Velferðarráð Reykjavíkurborgar ákvað á fundi sínum í gær að afnema viðbótargjald fyrir notendur ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Í gjaldskrá verður 1.100 króna gjald fyrir hverja ferð umfram 60 á mánuði fellt niður og miðað við hálft gjald í strætó.

Velferðarráð Reykjavíkurborgar ákvað á fundi sínum í gær að afnema viðbótargjald fyrir notendur ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Í gjaldskrá verður 1.100 króna gjald fyrir hverja ferð umfram 60 á mánuði fellt niður og miðað við hálft gjald í strætó. Var tillagan samþykkt einróma á fundinum. Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir einnig að ákveðið hafi verið að fresta ákvörðun vegna breytinga á reglum um hámarksfjölda ferða til næsta fundar hinn 5. febrúar, í ljósi athugasemda sem komu fram í áliti umboðsmanns borgarbúa sem bárust velferðarráði seint í fyrradag.

Velferðarráð mun áfram funda með Strætó og fylgjast náið með framkvæmd þjónustunnar eftir því sem kemur fram í tilkynningunni. „Borginni er í mun að framkvæmd ferðaþjónustu fatlaðs fólks gangi eins vel og kostur er og að breytingar á fyrirkomulagi verði til að bæta hana,“ segir í tilkynningunni.