Guðrún Bríet Guðlaugsdóttir (Bíbí), fæddist í Vestmannaeyjum 30. júlí 1923. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð 13. janúar 2015.

Foreldrar hennar voru Guðlaugur Brynjólfsson, útgerðarmaður í Vestmannaeyjum, f. í Kvíhólma, V-Eyjafjallahreppi 23. júlí 1890, d. 30. desember 1972, og Valgerður Guðmundsdóttir húsmóðir, f. í Reykjavík 8. mars 1895, d. 29. september 1937. Systkini Bíbíar eru Jóhannes, f. 1908, Sveinbjörn, f. 1914, Halla, f. 1918, Halldóra, f. 1920, Brynjólfur, f. 1921, Ingibjörg, f. 1925, Ásta, f. 1926, Guðmundur, f. 1929, og Þórarinn, f. 1931. Eftirlifandi eru Ingibjörg og Ásta.

Bíbí giftist 5. júní 1944 eftirlifandi eiginmanni sínum, Jónasi Guðmundi Ólafssyni, f. í Stykkishólmi 29. júní 1921. Foreldrar hans voru Ólafur Jón Jónasson, f. á Innra-Leiti á Skógarströnd 8. mars 1887, d. 29. júlí 1929, og Ólína Jóhanna Pétursdóttir, f. í Svefneyjum á Breiðafirði 24. ágúst 1887, d. 13. september 1979.

Jónas og Bíbí bjuggu fyrsta hjúskaparárið í Kópavogi og fluttu þaðan í Skerjafjörð og síðan á Ásvallagötu. Árið 1946 fluttu þau í Kópavoginn að nýju og bjuggu þar alla tíð síðan. Þau eignuðust fjögur börn: 1) Valgerður, f. 16. september 1944, eiginmaður Örn Gíslason. Börn þeirra eru: Bríet, f. 1968, gift Smára Gestssyni. Þau eiga þrjá syni og eitt barnabarn. Sigríður, f. 1971, gift G. Örvari Hallgrímssyni. Þau eiga þrjár dætur. Andvana f. drengur 1978. Arna Margrét, f. 1986, í sambúð með Siggeiri Guðnasyni. Þau eiga tvö börn. 2) Ólína Jóhanna, f. 12. desember 1945, gift Páli Andréssyni. Börn þeirra eru: Berglind, f. 1967, gift Luc Leroy. Þau eiga þrjú börn. Arnar, f. 1973, giftur Maríu Shishigina Pálsson. Þau eiga tvö börn og María einn son áður. Arnar á þrjú börn með fyrri konu sinni. Páll Guðmundur, f. 1975, d. sama ár. Hildur Björk, f. 1983, gift Ara Karlssyni. Þau eiga tvær dætur. Fyrir átti Ólína einn son. Kjartan, giftur Guðnýju Bachmann. Þau eiga þrjú börn. 3) Dóttir, f. 1961, d. sama ár. 4) Jónas Jónasson, f. 11. maí 1964, giftur Öldu Harðardóttur. Dóttir þeirra er Sandra Björk, fædd 1997. Fyrir átti Jónas eina dóttur, Rakel Söru, f. 1989, í sambúð með Erik Newman. Þau eiga tvö börn. Fyrir átti Alda einn son, Hörð Snævar, f. 1990.

Bíbí flutti frá Eyjum 17 ára og fór í Húsmæðraskólann á Hallormsstað. Þegar hún lauk því námi fluttist hún til Reykjavíkur og gerðist vinnukona hjá Richard Thors. Eftir að hún hóf búskap vann hún ýmis störf, s.s. hjá Skógrækt ríkisins, á City Hotel, við fiskvinnslu í Reykjavík og á Bíldudal, á sendibílastöðinni Þresti og við ræstingar á Alþingi og hjá Völundi. Síðast vann hún hjá Kassagerð Reykjavíkur.

Útför hennar fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 23. janúar 2015, kl. 15.

