Sigrún Huld Jónsdóttir fæddist 8. nóvember 1934 á Ísafirði. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 16. janúar 2015.

Foreldrar hennar voru hjónin Jón Magnús Pétursson bæjargjaldkeri á Ísafirði, síðar kaupmaður og bókari í Reykjavík, f. 17.11. 1894, d. 3. 1. 1981, og Kristbjörg Jónsdóttir húsmóðir, f. 23.5. 1904, d. 15.2. 1981. Systkini Sigrúnar voru Jóhann Þorsteinn Davíðsson Löve, f. 29.7. 1923, d. 10.4. 2002, Lísbet Jónsdóttir Willis, f. 16.3. 1931, d. 5.3. 2013.

Börn Sigrúnar eru tvö. Dóttir hennar er Guðbjörg Jóhanna Sigrúnardóttir, f. 17.12. 1957. Börn hennar eru Sigrún Huld, f. 1978, gift Gunnari Trausta Magnússyni, f. 1977. Börn þeirra eru Þorbjörg Halldóra, f. 2006, Gunnar Gabríel, f. 2014. Auðunn Jón, f. 1981. Anna María, f. 1992, sambýlismaður hennar er Bjarni Farestveit, f. 1990. Dóttir þeirra er Fjóla Sif, f. 2009. Vigdís Björk, f. 1994. Sonur Sigrúnar er Guðmundur Hannesson, f. 22.9. 1960, kvæntur Kristlaugu Sigríði Sveinsdóttur, f. 5.5. 1958. Börn þeirra eru Áslaug Rós, f. 1983, gift Tómasi Guðmundssyni, f. 1978. Börn þeirra eru Thelma Hrönn, f. 2009, og Viktoría Ýr, f. 2013. Hannes, f. 1988, sambýliskona Helen Lilja Helgadóttir, f. 1988. Valdís, hjúkrunarfræðinemi, f. 1992, gift Hirti Má Gestssyni, f. 1982.

Sigrún giftist 8. nóvember 1958 Hannesi Pálssyni, f. 18.4. 1898, d. 15.1. 1978. Núverandi eiginmaður Sigrúnar er Haukur Þórðarson, járnsmiður frá Hvallátrum, f. 21. 10. 1934. Giftust þau 14.3. 1981.

Sigrún Huld ólst upp á Ísafirði. Eftir að hún fluttist til Reykjavíkur starfaði hún við verslunarstörf, vann við setningu hjá Blaðaprenti og einnig sjálfstætt sem setjari. Síðar flutti hún vestur og vann sem bóndi á Hvallátrum í Rauðasandshreppi um skeið og lauk svo starfsævi sinni hjá Pósti og síma í Reykjavík.

Útför Sigrúnar Huldar fer fram frá Bústaðarkirkju í dag, 23. janúar 2015, og hefst athöfnin kl. 13.

Sigrún mágkona mín er fallin frá eftir stutt en erfið veikindi. Þótt heilsan væri farin að bila síðustu árin átti enginn von á því að hún kveddi svo fljótt. Ég kynntist Sigrúnu fyrst þegar hún og Haukur bróðir minn rugluðu saman reytum sínum. Þau voru þá á miðjum aldri, hún ekkja og átti tvö uppkomin börn en hann piparsveinn. Hún flutti til hans hingað í Dalalandið og hafa þau búið hér með okkur í blokkinni síðan. Undanskilin eru þó tvö ár eða svo sem þau voru við búskap vestur á Látrum í Rauðasandshreppi. Þau tóku við búsforráðum á Látrum þegar móðir okkar dó 1980 og faðir okkar var of heilsuveill til að sjá um búskapinn einn. Sigrúnu líkaði búskapurinn ágætlega og reyndist hin efnilegasta búkona. Ekki reyndust þó forsendur til að halda þessum búskap áfram og var hann lagður af og þau fluttu suður. Sigrún var greind, hæfileikarík og margfróð kona sem hafði oft sterkar skoðanir á hlutunum og lét þær óhikað í ljós. Hún tók verslunarpróf og starfaði við ýmis störf í gegnum tíðina, meðal annars bókasetningu um árabil. Síðustu starfsárin sín vann hún við póstþjónustu, en það reyndist henni nokkuð erfitt vegna heilsubrests.

Upp í hugann koma minningar um margar skemmtilegar samverustundir, t.d. frá hestamennskuárunum okkar saman. Sama má segja um útilegureisurnar á sumrin með ferðahópnum, en þá var oft glatt á hjalla. Það var fyrir tíma felli- og hjólhýsa. Eftir að Sigrún var hætt að vinna lagði hún stund á föndurvinnu með gler og málm og gerði margar fallegar myndir og muni meðan hún hafði heilsu til. Einnig hafði hún mikla ánægju af að rækta rósirnar sínar og fleira í garðinum, en átti orðið erfitt með það vegna veikleika í baki. Börnin hennar og barnabörnin voru hennar stolt og yndi og fylgdist hún vel með þeim öllum. Sigrún var góður vinur og nágranni og hennar verður sárt saknað. Við munum sakna þess að sjá þau ekki lengur leiðast upp í búðina í sinni daglegu verslunarferð og heilsubótargöngu. Ég kveð Sigrúnu með þakklæti og hlýhug.

