Ljúffengt Júlíana S. Hilmisdóttir, leikskólastjóri leikskólans Lyngheima, ásamt kátum nemendum sem hér sjást í morgunhressingunni gæða sér á hráum niðurskornum gulrófum frá Félagi gulrófnabænda.
Ljúffengt Júlíana S. Hilmisdóttir, leikskólastjóri leikskólans Lyngheima, ásamt kátum nemendum sem hér sjást í morgunhressingunni gæða sér á hráum niðurskornum gulrófum frá Félagi gulrófnabænda. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Börnin á leikskólanum Lyngheimum í Grafarvogi kunnu vel að meta gómsæta og holla matarsendingu frá Félagi gulrófnabænda í liðinni viku en kynningarátakið nær til allra leikskóla á höfuðborgarsvæðinu þar sem lögð er áhersla á heilnæmi íslensku gulrófunnar.

Gjöfin frá gulrófnabændum er afar kærkomin þar sem við ræðum mikið um hollustu grænmetis og nauðsyn þess að borða það á hverjum degi,“ segir Júlíana S. Hilmisdóttir, leikskólastjóri á leikskólanum Lyngheimum í Grafarvogi. Í síðustu viku fékk skólinn að gjöf frá Félagi gulrófnabænda 10 kíló af brakandi ferskum rófum og er það liður í kynningarátaki félagsins um „sítrónu norðursins“ meðal reykvískra leikskólabarna.

„Börnin tóku sendingunni fagnandi og við starfsfólkið vitaskuld sömuleiðis,“ segir Júlíana. „Nemendur tengja grænmeti gjarnan við Íþróttaálfinn og Sollu stirðu og þau fléttuðust bæði inn í umræðuna um gulrófur og hollustugildi þeirra. Börnin eru almennt mjög hrifin af rófum, bæði soðnum og hráum. Þeim finnst voða gott að borða þær hráar sem snakk og dýfa þeim í holla sósu en við kappkostum að bera rófurnar fram á sem fjölbreyttastan hátt.“

Stór og sterk

Spurð nánar út í neysluvenjur leikskólabarnanna segir Júlíana þau misdugleg að borða þegar grænmetið sé annars vegar. „Sum börn eru duglegri en önnur að borða grænmeti en með aldrinum, og hvetjandi umræðu um hvað þau verða stór og sterk, eykst áhuginn. Elstu börnin eru spenntust fyrir grænmetinu og þeim finnst gott að fá bita af niðurskornu fersku grænmeti í millimál.

Hér á leikskólanum Lyngheimum er íslenskt grænmeti borið fram daglega, bæði soðið og hrátt. Rófusendingin frá Félagi gulrófnabænda kemur því í góðar þarfir. Við notum rófurnar í millimál sem snakk og útbúum einnig hrásalat með heitum mat og setjum þá gjarnan rúsínur eða appelsínur saman við, börnunum finnst það afar gott. Svo verður rófustappa á borðum á bóndadaginn með þorramatnum; rófur eru auðvitað ómissandi með slátri og sviðum og við munum njóta þeirra hér að gömlum og góðum íslenskum sið.“

Verkleg kennsla

Í vikunni fór fram markviss fræðsla um rófur á Lyngheimum um leið og nemendur gæddu sér á góðmetinu, að sögn Júlíönu. „Alla morgna er grænmetis- og ávaxtastund hjá okkur, þá setjumst við niður með niðurskorna ávexti og grænmeti, ræðum um hollustuna á borðum og njótum matarins. Umræðan fléttast svo saman við námsefnið á ýmsan hátt og þessa dagana er rófan í aðalhlutverki.

Ekki er ólíklegt að við gerum tilraun með rófurækt í matjurtagarðinum okkar næsta sumar; við þurfum þá að skipuleggja það vel og sá þeim í vor. Verkefni elstu barnanna þessar vikurnar snúast um tröll og í framhaldi af rófugjöfinni og umræðum þar að lútandi vakna ýmsar nýjar spurningar, svo sem: Borða tröllin grænmeti? Rækta þau rófur?“ segir Júlíana að lokum.