Elsku mamma, nú ertu búin að fá hvíldina sem þú varst búin að þrá síðustu ár. Núna líður þér vel og allar þjáningar eru burt. Nú ertu sko alveg örugglega byrjuð að segja skemmtilegar sögur og aðeins að stríða.

Þú varst alveg einstök mamma. Alltaf til staðar og alltaf heima. Það voru ekki margir vinir mínir sem gátu treyst því að einhver væri heima þegar þeir komu heim úr skólanum kaldir og svangir. Það gat ég. Þú áttir alltaf tíma handa mér.

Takk fyrir öll bréfin sem þú sendir mér þegar ég var í sveit. Það yljaði litlu barnshjarta sem þjáðist oft af heimþrá og söknuði. Takk fyrir að hafa stutt mig í gegnum allt sem ég tók mér fyrir hendur og takk fyrir að hafa leiðbeint mér þegar þér fannst ég ekki vera að feta rétta stíginn. Ég hlustaði, en fór ekki alltaf eftir því. Seinna sá ég að þú hafðir rétt fyrir þér. Mömmur hafa alltaf rétt fyrir sér.

Manstu þegar ég bauð þér í fyrsta flugtúrinn. Við fórum að sjálfsögðu til Vestmannaeyja, hvert annað? Svo þegar ég kynntist henni Öldu minni í Eyjum varstu glöð. Því nú væri litli strákurinn kominn í öruggar Eyja-hendur.

Þú settir þig aldrei í fyrsta sætið. Hafðir alltaf áhyggjur af hinum. Það var ekkert að hjá þér var viðkvæðið þegar spurt var frétta. Ég man ekki eftir því að þú hafir nokkurn tímann kvartað eða barmað þér. Það varst ekki þú.

Nú ertu farin í Austrið til hins Hæsta og hefur hitt allt þitt fólk. Amma Valgerður og afi Guðlaugur hafa tekið á móti þér ásamt systkinum þínum. Mikið óskaplega saknaðir þú hennar ömmu alla tíð. Þetta hafa verið fagnaðarfundir.

Guð blessi þig, mamma mín, og góða ferð. Þinn sonur,

Jónas (Nonni).

Elsku mamma, ég ætla að skrifa nokkur orð til að minnast þín. Það er bara dálítið erfitt á þessari stundu eins og þú veist á ég erfitt með að hemja tárin og söknuðurinn er mjög sár. Ég vil þakka þér fyrir allt, þú varst mér mjög kær, góð vinkona og alltaf til staðar, sem var mjög gott. Við höfum brallað margt í gegnum árin, ferðast mikið saman hérlendis og erlendis. Minningarnar streyma en erfitt er að koma þeim öllum á blað þannig að ég kýs að hafa þær áfram í minningabankanum og ylja mér með þeim í framtíðinni, þar verður af nógu að taka sem betur fer. Mamma mín, síðustu sólarhringarnir okkar saman í Sunnuhlíð eru efst í huga mér núna, þú varst svo dugleg en ég svo máttvana. Nóttin sem við sváfum og héldumst í hendur er ljúf minning í dag.

Ég vil þakka öllu því dásamlega fólki sem vinnur í Sunnuhlíð og hefur aðstoðað mömmu, hjartans bestu þakkir fyrir aðstoðina.

Nú er mamma sofnuð, ég sakna hennar mjög sárt, við hittumst seinna, elsku mamma mín.

Þín dóttir Ólína, eða eins og þú kallaðir mig stundum: Gudda þín.

Ólína J. Jónasdóttir.

