Dýrleif Jónína Tryggvadóttir fæddist að Aðalgötu 8, Ólafsfirði, 5. apríl 1929. Hún lést 13. janúar 2015.

Foreldrar hennar voru Tryggvi Marteinsson útgerðarmaður, f. í Burstabrekku í Ólafsfirði 17. nóvember 1889, d. 5. apríl 1969, og Rósa Friðfinnsdóttir, f. í Sauðaneskoti á Uppsaströnd í Svarfaðardal 26. júní 1897, d. 17. júlí 1971.

Bróðir Dýrleifar er Baldvin Tryggvason, fyrrverandi sparisjóðsstjóri, f. 12. febrúar 1926, kvæntur Halldóru Rafnar, f. 31. maí 1947.

Dýrleif stundaði nám í barnaskóla Ólafsfjarðar og síðan í framhaldskólanum í Reykholti 1946-1947 og þá stundaði hún einnig nám við Húsmæðraskólann í Reykjavík.

Dýrleif giftist 10. september 1955 Óskari Guðlaugssyni, f. 31. janúar 1931, d. 18. desember 1984. Foreldrar hans voru Guðlaugur Guðmundson veitingamaður, f. í Urriðakoti Garðahreppi 1. mars 1899, d. 5. ágúst 1967, og Sigurlín Valgerður Jónasdóttir, f. í Seljateigshjáleigu Reyðarfirði 31. október 1901, d. 24. janúar 1957.

Börn þeirra eru: Guðlaugur Tryggvi, f. 11. júní 1952, kvæntur Þorbjörgu Árnadóttur, f. 10. mars 1953, dætur þeirra eru Guðný Guðrún, f. 25. júlí 1972, og Dýrleif Júlía, f. 29. nóvember 1980. Baldvin Páll, f. 18. maí 1955, dóttir hans er Hulda Ósk, f. 16. apríl 1977. Drengur f. 30. janúar 1957, d. 2. febrúar 1957. Sigurlín Rósa, f. 25. mars 1959, gift Sveini Jóhannessyni, f. 22. júní 1956, synir þeirra eru Ingólfur, f. 5. mars 1980, og Sveinn Óskar, f. 6. nóvember 1985.

Óskar Jósef, f. 15. ágúst 1960, kvæntur Ingu Fjólu Baldursdóttur, f. 18. nóvember 1962, börn þeirra eru Brynjar Jósef, f. 9. júní 1994, Brynhildur Júlía, f. 5. október 1999, og Hilmir Steinn, f. 10. september 2002.

Börn Ingu Fjólu eru Óli Baldur, f. 12. desember 1983, og Lára, f. 8. febrúar 1991. Anna Elín, f. 30. ágúst 1963, gift Rúnari Sigurjónssyni, f. 27. október 1963, börn þeirra eru Gunnar Þór, f. 20. febrúar 1984, Halldóra Ósk, f. 11. maí 1991, og Valgerður Gréta, f. 6. febrúar 1987.

Ingólfur dóttursonur hennar ólst upp hjá henni frá unga aldri.

Langömmubörn Dýrleifar eru 10 en þau eru Andri Þór, Sandra Lind, Steinrún Dalía, Sylvía Björk, Arnór Þorri, Þorvaldur, Ýr. Anna Margrét og Jóhanna Rósa.

Dýrleif starfaði hjá Reykjavíkurborg, fæðingardeild Landspítalas og á Röðli hjá föðursystur sinni, Helgu Marteinsdóttur.

Útför Dýrleifar verður gerð frá Langholtskirkju í dag, 23. janúar 2015, kl. 15.

Elsku hjartans mamma mín, það er svo erfitt að kveðja þig. Tengsl okkar voru alltaf mjög sterk og núna síðustu ár höfum við hist nær því á hverjum degi. Við höfum átt margar yndislegar og skemmtilegar stundir saman.

Börnin mín Gunnar Þór og Halldóra fengu að njóta ömmu sinnar mikið þegar þau voru yngri og eins þegar þau urðu eldri og það er ég þakklát fyrir hvað þau eiga margar og góðar minningar um ömmu sína.

