Fundur Derek Ridyard fræddi gesti á fundi SA um sérstakar rannsóknarheimildir breska samkeppniseftirlitsins.
Fundur Derek Ridyard fræddi gesti á fundi SA um sérstakar rannsóknarheimildir breska samkeppniseftirlitsins. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Vilhjálmur A. Kjartansson vilhjalmur@mbl.

Viðtal

Vilhjálmur A. Kjartansson

vilhjalmur@mbl.is

Hagfræðingurinn Derek Ridyard fór yfir kosti og galla víðtækra og matskenndra heimilda samkeppnisyfirvalda í Bretlandi á fundi Samtaka atvinnulífsins í gær en hann telur að Ísland eigi ekki að taka upp breska kerfið í einu vetfangi heldur taka minni skref og móta það að eigin þörfum. Ridyard er stofnandi RBB Economics og hefur yfirgripsmikla þekkingu og reynslu á sviði samkeppnismála. „Frá árinu 2002 hafa farið fram fimmtán sérstakar rannsóknir í Bretlandi þar sem samkeppnisyfirvöld taka fyrir ákveðinn geira atvinnulífsins án þess að grunur leiki endilega á saknæmri háttsemi aðila. Þessar rannsóknir fara fram á grundvelli víðtækra heimilda samkeppnisyfirvalda en með þessum hætti getur tekist að leiðrétta ástand og finna hluti sem draga úr skilvirkni markaðarins sem annars væri erfiðara að gera,“ segir Ridyard en bendir jafnframt á að varhugavert geti verið að beita opnum og matskenndum heimildum sem þessum. „Í aðeins einu máli af þessum fimmtán var ekkert aðhafst. Er það vegna þess að svo mikið er að í bresku hagkerfi eða getur verið að stundum leitu menn logandi ljósi að einhverju sem er kannski ekki fyrir hendi?“

Ferlið þarf að vera opið

Eðli ríkisvalds er slíkt að beiting þess þarf að vera bæði réttlætanleg og nauðsynleg. Ridyard bendir því á að rannsóknarferli samkeppnisyfirvalda þurfi að vera opið og gegnsætt. „Þegar þú gefur stofnunum svona víðtækt vald til rannsókna þarf að takmarka beitingu þess og tryggja að allt ferli sé opið og gegnsætt því þetta er ekki gallalaus heimild. Vissulega verður kerfið sveigjanlegra og getur tryggt skilvirkar lausnir þar sem þörf er á en það getur líka orðið of sveigjanlegt og verið íþyngjandi fyrir fyrirtæki. Ríkið er svo ekki alltaf besti aðilinn til að bæta stöðu markaðarins. Við sáum það í máli breska samkeppniseftirlitsins gegn gulu síðunum í Bretlandi. Fyrirtækið var vissulega í markaðsráðandi stöðu en ákvörðun um verðþak á þjónustu þess var nokkuð íþyngjandi þótt hún reyndist á endanum ekki nærri því jafnáhrifarík og aðrar lausnir sem markaðurinn kom með sjálfur í formi Google og annarra netfyrirtækja er leistu gulu síðurnar af hólmi á mörgum sviðum.“

Íslendingar taki lítil skref í einu

Spurður um Ísland segir Ridyard skynsamlegt fyrir Íslendinga að fara varlega í sakirnar. „Það er erfitt að gera ríkar kröfur um samkeppi á öllum sviðum þegar landið telur færri en 350 þúsund manns. Þess vegna er ekki alltaf æskilegt að minni lönd horfi til aðferða stærri landa. Íslendingar ættu að fara rólega í sakirnar og skoða þá þætti breska kerfisins sem henta miðað við aðstæður hér á landi.“

Endurskoðun

Heimir Örn Herbertsson, hæstaréttarlögmaður hjá LEX, telur heppilegra að endurskoða verkefni í stað þess að auka heimildir Samkeppnisstofnunar. „Við eigum að einblína á raunveruleg verkefni sem steðja að varðandi samkeppnisstöðu og markaðinn frekar en að víkka út rannsóknarheimildir.“