Börnum hennar, Guðbjörgu og Guðmundi, og þeirra fjölskyldum og Hauki votta ég innilega samúð.

Ragna.

Leiðir okkar lágu saman þegar Sigrún giftist móðurbróður mínum, Hauki Þórðarsyni. Haukur og systkini hans höfðu búið í sömu blokk í Dalalandi ásamt fjölskyldum sínum um árabil. Því fengum við bræður mínir og frændsystkin að alast upp í mikilli nálægð. Koma Sigrúnar inn í þetta samfélag var ánægjuleg. Við börnin hændumst að henni. Hún sýndi okkur áhuga og var skemmtileg, uppátækjasöm og kom sífellt á óvart. Við kunnum vel að meta hreinskilni hennar og lífsgleði. Við hrifumst með þegar hún sagði frá, hafði frá svo mörgu að segja og gerði það af innlifun.

Sigrún og Haukur stunduðu fjárbúskap um tíma vestur á Látrum við Látrabjarg ásamt afa mínum, Þórði Jónssyni. Ég var svo lánsöm að vera hjá þeim fyrir vestan hluta úr sumri. Það var góður og lærdómsríkur tími. Sigrún hafði gaman af að miðla af þekkingu sinni og gerði það af natni og þolinmæði. Þetta sumar fórum við í ferðalag að Nauteyri við Ísafjarðardjúp á æskuslóðir Sigrúnar. Hún naut þess að segja frá og sýna okkur staðinn sinn, því þar átti hún sterkar rætur.

Eftir að við frændsystkinin uxum úr grasi og fluttum að heiman var alltaf gott að leita til Sigrúnar. Hún fylgdist með okkur og samfagnaði á tímamótum. Tók á móti okkur með mildu brosi og opinn faðminn.

Ég þakka samfylgd með Sigrúnu og kærar minningar og votta Hauki, börnum Sigrúnar og fjölskyldu samúð mína. Megi Guð vera með þeim.

Lilja Kristjánsdóttir.

Sigrún Huld Jónsdóttir er horfin af heimi. Þar kveður mikil ágætiskona að loknu löngu og að sumu leyti óvenjulegu lífi. Ég kynntist Sigrúnu þegar hún giftist frænda mínum Hannesi Pálssyni frá Undirfelli. Þetta var fremur sérkennilegt hjónaband þar sem aldursmunur þeirra hjóna var meiri en venjulegt er eða hátt á fjórða áratug. Þetta var þriðja hjónaband Hannesar, sem ekki löngu áður hafði misst frábæra eiginkonu, Katrínu Þorsteinsdóttur, og harmaði hana ákaflega. Sigrún var á hinn bóginn einstæð móðir hálfþrítug. Þótt sumir hafi ekki talið þetta hjónaband til frambúðar rættist betur úr en við var búist. Hannes gekk Guðbjörgu dóttur Sigrúnar í föðurstað og settu þau hjón saman bú á fjórðu hæð að Háaleitisbraut 30 og þar bjó Sigrún þeim einstaklega vistlegt heimili. Þau eignuðust soninn Guðmund, mjög efnilegan dreng sem síðar var mörg sumur hjá okkur á Höllustöðum við einstaklega góðan orðstír enda afbragðsmaður. Örlögin höguðu því svo að ég varð heimagangur hjá þeim hjónum um margra ára skeið. Gestrisni þeirra var mikil og hjá þeim leið öllum vel og þar var gaman að koma. Sigrún var mjög myndarleg húsmóðir og ástríki þeirra hjóna duldist engum sem með þeim dvaldi. Þegar börn þeirra uxu úr grasi las Sigrún með Guðbjörgu dóttur sinni, tók landspróf og síðan verslunarpróf enda var hún góðum gáfum gædd. Svo sem að líkum lét sótti ellin Hannes heim. Hann varð fótfúinn og hjartveikur. Sigrún sýndi honum einstaka ástúð og er ekki ofmælt að hún hafi með umhyggju sinni lengt til muna ævi Hannesar síns. Hann hafði vinnuþrek til efsta dags og gat ekki hugsað sér að flytja í aðra íbúð þótt stigar væru langir að íbúð þeirra á fjórðu hæð. Eftir lát Hannesar fækkaði samfundum við Sigrúnu. Hún eignaðist ágætan mann, Hauk Þórðarson frá Látrum. Við á Höllustöðum sendum afkomendum og öðrum ástvinum Sigrúnar bestu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning hennar

Páll Pétursson.