Þórólfur Sverrisson, Þóró, fæddist í Reykjavík 4. janúar 1983. Hann lést 17. desember 2014.

Foreldrar Þóró eru Þóra Jónasdóttir og Sverrir Karlsson. Systkini Þóró eru, 1) Hrund, maki Burkni Jóhannesson, en börn þeirra eru Bjarmar, Birnir og Emilía. 2) Sigurgarður, maki Tuktar Insorn, en börn þeirra eru Katanyu, Kotchakon og Sóley. 3) Sigrún, maki Guðbjarni Traustason og eiga þau börnin Björgvin, Viktor og Daníel.

Þóró ólst upp á Álftanesi. Hann gekk í Álftanesskóla og síðar Garðaskóla. Hann var ákafur íþróttamaður, spilaði fótbolta, tennis og fleiri íþróttir, en hann hafði alla tíð mikinn áhuga á íþróttum og fylgdist vel með. Hann stundaði framhaldsnám á Bifröst veturinn 2009-2010 og lauk stúdentspróf í fjarnámi frá FÁ, en lagði að svo búnu stund á fjarnám í mannfræði við HÍ. Um 16 ára fór Þóró að vinna sem tæknimaður á Stöð 2 og varð síðar útsendingarstjóri og tæknimaður á Popp Tv og sinnti einnig tæknistjórn og framleiðslu á íþróttaþáttum í sjónvarpi. Þóró vann á Stöð 2 með hléum í á annan áratug. Eftir það vann hann hjá Long við ýmsa tæknivinnu fyrir sjónvarp og viðburði. Síðustu 8 ár var Þóró langdvölum í Asíu þar sem hann iðkaði asíska bardagalist, ferðaðist mikið og stundaði fjarnám.

Útför Þóró fer fram frá Lindakirkju í dag, 23. janúar 2015, og hefst athöfnin kl 13.

Snillingur. Það er mikið lagt í þetta einstaka orð. Og nú um stundir er því svo farið í íslenskri umræðu að það hefur að einhverju leyti misst marks. Eins og svo margt annað er það ofnotað og misnotað. Í tilviki Þórólfs Sverrissonar er það hins vegar vel notað. Einmitt í því tilviki heldur það merkingu sinni.

Hann skreytti ekki vinnu sína mörgum orðum. En þess þá heldur að dáðst var að allri þeirri einbeitni og íhygli sem auðkenndi hverja hans framkvæmd í stóru og smáu. Og strax sem barn varð hann fullorðinn í sínum verkum, svo traustur og ráðagóður að allir vildu njóta hans krafta og gáfna.

Við söknum fólks af því það er okkur mikilvægt. Sá söknuður verður að fallegri minningu sem yljar okkur og skýlir. Og einmitt Þóró er þessi eldur sem verður ekki slökktur í okkur. Og allra síst í Þóru og Sverri og öllu því góða fólki sem við viljum núna umvefja og faðma þegar söknuðurinn er sárastur.

Sigmundur Ernir.

Elsku Þóró, það er erfitt að rita nokkur orð og kveðja þig. Við syrgjum og söknum þín, það er svo sárt. Minningar eigum við um fallega og ljúfa drenginn okkar og yljum okkur við þær. Við vitum að þér líður vel núna í faðmi Guðs og að vel var tekið á móti þér af Sigrúnu ömmu og mörgum sem á undan þér eru gengnir.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson)

Með sárum söknuði,

Þorbjörg amma og Sverrir afi.