[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Brynja Björg Halldórsdóttir brynja@mbl.is Katar er meðal þeirra landa þar sem MERS-veiran svokallaða hefur greinst í mönnum, þar á meðal í Doha, þar sem heimsmeistaramótið í handbolta stendur nú yfir.

Baksvið

Brynja Björg Halldórsdóttir

brynja@mbl.is

Katar er meðal þeirra landa þar sem MERS-veiran svokallaða hefur greinst í mönnum, þar á meðal í Doha, þar sem heimsmeistaramótið í handbolta stendur nú yfir. Um 200 Íslendingar eru staddir þar vegna keppninnar.

Birgir Jóhannesson smitsjúkdómalæknir, sem flutti erindi um málið á Læknadögum í gær, segir sjúkdómstilfelli í Katar ekki mörg, kannski um tíu talsins, og þau séu ekki nýleg. Smit séu ekki algeng á þessum árstíma, auk þess sem sjúkdómurinn berist ekki auðveldlega á milli manna.

,,Sjúkdómurinn virðist ganga í bylgjum og sem betur fer virðist heimsmeistaramótið í handbolta í Katar vera haldið utan þeirra mánaða sem mestu bylgjurnar eru.“

Hann segir sjúkdóminn að öllum líkindum eiga uppruna sinna í leðurblökum en kameldýr séu talin aðaluppspretta sjúkdómsins í mönnum. ,,Talið er að kameldýrið sé millihýsillinn sem leiðir til sýkingar í mönnum. Engu að síður er ekki mikil almenn smithætta á milli manna. Þeir sem smitast hafa flestir verið í nánum samskiptum við kameldýr, svo sem kamelhirðar.“

Hann segir ekki einhlítt að fólk þurfi að forðast kamelferðir á þessum slóðum en ferðamönnum sé ráðlagt að forðast þéttar kamelhjarðir, sérstaklega ef dýr líta út fyrir að vera veik. ,,Lönd á Arabíuskaganum vita af sýkingahættunni þannig að ferðaþjónustuaðilar þar eru vonandi farnir að fjarlægja úr hjörðunum dýr sem gætu verið veik.“

Þá séu ferðamenn varaðir við að drekka ógerilsneydda kamelmjólk og borða kamelkjöt sem ekki sé fulleldað. Mikilvægast sé þó að viðhafa almennar sýkingavarnir, þ.e. gæta að handþvotti.

,,Frá því að veiran kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 2012 hefur henni vaxið ásmegin en útbreiðsla nýrra tilfella hefur að mestu leyti takmarkast við Arabíuskagann. Eins og gengur og gerist í alþjóðasamfélögum koma upp einstaka tilfelli vegna fólksflutninga en þetta eru allt innflutt tilfelli.“

Engar líkur á faraldri

Aðspurður segir Birgir engar líkur á að sjúkdómurinn verði að farsótt á Vesturlöndum. ,,Séu sýkingavarnir í lagi er auðvelt að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdómsins.“ Þá sé íslenska heilbrigðiskerfið vel í stakk búið til að takast á við MERS-tilfelli.

„Sýkingavarnir á Íslandi eru almennt séð mjög góðar og innviðir kerfisins eru mjög góðir.“

Aðrir nýir smitsjúkdómar voru í brennidepli á Læknadögunum í gær, þar sem rætt var um lyme-sjúkdóminn, chikungunya-vírus, dangue-flensu og ebólu.

Helst á Arabíuskaga

MERS- veiran (e. Middle East respiratory syndrome coronavirus) lýsir sér sem skæð lungnabólga og hefur nú greinst í 22 löndum. Hún kom fram á sjónarsviðið árið 2012, í Sádi-Arabíu, og hefur dregið tæplega 300 manns til dauða þar í landi. Uppspretta veirunnar er í leðurblökum en menn smitast aðallega í gegnum kameldýr.

Birtingarmynd sjúkdómsins getur verið hiti, hrollur, skjálfti og vöðvaverkir. Höfuðeinkennin eru þó hósti, mæði og blóðhósti ásamt meltingafæraeinkennum.