Elín Sigurðardóttir fæddist í Vestmannaeyjum 11. mars 1917. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Eir 16. janúar 2015.

Foreldrar hennar voru Sigurður Bjarnason, f. 28. október 1884, d. 12. apríl 1959, og kona hans Sigríður Sigurðardóttir, f. 27. september 1891, d. 22. nóvember 1981. Systkini Elínar voru: Sigurður, f. 1915, d. 1994, Sigurbjörg Svava, f. 1918, d. 1918, Guðmunda Dagmar, f. 1919, d. 2010, Óskar Jón, f. 1921, d. 1998, Sigríður, f. 1924, d. 2009, Margrét, f. 1924, d. 2011, Fjóla, f. 1925, og Emil, f. 1927.

Elín giftist 2. nóvember 1940 Birni Kjartanssyni, f. 29. september 1911, d. 12. ágúst 2003. Foreldrar hans voru Kjartan Guðmundsson, f. 16. júní 1870, d. 26. október 1942, og Pálína Björnsdóttir, f. 4. september 1879, d. 12. janúar 1946. Börn þeirra eru: 1) Sóldís, f. 22. júní 1944, gift Svavari Tjörvasyni, börn þeirra eru a) Hrafnhildur, gift Guðmundi Óskarssyni, þeirra börn eru Aron Geir og Tinna Björk, b) Kjartan, kvæntur Mai-Lill Pedersen, dóttir þeirra er Elín Rahel, c) María, gift Vilhjálmi Kjartanssyni, dætur þeirra eru Fanney Halla, Védís Katla og Ásta Lovísa, d) Bryndís, gift Sigurði Þór Erlendssyni, börn þeirra eru Týr Huginn og Iðunn Freyja. 2) Sigurður Páll, f. 7. janúar 1946, kvæntur Halldóru Guðmundsdóttur, börn þeirra eru a) Elín, gift Alfreð Halldórssyni, sonur þeirra er Halldór Fannar, b) Hrönn, gift Ólafi Jens Daðasyni, börn þeirra eru Sigurður Páll og Helena, c) Brynjar, kvæntur Guðrúnu Sjöfn Axelsdóttur, dóttir þeirra er Alexandra Nótt, d) Birgir, kvæntur Berglindi Höllu Jónsdóttur, börn þeirra eru Lára Björk og Jóhann Bjarki, e) Gísli Páll, kvæntur Söru Lovísu Halldórsdóttur, dætur þeirra eru Thelma Hrönn og Heiður Karen. 3) Björn, f. 12. júní 1952, kvæntur Heiðrúnu Jóhannsdóttur, börn þeirra eru a) Sandra Björk, í sambúð með Axel Kristni Gunnarssyni og eiga þau nýfæddan son, b) Björn Freyr, í sambúð með Jónu Margréti Harðardóttur og eiga þau nýfædda dóttur, c) Ellen Dagmar, í sambúð með Stefáni Árna Hafsteinssyni. Elín og Björn ólu upp bróðurson Björns, Rúnar Ágústsson, f. 15. sept. 1938, börn hans eru a) Elín Þóra, hennar synir eru Sigurður Rúnar, Jón Páll og Örn Ingi og á hún þrjú barnabörn, b) Björn Rúnar, sambýliskona hans er Sólveig Anna Einarsdóttir og eiga þau Björn. Sambýliskona Rúnars er Ingibjörg Karlsdóttir.

Elín vann mestan hluta starfsævinnar við saumaskap.

Útför Elínar verður gerð frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 23. janúar 2015, kl. 11.

Þá er komið að kveðjustund. Elsku amma okkar hefur kvatt okkur tæplega 98 ára gömul. Við hugsum til baka og yljum okkur við allar góðu minningarnar sem við eigum í hjörtum okkar.