Bíbí tengdamóðir mín er látin í hárri elli eftir erfið veikindi. Ég kynntist henni fyrst vorið 1961 þegar Vala dóttir þeirra kynnti mig, tilvonandi tengdasoninn, fyrir foreldrum sínum. Þau Jónas tóku bæði vel á móti mér og áttum við saman notalega stund í litla húsinu þeirra á Kársnesbrautinni. Í litla húsinu var alltaf nóg pláss fyrir alla enda gestrisnin í hávegum höfð. Við urðum strax miklir mátar við Bíbí og með tímanum sannir og góðir vinir. Bæði höfðum við mikla ánægju af ljóðum og vísum. Bíbí hafði gaman af því að segja mér sögur og allskonar vísur frá Eyjum. Bíbí kom oft til okkar á Bíldudal og dvaldi þá iðulega í nokkrar vikur, þá var nú oft glatt á hjalla, enda var tengdamóðir mín sérlega skemmtileg og stríðin mjög. Hún hafði gaman af því að koma manni á óvart með þessu gríni sínu og á ég margar góðar minningar frá þeim stundum. Eitt sinn var ég spurður að því hvort mér væru ekki farnir að leiðast þessir hrekkir hennar og svar mitt var: „Nei, ef þú veist um aðra eins þá kaupi ég hana.“

Að lokum langar mig að segja eina skemmtilega sögu sem ég veit að Bíbí hafði gaman af. Dóttursonur minn hitti langömmu sína og var ekki alveg viss um gælunafn hennar og kallar hátt og skýrt: „Þarna kemur amma bra bra.“ Já, þetta kunni hún sko vel að meta og var kölluð amma bra bra í mörg ár á eftir.

Elsku Bíbí, hafðu þökk fyrir öll árin og vinskapinn sem aldrei sló skugga á. Jónasi, börnum og fjölskyldum þeirra sendi ég kærar kveðjur. Þinn vinur,

Örn Gíslason (Öddi).

Elsku amma mín. Ég er ögn eigingjörn, mér finnst að þú hefðir átt að fá örlítið lengri tíma hér hjá mér, hjá okkur öllum.

Fyrir mörgum árum, mjög mörgum, þá sagðir þú við mig að þú treystir á að ég myndi skrifa fallega minningargrein um þig, sanna en fallega. Ég var þá rétt 22-23 ára, fannst fráleitt að ég þyrfti að gera það einn daginn. Við ræddum þetta á léttu nótunum, gerðum grín og fífluðumst með hvað ég ætti að skrifa. Samtalið endaði þó á alvarlegum nótum þar sem ég lofaði að skrifa frá hjartanu til þín.

Aldrei styggðaryrði frá þér, elsku amma mín, ótrúlega þolinmóð við landsbyggðarstúlkuna sem skildi ekki allar reglurnar í stóru höfuðborginni og gildi þess að mæta heim á réttum tíma, ekki missa af strætó. Ísferðir og heitt kókó á kvöldin. Allt til að manni liði eins vel og mögulegt var þegar við komum í Kópavoginn. Þú hefur alltaf verið svo falleg og fín, elsku amma mín. Það var yndislegt að koma til þín í pínulitla húsið á Kársnesbrautinni, þú í eldhússlopp og með svuntu, allt svo hreint og fínt þó það væri ekki eftir nýjustu tísku. Úti í garði við litla húsið voru svo hestarnir hans afa og þú kenndir okkur krökkunum að gefa þeim brauð þegar þeir opnuðu eldhúsgluggann með snoppunni. Alltaf var pláss hjá þér og afa fyrir okkur og vel tekið á móti okkur. Þegar þið fluttuð svo í Kjarrhólmann þá fannst mér þið nánast vera flutt í höll, þér tókst að gera allt svo fínt.

Lífið ykkar afa hefur ekki verið dans á rósum, þið hafið upplifað ykkar skerf af erfiðleikum, veikindum, fátækt og sorg, en þú stóðst alltaf eins og klettur og hélst öllu saman. Þú stóðst álagið og trúðir að það kæmi betri tíð og sumt þyrfti bara að standa af sér. Reyndar held ég að kímnigáfa þín og glettni hafi hjálpað þér í gegnum margt, kannski fleira en við vitum.

Amma mín, það er svo margt sem mig langar til að segja þér og segja um þig en þá þyrfti ég líklega allt plássið í blaðinu. Ég á bara samtal við þig á annan hátt núna, í huganum og með minningum.