Mér þykir einnig vænt um að Anna Margrét ömmustelpan mín fékk að kynnast langömmu sinni, við hjálpumst að við að segja henni frá þér, elsku mamma. Minningar um þig eru endalausar og verða okkur dýrmætar inní framtíðina.

Ég vil nota tækifærið og þakka starfsfólkinu á Droplaugarstöðum fyrir góða umönnun þessa 5 mánuði sem þú varst þar. Þú varst yndisleg mamma, amma og góð tengdamamma.

Við söknum þín sárt.

Við hittumst aftur, elsku mamma mín.

Kveðja til móður minnar

Elsku mamma ég sakna þín

þú farin ert mér frá

get ekki framar leitað til þín

né andlit þitt fengið að sjá.

Er lítil ég var, þú lofaðir mér

alltaf hjá mér að vera

er kúrði ég við hálsinn á þér

það vorum við vanar að gera

Ég veit að núna hjá drottni þú ert

og þú ert mig ekki að svíkja

ég elska þig mamma mín, hvar sem þú ert

og ég veit að þú elskar mig líka.

Elsku mamma mín sofðu nú rótt

þangað til drottinn þig vekur,

ég man þig bæði dag og nótt,

minningar mínar enginn tekur.

(Svava Blomsterberg)

Þín

Anna Elín.

Við vorum tvö systkinin, Balli og Dídí, augasteinar foreldra okkar, og ólumst upp í Ólafsfirði, fiskiþorpi, þar sem lífið var saltfiskur. Nú er góða systirin mín látin og þorpið okkar allt annað en í þá gömlu daga. Dídí andaðist á Droplaugarstöðum 13. janúar sl. þar sem hún dvaldist síðasta hálfa árið og naut stakrar umönnunar barna sinna og starfsfólksins, sem veitti henni fyrirmyndar atlæti og hlýlegt umhverfi. Fram að því bjó hún á heimili sínu með elskulegri aðstoð og hjálp barna sinna.

Á síðari árum hefur Alzheimersjúkdómurinn náð æ sterkari tökum á systur minni og hún horfið smám saman í aðra hugarheima. Undir lokin voru bernskuár okkar í Ólafsfirði ofarlega í huga hennar. Þangað hvarf hugurinn og þar voru Dídí og Balli bróðir hjá pabba og mömmu í litla húsinu þeirra. Systkinin léku sér um allt þorpið, einnig uppi í Holtum eða vestur á Sandi. Þau fylgdust með bátunum koma úr róðrum með mikinn eða lítinn afla og sjómönnunum labba í niðurbrotnum bússunum sínum heim til sín með bitakassann undir hendinni og í hinni hékk fiskspyrða í soðið. Þau stóðu á smákössum og stokkuðu upp línuna hans pabba og „hjálpuðu“ mömmu og landmanninum við að breiða eða taka saman saltfiskinn úti á Mölum. Við krakkarnir vorum úti um allt nema helst ekki á sjálfri bryggjunni þar sem við þvældumst bara fyrir og gátum dottið í sjóinn og kannski drukknað.

Ég var þremur árum eldri en Dídí og á undan í barnaskólann og gekk síðan menntaveginn. Dídí systir var hins vegar stelpa, en á æskuárum okkar datt fæstum í hug að stúlkur ættu að stunda langskólanám. Dídí lauk þó prófum frá Héraðsskólanum í Reykholti og Húsmæðraskóla Reykjavíkur og þótti standa sig vel. Heima í Ólafsfirði vann hún ýmis störf og var ráðin símstúlka á símstöðina í plássinu sem ekki þótti ómerkileg staða. Frá barnsaldri var hún ætíð kærleiksrík stoð og stytta foreldra okkar.

