Guðmundur Sv. Hermannsson gummi@mbl.is Hæstiréttur sýknaði í gær fjóra atvinnubílstjóra, sem allir höfðu verið dæmdir í Héraðsdómi Norðurlands eystra til að greiða sekt vegna þess að bíll og eftirvagn þeirra höfðu verið þyngri en umferðarlög leyfa.

Guðmundur Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Hæstiréttur sýknaði í gær fjóra atvinnubílstjóra, sem allir höfðu verið dæmdir í Héraðsdómi Norðurlands eystra til að greiða sekt vegna þess að bíll og eftirvagn þeirra höfðu verið þyngri en umferðarlög leyfa.

Niðurstaða Hæstaréttar var að vigtar, sem notaðar voru til að vega bílana, hefðu ekki verið löggiltar og ekki lægi fyrir að þær hefðu verið kvarðaðar með réttum hætti.

Bílstjórarnir fjórir voru upphaflega dæmdir til að greiða 30-60 þúsund króna sekt en dómar voru kveðnir upp í héraði síðari hluta árs 2013. Í dómi Hæstaréttar segir, að í janúar 2013, eftir að málin voru dómtekin í héraði, hafi Neytendastofa sent bréf til Vegagerðarinnar þar sem vakin var athygli á því að Neytendastofu hefði borist ábending um ólöggiltar vogir hjá Vegagerðinni og var vísað til þess að mælitæki, sem notuð væru til lögboðinna mælinga og eftirlits, skyldu kvörðuð með rekjanlegum kvörðunum af faggiltum aðilum. Óskaði Neytendastofa eftir því að öxulþungavogir sem Vegagerðin notar yrðu þegar í stað löggiltar hjá aðilum sem starfa í umboði Neytendastofu og hafa heimild til að löggilda vogirnar. Fyrir Hæstarétt hafi verið lögð gögn þess efnis að búið sé að löggilda allar vogir umferðareftirlits. Ómótmælt sé hins vegar, að vogir þær sem mældu þunga umræddra bíla hafi ekki verið löggiltar. „Menn hafa verið sektaðir eftir þessum vogum frá því reglugerðin var kynnt árið 2009 til ársins 2013. Spurning er hvort ríkið þurfi ekki að endurgreiða þessar sektir?“ segir Guðmundur V. Gunnarsson, eigandi GV grafna, þar sem bílstjórarnir fjórir starfa.