Við höfum átt góðar stundir saman í gegnum tíðina. Undanfarin tvö, þrjú ár hefur þú faðmað mig fast þegar við vorum að kveðjast. Ég hvíslaði í eyra þitt í hvert skipti: amma mín ég elska þig og við hittumst aftur. Ég er ekkert dugleg við að segja svona venjulega en við þurfum báðar á því að halda og ég þakka fyrir að hafa sagt þetta við þig. Ég veit að þú veist. Ég, strákarnir mínir allir og litli langalangömmustrákurinn hugsum til þín í Sumarlandinu sem varð svo miklu fallegra þegar þú komst þangað og margir sem tóku á móti þér þar og fá eflaust heitt kókó og brauð með osti hjá þér.

Elsku afi minn, mikið er búið að taka frá þér og það verður erfitt hjá þér að sætta þig við lífið án hennar ömmu. Við sem eftir verðum reynum að gera okkar besta fyrir þig og veit ég að þeir sem búa nálægt þér verða þér góðir og passa upp á þig. Mamma, Ólína og Nonni, missir ykkar er mikill. Ég og fjölskylda mín vottum ykkur öllum dýpstu samúð.

Amma mín, hafðu þökk fyrir allt og allt. Ég elska þig og við hittumst aftur. Þín,

Bríet.

Elsku amma. Hér sit ég og skrifa örfá orð til þess að kveðja þig. Það var erfitt að heyra það að þú værir farin en ég veit og hugga mig við það að þú ert á góðum stað.

Það fyrsta sem mér dettur í hug, er ég hugsa til þín, er kóngabrjóstsykur. Hann áttirðu alltaf til í krukku inn í skáp og oftar en ekki fékk maður mola hjá þér. Einnig minnist ég dagsins er ég kom með litlu fjölskylduna mína til þín til þess að sýna þér og afa nýjasta barnabarnabarnið ykkar, hann Snæbjörn Tuma. Mikið var gaman að geta komið og hitt ykkur og voruð þið ánægð með litla drenginn. Ég mun geyma allar minningarnar sem ég á um þig í hjarta mér.

Elsku amma, ég elska þig og sakna þín. Nú ertu komin til þeirra sem þú hefur misst og saknað. Ég votta afa, mömmu, Ólínu, Nonna og öðrum vandamönnum mína dýpstu samúð.

Arna Margrét Arnardóttir.

Elsku amma mín. Það er svo skrítið að sitja hérna fyrir framan tölvuna og skrifa minningargrein.

Þegar ég var lítil elskaði ég að fara til þín og afa í gistingu. Það var alltaf svo gaman hjá okkur og við gerðum svo margt saman. Fyrstu minningar mínar frá því að ég var lítil eru þegar við afi fórum eldsnemma í hesthúsið og þegar við komum heim, þá varstu alltaf búin að baka eitthvað og eldhúsborðið var alltaf fullt af kræsingum.

Elsku amma, ég veit að þú ert komin á betri stað, ég sakna þín samt svo mikið. Þú varst alltaf til staðar fyrir mig þegar ég var yngri og ég gat alltaf leitað til þín í spjall. Það var svo gott að tala við þig, þú kenndir mér svo ótrúlega margt. Takk, amma mín fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig, þú varst alltaf hörkudugleg, alltaf svo góð og falleg. Það verður skrítið að koma til Reykjavíkur í heimsókn til afa en ekki til þín líka. Ég á svo margar minningar sem ég mun aldrei gleyma. Ástarkveðja,

Rakel Sara Jónasdóttir.

