Ljósmyndari Sigríður Ella Frímannsdóttir opnar ljósmyndasýningu þann 5. febrúar á Ljósmyndasafni Reykjavíkur í Grófarhúsinu.
Ljósmyndari Sigríður Ella Frímannsdóttir opnar ljósmyndasýningu þann 5. febrúar á Ljósmyndasafni Reykjavíkur í Grófarhúsinu. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ljósmyndarinn Sigríður Ella Frímannsdóttir hefur mikinn áhuga á fjölbreytileika mannlífsins og hefur verið ötul við að fanga mannlífið á ljósmyndir. Ljósmyndaröð hennar, Fyrst og fremst er ég, hefur vakið verðskuldaða athygli en hún er af tuttugu og einni manneskju með Downs-heilkenni.

Malín Brand

malin@mbl.is

Sigríður Ella, eða Sigga Ella eins og hún er kölluð, lauk námi í Ljósmyndaskólanum fyrir ári. Útskriftarverkefnin voru tvö og hvort um sig æði áhugavert.

Annars vegar vann hún ljósmyndabók um hljómsveitina Bloodgroup sem hún fylgdi eftir á árunum 2011-2013 og hins vegar var það myndaröðin Fyrst og fremst er ég, sem minnst var á hér að ofan. „Ég mynda það sem mér þykir áhugavert og reyni kannski að koma einhverjum skilaboðum á framfæri,“ segir Sigga Ella og það var sannarlega raunin í verkefninu Fyrst og fremst ég. „Hugsunin að baki er sú hvort við séum smám saman að útrýma fólki með Downs-heilkenni í kjölfar tækninnar,“ segir hún.

En hvað varð til þess að Sigga Ella fór að velta þessum málum fyrir sér? „Systir pabba míns var með Downs-heilkenni og ég var mikið í kringum hana þegar ég var að alast upp og þótti rosalega vænt um hana,“ segir Sigga Ella sem hefur hugleitt hve miklu fátækari hún væri hefði hún aldrei fengið að kynnast frænku sinni.

Þegar hún var að velta því fyrir sér hvernig hún gæti tengt málefnið útskriftarverkefninu sínu heyrði hún áhugavert útvarpsviðtal og þar með var hugmyndin komin. „Þar voru þessi siðferðilegu álitamál rædd, hvort rétt sé að velja einstaklinga, einn frekar en annan, til að vera til. Þá ákvað ég að þetta skyldi verða útskriftarverkefnið mitt og þá komu hugmyndir eins og að þetta skyldu verða tuttugu og ein mynd út af því að þeir sem eru með Downs-heilkenni hafa aukaeintak af litningi 21, þrjá í stað tveggja,“ segir Sigga Ella sem lætur sig málið varða.

Útskriftarsýning á flakki

Myndaröðin hefur verið sett upp nokkuð víða og á eftir að fara víðar. Eftir útskriftarsýninguna fór Sigga Ella með hana til Akureyrar og síðasta sumar var sýningin á menningarhátíð Sólheima. Á menningarnótt hún á Kex hostel í Reykjavík og þann fimmta febrúar verður hún sett upp í Skotinu í Ljósmyndasafni Reykjavíkur og þar fær hún að standa til loka marsmánaðar.

Myndaröðin fer því næst á sýninguna Photo Art í Varsjá í Póllandi. Það hefur því verið sérlega ánægjulegt að kynna myndaröðina og segir Sigga Ella að það hafi ekki síður verið ánægjulegt að vinna að henni. „Ég kynntist frábæru fólki og var einmitt með þeim í fyrra þegar það var árshátíð hjá þeim og þá setti ég sýninguna upp hjá þeim.“

Vinirnir sem hún eignaðist við vinnslu útskriftarverkefnisins eru á ýmsum aldri. Sá yngsti var níu mánaða og sá elsti sextugur. „Ég passaði upp á það í þessu verkefni að hafa aldursbilið breitt og mig langaði líka til þess að hafa kynjaskiptinguna jafna,“ segir hún.