Allt fram á síðasta dag var amma hörkudugleg, hún kvartaði aldrei heldur gerði alltaf það besta úr öllum aðstæðum. Eftir að afi dó var hún dugleg að sækja sér alla þá þjónustu sem henni stóð til boða. Hún var virk í því starfi sem unnið er á Dalbrautinni og tók m.a. þátt í Kvennahlaupinu í júní sl.

Handavinna var hennar líf og yndi enda liggja eftir hana mörg handavinnustykki. Þegar sjónin fór að daprast þá fór hún úr því að prjóna og sauma í að vefa mottur úr sokkum sem t.d. hundar í fjölskyldunni nutu góðs af.

Langömmubörnunum fannst aldrei leiðinlegt að koma í heimsókn til hennar. Allt fram á það síðasta fór hún í boltaleik með þeim og svo átti hún líka „töfratösku“ sem geymdi gömul tvinnakefli og leikföng sem alltaf var gaman að kíkja í. Og ekki fór neinn svangur úr heimsókn frá henni ömmu því niðursoðnir ávextir, ostar og kex var staðalbúnaður í hennar eldhúsi seinni árin og ekki þýddi að segja henni að maður væri saddur. Amma var fædd og uppalin í Vestmannaeyjum og hafði alltaf sterkar taugar til Eyja. Hún ólst upp í Búlandi og henni fannst gaman að fá að fylgjast með því þegar farið var að byggja á lóðinni og gladdist yfir því að Búland fengi annað líf.

Hún hélt góðri heilsu nánast fram á síðasta dag, aðeins síðustu vikurnar sem voru henni erfiðar, en þá naut hún góðrar umönnunar á hjúkrunarheimilinu Eir.

Amma skilur eftir sig margar yndislegar minningar og við kveðjum hana með þakklæti og söknuði.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um huga minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þ. Sig.)

Elín, Hrönn, Birgir,

Brynjar og Gísli Páll.

Elsku amma mín, nú hefur þú kvatt þetta líf. Ég er viss um að nú líður þér betur enda voru síðustu dagar lífs þíns erfiðir fyrir þig. Nú eru þú og afi saman á ný og það gleður mig því ég veit að ykkur leið svo vel öll þau ár sem þið eydduð saman.

Allt frá því að ég man eftir mér hefur þú verið stór partur af lífi mínu. Í barnæsku minni heimsóttum við systkinin þig og afa svo oft á Langholtsveginn ásamt foreldrum okkar. Þú eldaðir saltkjöt sem ég borðaði af bestu lyst. Það var alltaf svo góður matur hjá ömmu, ekta íslenskur matur, salkjöt, slátur eða hafragrautur en sem barn var slíkt mitt uppáhald og er enn þann dag í dag. Mér fannst alltaf jafn gott og gaman að fá að borða hjá ömmu, sérstaklega íslenskt saltkjöt.

Allt þitt líf varstu svo skýr og skörp, elsku amma mín. Þó svo að þú værir komin á háan aldur mundir þú alla hluti svo vel og gast skýrt svo vel og greinilega frá öllum hlutum, hvort sem það var úr þínu eigin lífi eða eitthvað annað. Það var fátt sem þú vissir ekki eða mundir ekki allt þar til að þú kvaddir þetta líf. Það kom mér alltaf jafn mikið á óvart að þú mundir alla afmælisdaga okkar barnabarna og jafnvel langömmubarna þinna.

Það sem einkenndi þig var að þú varst alltaf svo mikill gestgjafi. Þegar við heimsóttum þig barstu alltaf einhverjar kræsingar á borð. Þann tíma sem þú varst heil heilsu og bjóst á Langholtsveginum og Kleppsveginum voru alltaf bornar fram kökur eða annað bakkelsi sem þú hafðir bakað og þér var mjög umhugað að við barnabörnin borðuðum vel hjá þér. Þegar heilsu þinni fór að hraka og þú fluttist á dvalarheimilið á Dalbrautinni var þér ekki síður umhugað um þá sem komu í heimsókn til þín. Alltaf barstu eitthvað á borð svo sem konfekt, kex eða kökur þó svo það væri ekki heimabakað lengur. Og alltaf vildir þú að við öll borðuðum vel hjá þér.

