Nokkrir af þeim Íslendingum búsettum á Norðurlöndunum sem teknir voru tali í þessari umfjöllun voru spurðir hvort þeir upplifðu sig sem innflytjendur á staðnum.

Nokkrir af þeim Íslendingum búsettum á Norðurlöndunum sem teknir voru tali í þessari umfjöllun voru spurðir hvort þeir upplifðu sig sem innflytjendur á staðnum. Flestir töldu að svo væri ekki og sögðu að heimamenn litu öðrum augum á Íslendinga en innflytjendur sem koma lengra frá.

Óskar Gíslason, sjálfstæður atvinnurekandi í Kaupmannahöfn: „

Nei, ég hef aldrei skilgreint mig þannig, sem er svolítið skrýtið ef maður fer að hugsa út í það. En ég held að Danir skilgreini Íslendinga og aðra Norðurlandabúa almennt ekki á þann hátt.“

Stefán Sigurðsson, blikksmiður í Bergen í Noregi:

„Það er mín tilfinning að Norðmenn líti ekki á Íslendinga sem útlendinga.“

Sigríður Dúna Sverrisdóttir, háskólanemi í Lomma í Svíþjóð:

„Tungumálið skiptir öllu máli í þessu sambandi; ef maður kann það verður maður meiri hluti af samfélaginu. Annars finnst mér Svíar almennt taka vel á móti útlendingum.“

Marín Kristjánsdóttir, sölumaður í Bergen í Noregi:

„Hér eru Norðurlandabúar ekki innflytjendur, sérstaklega ekki Íslendingar. „Þið eruð hluti af okkar þjóð“ segja þeir [Norðmenn] oft.“

Linda Sif Þorláksdóttir, líkamsræktarkennari í Kaupmannahöfn í Danmörku:

„Ég get ekki séð neinn mun eftir því frá hvaða landi fólk kemur hvernig komið er fram við það; hvort sem þú ert frá einhverju Norðurlandanna eða lengra frá..“

Sara Lind Gunnarsdóttir, kennari í Bergen í Noregi:

„Íslendingar eiga kannski auðveldara með að aðlagast samfélaginu en fólk frá öðrum löndum því menningin er lík að mörgu leyti og tungumálið svipað. En ég held að margir Íslendingar hafi ranghugmyndir um hvernig sé að búa í Noregi. Þú hoppar ekkert inn í gott starf hér, ekki frekar en á Íslandi. Það þarf að hafa fyrir því að aðlagast og þetta er ekkert auðvelt í byrjun.“