Sigrún Magnúsdóttir fæddist á Hrauni í Grindavík 26. júní 1920. Hún lést 13. janúar 2015.

Foreldrar hennar voru Magnús Hafliðason frá Hrauni í Grindavík, f. 21. nóvember 1891, d. 17. desember 1983, og Katrín Gísladóttir frá Urriðafossi í Flóa, f. 10. september 1892, d. 20. ágúst 1945.

Systkini Sigrúnar: Sigurliði, f. 1922, d. 1941, Ingibjörg, f. 1926, og Gíslína Helga, f. 1934, d. 1991.

Sigrún giftist 16. maí 1942 Guðmundi Ragnari Einarssyni, f. 15. janúar 1917, d. 1. desember 2006, syni Einars Jóhannssonar frá Skálanesi við Breiðafjörð og Jónínu Jónsdóttur frá Álftamýri við Arnarfjörð.

Börn Sigrúnar og Guðmundar Ragnars: a) Sigurliði, f. 1942, maki Ríkey Guðmundsdóttir, fyrrverandi maki Guðbjörg Theodórsdóttir, synir þeirra eru Theodór Gísli og Sigurður Ragnar, b) Magnea Katrín, f. 1947, fyrrverandi maki Guðmundur Vestmann, dætur þeirra eru Sigrún Guðbjörg og Sigurbjörg, c) Einar, f. 1952, d. 2012, maki Guðrún Hallgrímsdóttir, fyrrverandi maki Anna Alexía Sigmundsdóttir, d. 1997, synir þeirra eru Lúðvík Sveinn, Guðmundur Ragnar og Snorri Valur, d. 2009, d) Anna Þórdís, f. 1959, maki Jón Steinar Guðjónsson, dætur þeirra eru Hugrún, Berglind og Sigrún Edda. Barnabarnabörnin eru 15.

Sigrún og Guðmundur Ragnar bjuggu fyrst í Grindavík, en fluttu fljótlega til Reykjavíkur. Frá árinu 1954 bjuggu þau í Kópavogi, lengst af í Melgerði 21.

Sigrún var fyrst og fremst húsmóðir, en vann stöku sinnum utan heimilis. Hún var mikil hannyrðakona og liggja verk hennar víða.

Útför Sigrúnar fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 23. janúar 2015, og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku amma okkar, við kveðjum þig með miklum söknuði. Á sama tíma erum við þakklátar fyrir allar þær góðu stundir sem við áttum saman og fyrir að hafa fengið að hafa þig svona lengi hjá okkur. Takk fyrir allt.

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Þínar,

Hugrún, Berglind

og Sigrún Edda.

Það eru sennilega fáir komnir hátt á tíræðisaldur sem skilja eftir sig jafnmikið tómarúm og móðursystir okkar Sigrún. Við systkinin kölluðum hana reyndar aldrei annað en Dúu, hún var elsta systir Ingibjargar móður okkar sem að sama skapi hefur alltaf verið kölluð Imba. Þær ólust upp á Hrauni í Grindavík, þar sem brimið skellur í fjörukambinn og sjógangurinn getur verið engu líkur.

Fyrir kom oftar en einu sinni að skip strönduðu rétt fyrir utan bæjardyrnar og skipbrotsmenn fengu húsaskjól og fyrstu aðhlynningu á Hrauni. Það hlýtur að móta ungar sálir að horfa upp á náttúruna gefa og taka jafnhraustlega og þær urðu vitni að. Einnig herjuðu berklar á Hraun og féllu móðir þeirra og bróðir frá á besta aldri.

Svona aðstæður herða eflaust þá sem í þeim lenda og systurnar þrjár á Hrauni lærðu að bíta á jaxlinn og halda áfram möglunarlaust.

Dúa var heldur engum lík. Kímnigáfa og verkgleði eru sennilega það albesta veganesti sem nokkur getur fengið út í lífið og af því hafði frænka nóg. Var gestrisin og frændrækin í meira lagi og féll helst aldrei verk úr hendi. Staðföst með stórt hjarta og vildi hafa hlutina í lagi.

Hún lét mann heyra það ef maður heimsótti hana ekki nógu oft eða ekki var stoppað nógu lengi og verst af öllu var ef maður vildi ekki þiggja neitt eða hafði ekki frá neinu að segja. Hún hafði einlægan áhuga á fólki og fylgdist vel með öllum í kring um sig fram á síðasta dag.

Hjarta stórfjölskyldunnar sló í Melgerðinu þar sem Dúa og Ragnar, eiginmaður hennar heitinn, byggðu sér hús og hún hélt heimili þar til yfir lauk. Hún var svo lánsöm að vera heilsugóð og sjálfbjarga. Síðasta kaffiboðið hélt hún núna á milli jóla og nýárs, daginn áður en hún lagðist inn á sjúkrahús í sína hinstu legu.

Þá var ýmislegt farið að gefa eftir og þótti henni dauðastríðið dragast fullmikið á langinn, sagðist alltaf hafa verið fljót að öllu sem hún hefði tekið sér fyrir hendur en þetta ætlaði að taka óratíma.

Að leiðarlokum er auðvelt að sjá hana fyrir sér í eldhúskróknum í Melgerðinu, hlæjandi að rifja upp sögu af Einari syni sínum litlum. Hann var mjög líflegur drengur með fjörugt ímyndunarafl og hafði spenntur tekið á móti foreldrum sínum er þau komu af jarðarför og spurt með öndina í hálsinum hvort þau hefðu séð hinn látna „fara upp“. Þessi ímynd barnsins um eilífðina er óneitanlega huggandi og það er allt eins fullvíst að feðgarnir hennar Dúu taka vel á móti henni þegar hún „fer upp“. Auðvelt að sjá fyrir sér að Dúa fái aftur blikið í augun sem slokknaði nánast þegar Einar féll svo sviplega frá fyrir þremur árum.

Fyrir hönd systkinanna úr Skipasundinu þakka ég ómetanlega samfylgd sterkrar konu og votta afkomendum og tengdabörnum samúð.

Kristín K. Alexíusdóttir.