Rúmleg tvítug fluttist hún til Reykjavíkur og vann fyrir sér við þjónustustörf á ýmsum stöðum, m.a. Landspítalanum. Hún kynntist þá eiginmanni sínum, Óskari Guðlaugssyni, flugmanni og starfsmanni Veðurstofunnar, og giftist honum 1955. Þeim fæddust fimm myndarleg börn, sem öllum hefur vegnað vel. Hjónaband þeirra stóð í tæp 30 ár, þar til Óskar andaðist í desember 1984 eftir áratuga baráttu við hrörnunarsjúkdóminn Multiple scelerosis. Þessi ár voru þeim hjónum og börnum þeirra átakanlega erfið en aldrei kvartaði Dídí þótt við erfiðleika væri að glíma. Hún elskaði sitt fólk og eiginmaðurinn og börnin voru henni alltaf næst hjarta. Að Óskari látnum stóð hún ein með börnin fimm og þeim helgaði hún líf sitt. Dídí systir var framar öllu öðru góð manneskja, fórnfús og kærleiksrík Það var guðslán að eiga slíka systur.

Við Dóra vottum systurbörnum mínum og þeirra fjölskyldum dýpstu samúð okkar og okkar fólks.

Baldvin Tryggvason.

Elsku amma.

Að kveðja þig er það erfiðasta sem ég hef gert. Ég veit samt að þú ert komin á betri stað þar sem þér líður vel. Þú varst með svo fallegt hjarta og varst svo góð við alla.

Ég var alltaf hjá þér þegar ég var lítil og þú kenndir mér svo margt, að lesa og skrifa og sagðir mér sögur af öllu því sem þú gerðir í gamla daga, mér fannst það alltaf jafn spennandi. Allt mitt líf vorum við mjög nánar og þú varst besta vinkona mín, ég sagði þér allt og þú áttir alltaf svör við öllu. Oft sátum við saman við eldhúsborðið, þú skarst rúgbrauð með smjöri og sykri í teninga og við sátum heilu klukkutímana og spiluðum og spjölluðum saman um heiminn og geiminn.

Þó svo að þú værir komin með alzheimer þá breyttist persónan þín aldrei, þú varst alltaf eins, alltaf með þitt fallega bros, hlýju knúsin þín og þessa yndislegu góðmennsku sem þú hafðir. Það var skrítið að venjast því að þú sem vissir allt og mundir allt værir farin að spyrja okkur spurninga. Þú varst samt alltaf svo sterk og lést aldrei neitt stoppa þig, þrátt fyrir mörg veikindatilfelli hélstu alltaf áfram.

Ég er svo þakklát að Anna Margrét hafi átt yndisleg fjögur ár með þér, alltaf gladdistu jafn mikið þegar hún kom að heimsækja þig og hún hafði svo gaman af þér, sérstaklega núna síðustu mánuði, þá vissi maður að þótt þú værir lasin gæti hún glatt þig. Anna Margrét saknar langömmu sinnar svo mikið en hún veit að núna ertu engill á himnum sem passar uppá okkur.

Á útskriftardaginn minn kom ég til þín og ég sagði þér frá því að ég væri búin með skóla, það var svo gaman að heyra hvað þú varðst glöð með það. Í starfsnáminu fékk ég einnig þann heiður að hugsa um þig á Mörkinni þegar þú varst í hvíldarinnlögn og það voru tímar sem ég met mikils.

Ég er svo þakklát fyrir að ég fékk að eyða síðustu mínútunum með þér og ég mun geyma allar minningarnar okkar vel og ég mun halda áfram að segja Önnu Margréti sögur af þér og segja henni frá því hversu einstök manneskja þú varst, engin var eins og þú.

Með miklum söknuði kveð ég þig nú í bili, þangað til við hittumst næst.

Ég elska þig svo mikið, amma mín, guð geymi þig og dreymi þig vel.

Við höfði lútum í sorg og harmi

og hrygg við strjúkum burt tárin af hvarmi.

Nú stórt er skarð í líf okkar sorfið

því fegursta blómið er frá okkur horfið.

Með ástúð og kærleik þú allt að þér vafðir

og ætíð tíma fyrir okkur þú hafðir

þótt móðuna miklu þú farin sért yfir

þá alltaf í huga okkar myndin þín lifir.

Við kveðjum þig, amma, með söknuð í hjarta,

en minning um faðmlag og brosið þitt bjarta.