Bloodgroup og fleiri

Hljómsveitin Bloodgroup stóð Siggu Ellu nærri, meðal annars vegna þess að maðurinn hennar var einn hljómsveitarmeðlima. „Þess vegna byrjaði ég að dokúmentera þau. Svo hélt ég því áfram eftir að ég byrjaði í skólanum,“ segir hún. Afraksturinn má sjá í myndarlegri bók sem hefur selst vel erlendis. Rithöfundurinn Yrsa Sigurðardóttir skrifaði formála bókarinnar og segist Sigga Ella mjög ánægð með útkomuna. Hún hefur myndað fleiri hljómsveitir og má þar til dæmis nefna Lilly The Kid, Oyama og Hallelujah.

Meistararnir og pelsarnir

Síðsumars var Sigga Ella svo lánsöm að hljóta styrk til þátttöku í vinnustofu (e. workshop) hjá hinum einstaka ljósmyndara Mary Ellen Mark sem margsinnis hefur komið hingað til lands og haldið vinnustofur ásamt Einari Fal Ingólfssyni og fleirum. „Ég var nemi á námskeiðinu árið áður og það var virkilega lærdómsríkt,“ segir Sigga Ella.

Styrkurinn sem hún hlaut var frá Samtökum feldskera í Evrópu og Photo Expeditions. „Þá var skilyrði að ég myndi gera tvö mismunandi myndaverkefni þar sem ég myndi vinna með feld sem ég fékk frá Eggerti feldskera,“ segir hún. Auk þess vann hún sitt eigið verkefni. „Þar vildi ég veita fólki innsýn inn í líf fólks með Alzheimers-sjúkdóminn. Myndaröðin heitir Vegamót eða Crossroads.“ Sigga Ella hafði unnið á Grund á sérstakri deild fyrir heilabilaða. Hún fékk leyfi hjá fjölskyldum fólksins til að vinna myndaröðina með því.

Í pels á ströndinni

Verkefnavinnslan í vinnustofunni gengur þannig fyrir sig að þátttakendur fara út að mynda að morgni til, mynda allan daginn og fá svo endurgjöf eða viðbrögð frá kennurunum og svo er haldið áfram. „Þetta er alveg rosalega lærdómsríkt og gengur dálítið hratt fyrir sig. Maður verður að vera snöggur að átta sig og það er virkilega gaman að vinna svona,“ segir Sigga Ella. „Í lok námskeiðsins var síðan yfirferð yfir öll verkefnin og lítil sýning á Þjóðminjasafninu. Mary Ellen gaf nemendum umsögn og ég fékk góða umsögn sem ég var rosalega ánægð með. Hún mælti hiklaust með því að ég færi að vinna á setti í kvikmyndum hér heima eða erlendis svo það er eitthvað sem ég er að skoða og hefði mikinn áhuga á að prófa,“ segir Sigga Ella sem meðan á vinnustofunni og náminu stóð fór út að mynda með alla pelsana í farteskinu og þá hófust töfrarnir.

Annars vegar myndaði hún tónlistarfólk í pelsum á heimilum þeirra og hins vegar fór hún á hina ýmsu staði og myndaði ókunnugt fólk í pelsum. „Mig langaði að vera með pelsinn þar sem hann á í rauninni ekki heima. Það eru ekkert allaf allir í pels. Þannig að ég keyrði bara út um alla Reykjavík með pelsana, fór upp í Breiðholtið og í Nauthólsvík þar sem fólk var á ströndinni í sundfötum, fór með pels út á Granda í fiskvinnsluna og fékk fólk til þess að vera með mér. Allir nema einn tóku ótrúlega vel í það,“ segir ljósmyndarinn Sigríður Ella Frímannsdóttir um verkefni síðasta árs.

Áhugasamir ættu að bregða sér á sýninguna sem opnuð verður 5. febrúar á Ljósmyndasafni Reykjavíkur í Grófarhúsinu. Einnig má skoða verk Siggu Ellu á vefsíðu hennar, www.siggaella.com.