna, sem sendir voru til Íraks.

Myndin skiptist í kafla þar sem leyniskyttan er heima hjá konu sinni og börnum og er send til Íraks, alls fjórum sinnum. Í Írak er Kyle á heimavelli, en heima hjá sér eins og fiskur á þurru landi. Eastwood nær vel breytingunni á honum við átökin, en nær ekki að koma því til skila hvernig hann nær áttum eftir að hann kemur endanlega heim.

Það er ódýrt að afgreiða myndina sem blinda hetjudýrkun. Þótt Kyle efist aldrei um málstaðinn eru efasemdir og örvænting félaganna dregnar fram og átökin eru endurtekning án árangurs.

Auðvelt er að sjá hvernig Bandarísk leyniskytta getur höfðað til þeirra, sem vilja sjá í myndinni vegsömun hins bandaríska hermanns. Eastwood skirrist hins vegar ekki við að sýna hvernig stríðið sendir söguhetjuna út á ystu nöf. Vissulega minnir Kyle þó á margar hetjur mynda sem Eastwood hefur leikið í og leikstýrt.

Chris Kyle slapp lifandi frá Írak. 2013 skaut uppgjafahermaður með áfallastreituröskun úr stríðinu leyniskyttuna til bana á skotæfingavelli í Texas. Eastwood sýnir það ekki, en myndinni lýkur á myndum frá útför hins raunverulega Chris Kyle. Mannfjöldinn við líkfylgdina og athöfnina gefur til kynna hvers vegna þessi mynd vekur svona miklar tilfinningar í Bandaríkjunum.

Karl Blöndal

Höf.: Karl Blöndal