Elsku besta amma, það er svo erfitt að hugsa til þess að þú sért farin frá okkur. En við vitum öll að nú líður þér betur. Mér hefur alltaf þótt svo gaman að koma til þín og afa, ég gleymi því ekki þegar ég kom í Vogatunguna að heimsækja ykkur, mér fannst það alltaf svo skemmtilegt. Þú passaðir alltaf upp á það að mér leiddist ekki og ég fann mér alltaf eitthvað skemmtilegt að gera. Það var nú alltaf jafn skemmtilegt að spila olsen olsen við þig. Við spiluðum alltaf upp í ákveðið mörg spil og ef þú varst fyrr búin að vinna þau þá bættum við alltaf smá við svo ég myndi vinna. Þú hefur reynst mér svo vel, elsku amma mín. Þú varst alltaf svo hlý og góð við alla. Þú varst alltaf svo sæt og fín, vildir alltaf líta vel út og það gerðirðu sko heldur betur, amma. Þú varst alltaf svo dugleg og hélst áfram, ég er stolt af þér. Mér þykir svo vænt um það að alltaf þegar ég kom til þín og þú hrósaðir mér fyrir hversu sæt ég væri og þú tókst alltaf eftir því þegar ég kom í einhverju nýju, þá fékk ég hrós um hvað það væri fallegt. Ég held að það geti allir verið sammála um það að þú vildir öllum vel og manni leið alltaf vel í kringum þig. Ég vildi bara segja takk fyrir allt. Ég met það mikils hversu góð þú varst alltaf við mig, elsku besta amma mín. Ég er svo ánægð að hafa setið hjá þér síðustu dagana þína, haldið í höndina á þér, knúsað þig og kysst þig. Elsku amma, nú líður þér betur og ég veit þú verður hér hjá mér og vakir yfir mér. Ég elska þig svo ótrúlega mikið, amma, er heppin og ánægð að geta kallað þig ömmu.

Ég elska þig svo ótrúlega mikið, amma, og mun alltaf gera það. Guð geymi þig. Þín,

Sandra Björk Jónasdóttir.

Ég elska hana ömmu mína Bíbí meira en orð fá lýst. Bókstaflega. Ég ætlaði að lýsa því hér. En ég finn ekki orðin. Mér finnst samt nauðsynlegt að skrifa nokkur (allt of fá) orð um hana, svo ég hafi skrifað á spjöld sögunnar hversu dásamleg hún amma mín var. Amma Bíbí var með eyru sem hlustuðu af athygli og áhuga, faðm sem hélt fast og lengi, ást sem var endalaus og hjarta gert úr gulli. Þessu fann ég alltaf fyrir þegar ég kom til ömmu, m.a.s. þegar hún hafði áhyggjur af því að við værum að leggja lykkju á leið okkar til að koma í heimsókn.

Amma var með fallegt hjartalag, það sýnir sig til dæmis í því að manninum mínum fannst hún líka vera amma sín frá því hann hitti hana fyrst. Þegar kom að því að velja nafn fyrir eldri dóttur okkar vildum við, án nokkurs efa, nefna hana í höfuðið á ömmu Bíbí. Ég vona að við Ari getumi kennt dætrum okkar að vera eins og amma Bíbí: sterkar, fyndnar, hlýjar, góðar, ákveðnar, duglegar og skemmtilegar.

Skoðanir ömmu höfðu mótandi áhrif á fataval mitt, enn í dag. Þegar ég var 6 ára og átti pæjubuxur með gati sagði amma voða hissa: „Er gat á buxunum þínum?“ Þessi eina setning var nóg til þess að enn í dag hef ég aldrei gengið í buxum með gati. Kannski dálítið snjáðum. Aldrei með gati. Amma var hörkudugleg. Hún var og er íslenska konan. Þess vegna vitna ég hér í síðustu tvö erindi lagsins.

Og loks þegar móðirin lögð er í mold

þá lýtur þú höfði og tár falla' á fold.

Þú veist, hver var skjól þitt, þinn skjöldur og hlíf.

Það var íslenska konan sem ól þig og gaf þér sitt líf.

En sólin, hún sígur – og sólin, hún rís,

og sjá: Þér við hlið er þín ham ingjudís,

sem ávallt er skjól þitt, þinn skjöldur og hlíf:

Það er íslenska konan – tákn trúar og vonar,

sem ann þér og þér helgar sitt líf.

