Ný stjórn Ríkisútvarpsins var kosin á Alþingi í gær.

Ný stjórn Ríkisútvarpsins var kosin á Alþingi í gær. Hana skipa þau Ingvi Hrafn Óskarsson, Úlfhildur Rögnvaldsdóttir, Eiríkur Finnur Greipsson, Ásthildur Sturludóttir, Kristinn Dagur Gissurarson, Mörður Árnason, Björg Eva Erlendsdóttir og Friðrik Rafnsson.

Miðað við fjölda þingmanna

Voru tveir listar lagðir fram í kosningunum, einn frá stjórnarandstöðunni og einn frá stjórnarflokkunum.

Fór svo að listi stjórnarandstöðu hlaut 25 atkvæði en listi stjórnarflokkanna 38.

Stjórnarandstæðingar sökuðu stjórnarliða um að virða ekki samkomulag sem gert hafði verið í kjölfar þingkosninganna árið 2013, þess efnis að fjölga ætti stjórnarmönnum úr sjö í níu og að stjórnarflokkarnir fengju fimm fulltrúa en stjórnarandstæðingar fjóra. Þingmenn stjórnarflokkanna vísuðu því á bug að hafa svikið samkomulag í málinu og sögðu eðlilegt að miða við að stjórnarflokkarnir hefðu sex menn í níu manna nefndum í ljósi samanlagðs þingmannafjölda þeirra.