Seðlabanki evrunnar uppfyllir væntingar markaða en hætt er við að aðgerðin reynist gagnlaus fjáraustur í evruhítina

Enn er gripið til aðgerða til að bjarga evrunni. Mario Draghi, bankastjóri Seðlabanka evrunnar, tilkynnti í gær að bankinn myndi verja 60 milljörðum evra (9.200 milljörðum króna) á mánuði til kaupa á ríkisskuldabréfum gefnum út í evruríkjum og veðtryggðum skuldabréfum frá mars að telja fram í september á næsta ári.

Spáð hafði verið að nú yrðu prentvélarnar settar í gang og markaðirnir þegar gert ráð fyrir því í bókum sínum.

Þessi aðgerð heitir á máli innvígðra „magnbundin íhlutun“ og er ætlað að hleypa lífi í máttvana hagkerfi. Hagvöxtur á evrusvæðinu er með minnsta móti, þýska efnahagsvélin farin að hiksta og óttinn við verðhjöðnun eða langvarandi stöðnun fer vaxandi.

Hugsunin er sú að með því að seðlabankinn prenti peninga til að kaupa skuldabréf muni vextir lækka, sem verði til þess að einstaklingar og fyrirtæki taki lán, neysla og útgjöld aukist, ný störf verði til og efnahagurinn taki við sér.

Þetta er sú leið, sem farin hefur verið í Bandaríkjunum undanfarin sex ár og margir hafa hvatt til þess að það sama yrði gert á evrusvæðinu. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur hins vegar verið algerlega andvíg því, einkum á þeirri forsendu að þá kæmust þau ríki, sem eru í mestu klandri, hjá því að takast á við rót vandans og ráðast í umbætur, sem vissulega kunni að vera sársaukafullar, en muni þegar upp er staðið skila traustari undirstöðum fyrir efnahaginn.

Sýn Merkel er sem sagt sú að frekar en að ýta vandanum á undan sér eigi að taka á honum. Ekki er hægt að segja að þetta hafi virkað hingað til á evrusvæðinu, en þá er líka rétt að halda til haga að ekki hefur verið ráðist í umbætur af offorsi, enda stjórnmálamönnum nokkur vorkunn. Það er ekki vænlegt til vinsælda og endurkjörs að kvelja kjósendur.

Síðan er auðvitað undirliggjandi vandi evrunnar og helsta ástæðan fyrir því að hún hefur nú verið í gjörgæslu í hálfan áratug. Upptaka evrunnar var pólitískt keppikefli, lausnargjaldið fyrir því að Þýskaland fengi að sameinast, án þess að efnahagslegar forsendur væru fyrir hendi.

Tæki og tól til að halda úti sameiginlegu myntsvæði margra ríkja og draga úr misvægi þegar uppsveifla var á einum stað og niðursveifla á öðrum voru ekki fyrir hendi. Evran er peningahít.

Gallinn við að grípa nú til „magnbundinnar íhlutunar“, það er að segja peningaprentunar til kaupa á skuldabréfum, á evrusvæðinu er að vextir eru nú þegar í lágmarki. Stýrivextir Seðlabanka evrunnar voru 0,05% og þeim var ekki breytt í gær, enda lítið svigrúm til lækkunar ætli menn að halda sig plúsmegin við núllið.

Því eru hverfandi líkur á því að þessi aðgerð muni hafa þau áhrif á vexti að útlán muni aukast. Þeir eru það lágir fyrir. Hinir nýprentuðu peningar munu þá frekar fara í að kaupa hlutabréf og fasteignir með tilheyrandi hættu á bólumyndun.

Hefði Draghi ætlað að auka neyslu í raun hefði honum sennilega verið nær að dreifa þessu fé beint til almennings á evrusvæðinu.