Ár hvert á gamlárskvöld heimsóttum við fjölskyldan þig og afa eftir kvöldmat. Það var ekkert gamlárskvöld nema við færum að heimsækja þig og afa og færum svo á brennu eftir það. Þá horfðum við á áramótaskaupið og skutum að lokum upp flugeldum. Þannig voru gamlárskvöldin og áttu að vera. Ég man að ég hlakkaði alltaf svo til að heimsækja ykkur þetta kvöld.

Elsku amma mín, nú þegar þú ert farin ber ég söknuð í brjósti til þín. En ég veit að þú ert komin á betri stað og til hans afa sem var þér kærastur í þessu lífi. Hvíldu í friði, elsku amma mín. Guð veri með þér að eilífu.

Með kveðju frá barnabarni þínu,

Sandra Björk Björnsdóttir.

Elsku amma, ég vil byrja á því að þakka þér fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman. Þó að ég hafi ekki fengið að kynnast þér eins og ég hefði óskað þá lærði ég margt af þér, elsku amma. Þú varst alltaf svo víðsýn og með sterka réttlætiskennd og það kom mér alltaf jafn mikið á óvart hversu langt á undan samtíð þinni þú varst í þeim málum.

Mér verða alltaf minnistæðar sögur þínar frá hinum gamla tíma sem sumar hverjar voru ævintýri líkastar. Sögur frá þínum ástkæru Vestmannaeyjum, frá þeim tíma þegar enginn Herjólfur var til, heldur einungis stærri árabátar ef átti að komast til meginlandsins. Eða sögur af Langholtsveginum eins og þegar nágrannakonan sótti þig í flýti og sagði þér að taka á móti barninu í næsta húsi. Það hvarflaði ekki að þér að bíða eftir ljósmóðurinni heldur raukstu bara af stað, tókst á móti hvítvoðungnum og gerðir gott betra með því að ná naflastrengnum utan af hálsi barnsins og þar með bjarga lífi þess. Ákveðni þín var ótrúleg og aðdáunarverð.

Ekki má þá gleyma hve vel að þér í höndunum þú varst allt þar til sjóninni fór að hraka. Prjónaðir eins og enginn væri morgundagurinn og skáparnir á heimilinu okkar voru ávallt fullir af marglita lopasokkum og vettlingum. Mismunandi sokkar fyrir hvert dress, það var greinilegt að okkur mátti ekki verða kalt. Þá var listhönd þín fögur og ófá listaverkin eftir þig sem maður gat dáðst að. Þá má heldur ekki gleyma garðinum þínum sem þú varst svo dugleg að rækta. Þar mátti finna allt það helsta sem hægt var að rækta á okkar ástkæra Ísalandi. Þar voru gulræturnar alltaf í uppáhaldi og þær bestu sem ég hef nokkurn tímann fengið. „Beint upp úr moldinni og upp í börnin“, eins og þú orðaðir það sjálf. Gestrisni þín var líka óendanleg og pokinn hjá þér aldrei tómur.

Þegar ég hugsa til ykkar hjónanna mála ég fallega mynd af þér og afa standandi í tröppunum við gamla húsið ykkar við Langholtsveginn, Skodabíllinn ykkar fyrir utan og ég get enn fundið hita ástarbálsins sem óbilandi logaði ykkar á milli. Það var því mér svo sterkt í minningunni og sárt þegar afi fór frá. Að sjá þig, elsku amma, gráta svona sárt fór verr í barnsbeinið en að sjá afa skilja við lífið. Ég óskaði þess að ég gæti náð í hann aftur til að þú gætir skilið við tárin. En þegar ég að dánarbeði þínu kom vissi ég að þú varst komin í hans faðmlag. Hamingjan og brosið á vörum þínum sannfærði mig um það að nú væru allar þínar þjáningar liðnar og þú gengin með afa í andanna lönd.