(Ómar Ragnarsson.)

Elsku amma Bíbí, þú ert hetja sem hefur kennt mér svo margt og fyrir það er ég þakklát.

Takk fyrir allt. Alltaf. Ég elska þig og sakna þín. Við Ari munum passa að Emilý Bríet og Ester Lillý viti alltaf hver amma Bíbí er.

Með ást og söknuð í hjarta og táraflóði kveð ég þig, elsku amma. Ég mun drekka appelsínuþykkni, sem er allt allt of sterkt, þér til heiðurs á afmælinu þínu, það sem eftir er. Þín,

Hildur Björk.

Í dag kveð ég elskulega móðurömmu mína, ömmu í Kópó.

Ég lofaði ömmu fyrir mörgum árum að skrifa minningarorð þegar hún væri öll. Amma var spaugsöm og sagði þetta í léttum tón en þó fylgdi þessum orðum alvara.

Hún amma var skemmtileg kona, hress og kát og átti auðvelt með að sjá spaugilegu hliðar lífsins. Ég held það hafi gagnast henni vel í lífsbaráttunni að hafa létta lund. Við hlógum oft og mikið saman. Samband okkar ömmu varð ekki náið fyrr en ég var orðin táningur. Ég flutt suður í höfuðborgina og hitti þau afa oftar, þá orðin hálffullorðin sjálf. Við kynntumst betur og kunnum svona sérlega vel hvor við aðra. Spásseruðum saman í bænum, kíktum á kaffihús og fórum saman í heimsóknir. Vorum alltaf pennavinkonur þegar ég hélt á vit ævintýranna út í heim og amma skrifaði hin skemmtilegustu bréf. Amma var traust og góð og reyndist sínu fólki vel. Hún kunni að reka heimili, enda útskrifuð úr húsmæðraskóla og alvön í að þurfa að láta enda ná saman.

Alltaf var gott að koma til hennar og fá sér eitthvað gott í gogginn. Ég var svo heppin að fá að búa hjá þeim einn vetur og var það til þess að við kynntumst enn betur og vinátta okkar styrktist enn frekar. Amma hafði skoðanir og voru umræðurnar oft fjörugar. Ég er reynslunni ríkari að hafa fengið að umgangast ömmu mína á jafningjagrundvelli öll þessi ár. Fengið að heyra um líf hennar frá barnæsku, móðurmissi, barnsmissi og margt annað sem markaði þessa sterku konu sem mér þótti svo vænt um. Að sjá ömmu með yngri bræðrum sínum sem henni þótti svo vænt um, þeim sem hún reyndist svo vel þegar þeir voru litlir drengir, var mér dýrmætt. Öll samtölin og hlátrasköllin með þeim systkinum eru mér ógleymanleg. Samveran með þeim gaf mér mikla innsýn í þeirra líf. Ég er óendanlega þakklát fyrir að hafa átt þessar stundir með ömmu og hennar fólki. Amma var heiðurskona sem ekki var fyrir neina væmni, en hún var samt hlý og góð, traust og heiðarleg. Ömmu þakka ég samfylgdina og allt það sem hún kenndi mér. Far þú í friði, elsku amma mín, takk fyrir allar góðu stundirnar, spjallið yfir kaffibolla, umhyggju þína fyrir dætrum mínum og mínu lífi öllu. Þín,

Sigríður (Sirrý).

Bíbí mín, einu sinni sagðist þú vilja ritskoða minningargreinina þína frá mér. Ég vona að þessi orð standist ritskoðunina, nú þegar komið er að kveðjustund. Ég geymi ótal stundir, minningarnar og orð sem ekki hefðu komist í gegn, í huganum.

Bíbí var alltaf tilbúin að hjálpa okkur, hvenær sem á þurfti að halda.

Með henni er gengin góð manneskja.

Takk fyrir samfylgdina, Bíbí mín, og góða ferð inn í draumalandið.

Páll Andrésson.