Allar liðnar stundir um þig okkur dreymi

og algóður Guð á himnum þig geymi.

(Sigfríður Sigurjónsdóttir.)

Halldóra Ósk og Anna Margrét.

Amma var húsmóðir af gamla skólanum og þessi týpíska amma af sinni kynslóð. Hún giftist afa mínum: Óskari Guðlaugssyni, og eignuðust þau sex börn, fjóra drengi og tvær telpur, en einn dreng misstu þau þegar hann var ungbarn. Amma var hrædd við ketti, ók aldrei bíl og las dönsk blöð fyrir háttinn. Amma kallaði svalir: altan og sagði frasa eins og: „þetta er svaka lekkert“ og „þú ert hoj og slank“. Hún sagði mér oft sögur af sínum fyrri árum, af æskuslóðunum í Ólafsfirði, þegar hún vann á hótel Norðurlandi og þegar hún stundaði nám í Reykholti og í Húsmæðraskólanum. Amma hafði mikið dálæti á Helgu frænku og Jóni kennara eins og hún kallaði þau alltaf og var dugleg að halda minningu þeirra á lofti. Lilla, æskuvinkona hennar ömmu, lést fyrir rúmlega fjórum árum, en Lilla var henni afar kær og þær héldu góðu sambandi alla tíð og töluðu oft afar lengi saman í síma. Mamma mín og ég bjuggum heima hjá afa og ömmu þegar ég var nýfæddur og ólst ég að mestu leyti upp á því heimili. Við amma vorum ávallt mjög náin og ég er henni óendanlega þakklátur fyrir alla þá góðmennsku og örlæti sem hún sýndi mér og fyrir að hafa alltaf trú á mér. Líf hennar ömmu var oft þrautarganga og hún þurfti að hafa fyrir hlutunum og var afar ósérhlífin og þá sérstaklega við heimilisstörfin. Árið 1957 eignuðust amma og afi sinn þriðja son, sem var drengurinn sem þau misstu, og var litli drengurinn jarðsettur ofan í kistu hjá gamalli og góðri konu, eins og amma sagði alltaf. En litli drengurinn var ávallt ofarlega í huga hennar. Afi minn veiktist af MS-sjúkdómnum og lést svo árið 1984 eftir löng og erfið veikindi. Ég, þá fjögurra ára gutti, gleymi aldrei svipnum á ömmu minni þegar hún sagði mér að afi minn væri dáinn og hefur það atvik verið greypt í huga minn alla tíð. Amma hafði glímt við heilahrörnunarsjúkdóm í nokkur ár og hafði minni hennar hrakað mikið á þeim tíma. Síðustu sporin í hennar ævi voru stigin á Droplaugarstöðum, en sú vist hafði góð áhrif á hana. Starfsfólki Droplaugarstaða eru hér með færðar þakkir fyrir þá góðu umönnun sem amma fékk. Það er sorglegt að hugsa til þess að amma sé búin að kveðja og það að eilífu. Hún sem var svo stór partur af lífi manns er nú horfin á vit forfeðra sinna. Á svona stundu breytist maður ósjálfrátt aftur í litla strákinn, sem þótti fátt betra en að láta ömmu sína hugga sig þegar eitthvað bjátaði á. En nú er amma horfin á braut og eftir stendur minning um sómakonu, sem tók ávallt hag annarra fram yfir sinn eigin og auðgaði líf okkar sem stóðum henni næst með nærveru sinni. Ég veit ég mun aldrei geta launað þér fyrir allt það sem þú gerðir fyrir mig, en ég mun gera mitt besta til að vera dætrum mínum eins góður og þú varst mér alltaf.

Þú sem varst mér svo góð

alla mína æsku.

Mikið gæðablóð

með endalausa gæsku

Alltaf mín þú gættir,

það færði mér ró.

Líf mitt þú bættir

á meðan hjartað í þér sló.

Blessuð vertu amma mín,

þú alltaf við mér brostir.

Við þér blasir eilífðin

og sonurinn sem þú misstir.

Þinn

Ingólfur.