Hvalaskoðun Gústaf Daníelsson mun hafa aðstöðu fyrir hvalaskoðunarbát sinn við bryggju í Siglufirði en hefur einnig verið boðið að liggja í Ólafsfirði ef því er að skipta. Heimasíða fyrirtækisins er www.sigloseasafari.is.
Hvalaskoðun Gústaf Daníelsson mun hafa aðstöðu fyrir hvalaskoðunarbát sinn við bryggju í Siglufirði en hefur einnig verið boðið að liggja í Ólafsfirði ef því er að skipta. Heimasíða fyrirtækisins er www.sigloseasafari.is. — Morgunblaðið/Sigurður Ægisson
Sigurður Ægisson sae@sae.is Siglo Sea Safari, nýtt siglfirskt fyrirtæki, varð til á dögunum eftir nokkurra mánaða undirbúningstíma. Á bak við það er Saga útgerð ehf., í eigu Gústafs Daníelssonar.

Sigurður Ægisson

sae@sae.is

Siglo Sea Safari, nýtt siglfirskt fyrirtæki, varð til á dögunum eftir nokkurra mánaða undirbúningstíma. Á bak við það er Saga útgerð ehf., í eigu Gústafs Daníelssonar. Boðið verður upp á daglegar hvalaskoðunarferðir og aðrar tengdar frá 1. júní næstkomandi.

Gústaf er 57 ára gamall, fæddur og uppalinn á Siglufirði, viðskiptafræðingur að mennt og hefur þar á ofan masterspróf frá Danmörku og er lærður stýrimaður. „Ég er búinn að vera viðriðinn sjávarútveg alla mína ævi,“ segir hann, aðspurður hvað hafi gert það að verkum að hann ákvað að fara út í þetta. „Ég var til sjós fram undir þrítugt en fór þá að vinna við stjórnun og hef unnið hjá stórum sjávarútvegsfyrirtækjum, var t.d. í fimm ár á Hólmavík, stjórnaði Hólmadrang, í fimm ár hjá Vísi í Grindavík og svo erlendis, m.a. í Danmörku. Rak þar stórt fyrirtæki sem var að pakka rækju, var þar í 3-4 ár, og var svo hjá Eimskip í Englandi í sambandi við flutninga á sjávarafurðum og eins hér á landi.“

Gústaf flutti til Siglufjarðar að nýju árið 2009, hóf þar útgerð, en keypti árið 2011 Egilssíld ehf., þ.e. reksturinn og merkið, og rekur það fyrirtæki nú undir nafninu Egils sjávarafurðir ehf., en hélt áfram í útgerðinni jafnhliða þar til nýverið.

Úr fiski í túrismann

„Við seldum bát fyrir skemmstu og ég ætla að kalla þetta gott hvað fiskinn varðar, hætta að gera út á fisk og rækju og fara að snúa mér að túrismanum,“ segir Gústaf. „Ég er með augastað á nokkrum bátum í Noregi, litlum, hraðskreiðum farþegabátum, 30-50 manna, þar sem fólk getur bæði verið inni og úti, og þannig að hægt sé að keyra vestur í Skagafjörð, að Málmey, eða beint í norður eða hvaðeina.

Það er eiginlega þrennt sem ég býð upp á: í fyrsta lagi hefðbundin hvalaskoðun, þriggja tíma ferðir, síðan miðnæturferðir yfir hásumarið, að sigla þá jafnvel út í Grímsey eða eitthvað í þeim dúr, og í þriðja lagi að leigja bátinn út í sérsniðnar ferðir. Þetta er í þróun og verður það í byrjun og svo kemur reynsla á þetta, hvernig best er að haga þessu.“