Sítróna norðursins

Félag gulrófnabænda færði eins og fyrr sagði öllum leikskólum á höfuðborgarsvæðinu poka af rófum að gjöf á dögunum. „Markmiðið er að kynna þessa góðu íslensku afurð fyrir neytendum framtíðarinnar og auka neyslu þeirra á rófum,“ segir Hjörtur Benediktsson, kynningarstjóri félagsins, spurður út í verkefnið.

„Íslenska gulrófan er frábært snakk, hún inniheldur bæði A- og C-vítamín, er afar fitusnauð og kolvetnarík. Hún er sérlega hentug fyrir þá sem vilja passa upp á holdafarið og svo má ekki gleyma því að hún styrkir tennur.

Fyrr á tímum var litið á gulrófur sem mikilvægan C-vítamíngjafa og þær voru gjarnan nefndar appelsínur eða sítrónur norðursins. Rófur eru sannarlega ágætur C-vítamíngjafi, og jafnast á við hreinan appelsínusafa, en nú er það einkum trefjaefni og lágt orkugildi sem mælir með aukinni neyslu á rófum.“

Vinsælt snakk

Íslendingar borða um 800 til 900 tonn af rófum á ári hverju og virðist íslenska gulrófan ná að halda markaðshlutdeild sinni, þrátt fyrir æ meira úrval af öðru grænmeti, að sögn Hjartar. „Betur má ef duga skal því rófan á í harðri samkeppni við aðrar afurðir, eins og til dæmis innfluttar sætar kartöflur.

Langmest er selt af rófum í kringum sprengidaginn þegar Íslendingar borða saltkjöt og baunir, það kætir okkur bændur að sú matarhefð hefur haldist. Þorláksmessa er annar stór söludagur hjá rófubændum, þegar skatan er á borðum landsmanna, og loks má nefna þorrann og þorrablótin en þá er rófan í lykilhlutverki með súrmat og sviðum.

Við rófubændur viljum þó stuðla að jafnari og aukinni sölu og þá verðum við á einhvern hátt að höfða til yngri neytenda svo neyslan minnki ekki. Við horfum til þess að fólk fari að nota rófuna meira sem snakk vegna hollustunnar og erum þá meðal annars í samkeppni við innfluttar flögur.

Við bændur gerðum þetta líka í fyrra, gáfum rófur í alla leikskóla í Reykjavík, og hver veit nema við stækkum aðeins hringinn á næsta ári. Fyrir tveimur árum gáfum við öllum framhaldsskólum á landinu, sem tóku þátt í verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli, stóran 25 kílóa poka af rófum og það framtak vakti athygli, sem við vonum að hafi skilað sér í aukinni neyslu.“

Nýjar uppskriftir

Félag gulrófnabænda er með uppskriftabækling í smíðum sem hægt verður að nálgast í matvöruverslunum með vorinu. „Þar leggja helstu kokkar landsins málinu lið og deila uppskriftum að hollum og spennandi gulrófuréttum,“ bætir Hjörtur við. „Rófustöppuna þekkja allir og rófusnakk er vinsælt hjá mörgum, bæði börnum og fullorðnum, en rófur eru líka frábærar bæði steiktar á pönnu og ofnbakaðar, svo tekin séu dæmi.

Með nýja bæklingnum er ætlunin að kynna aðrar minna þekktar matreiðsluaðferðir. Í nýjum útvarpsauglýsingum frá félaginu er gulrófan ennfremur í sviðsljósinu; þar eru karlar hvattir til að rófa konuna á konudaginn og hart er lagt að konum að rófa bóndann á bóndadaginn. Við rófubændur erum bjartsýnisfólk og gerum fastlega ráð fyrir því að íslenska gulrófan sé á hraðri uppleið.“

Girnilegar gulrófuuppskriftir er að finna á vef Félags gulrófnabænda, rofa.is. beggo@mbl.is