Bið að heilsa, elsku amma, þar til næst.

Ellen Dagmar Björnsdóttir.

Hún var falleg og hnarreist hún amma þótt ellin hafi verið farin að beygja hana undir það síðasta. Fædd í Vestmannaeyjum árið 1917, næstelst átta systkina og farin að vinna strax og geta var til við að þurrka fisk. Hún hjálpaði mömmu sinni við heimilisstörf og axlaði þá ábyrgð sem var að vera elsta systirin í systkinaröðinni. Í vist til Reykjavíkur fór hún upp á land þegar hún hafði aldur til og þar kynntist hún afa og fór að búa með honum. Þau byggðu sér hús að Langholtsvegi 6 þar sem þau bjuggu allt fram á elliár. Að koma til þeirra á Langholtsveginn var yndislegt. Þar var mikill gestagangur, systkini ömmu og afa og stundum haldnar stórar veislur þar sem margar kynslóðir komu saman. Alltaf á jóladag var veisla hjá ömmu þar sem andi umhyggju fyllti andrúmsloftið til allra ásamt veitingum sem ömmu einni var lagið að reiða fram. Henni var annt um það að enginn færi svangur frá sér og bað okkur ætíð að nota með af öllum sortum. Það var alltaf pláss á Langholtsveginum fyrir alla sem vildu koma. Hjónaband ömmu og afa var líka einstakt, hann var allur að vilja gerður að hjálpa og maður heyrir rödd hans enduróma „já, Ella mín“, en amma stjórnaði heimilinu af styrkri hendi og gætti þess að enginn yrði útundan. Amma var mikil handavinnukona og það lék allt í höndunum á henni en hún vann einnig í Dúk sem saumakona þegar börnin voru orðin stálpuð. Það eru ófaár peysurnar sem hún hefur prjónað á barnabörnin og langömmubörnin. Þegar ellin gerði það að verkum að þau gátu ekki lengur hugsað um húsið á Langholtsveginum, fluttu þau að Kleppsvegi 62 og undu hag sínum vel. Þau voru alltaf einstaklega samhent, amma og afi, hjálpsöm hvort við annað og maður skynjaði virðinguna sem þau báru hvort fyrir öðru. Það var alltaf gott að koma til þeirra og finna vinarþel eða bara fá frið fyrir heiminum í rólegheitum hjá ömmu og afa. Þau báru mikla umhyggju fyrir börnum sínum og afkomendum.

Amma var dyggðum prýdd og nýtni var henni í blóð borin en kjörin settu mark sitt á konuna. Hún vildi ekki skulda neinum og var komin með budduna upp ef maður gerði fyrir hana smá-viðvik en stundum var hægt að tala hana til.

Amma bar ekki sorgir sínar á torg, hún var af þeirri kynslóð, sagði bara: „hvað heldur þú það gagnist að tala um þetta?“ En með aukinni vináttu okkar á milli töluðum við um sorgir okkar en sumt féll henni afar þungt. Við gátum þannig fengið stuðning hvor af annarri og alltaf vissi hún það ef eitthvað hrjáði mann. Hún var berdreymin og dreymdi jafnan fyrir barnabörnum og kyni þeirra.

Að koma til ömmu var eins og að fara í var, í lífsins ólgusjó. Þar var friður og ró og málin rædd af skynsemi. Umhyggjan sem hún bar fyrir dætrum mínum var mikil. Við vorum fastagestir í viku hverri hjá henni og hún naut þess að annast þær. Hún ruggaði með þeim og fór með vísur, reri á selabát og sagði sögur. Stundum þurfti engin orð heldur var nærvera hennar svo áþreifanleg og umhyggjan skein frá henni. Þetta eru dýrmætar stundir.

Hjartans þakkir, amma, fyrir nestið sem þú gafst mér út í lífið.

María Svavarsdóttir.