Það er með ólíkindum hvað sumir stjórnmálamenn geta lagst lágt til að hugsanlega afla sér vinsælda og atkvæða. Nýjasta dæmið sem Víkverji veit um er útspil borgarstjóra í vikunni í sambandi við frídaga.

Það er með ólíkindum hvað sumir stjórnmálamenn geta lagst lágt til að hugsanlega afla sér vinsælda og atkvæða. Nýjasta dæmið sem Víkverji veit um er útspil borgarstjóra í vikunni í sambandi við frídaga.

Á borgarstjórnarfundi í fyrradag kom fram að borgarstjóri vildi að 19. júní í ár yrði frídagur í staðinn fyrir þjóðhátíðardaginn 17. júní vegna þess að fyrrnefnda daginn væri 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna og illa gengi upp að hafa tvo frídaga með svo stuttu millibili.

Það er allt gott um kvenfrelsisbaráttuna að segja og vel til fundið að halda sérstaklega upp á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna, en borgarstjóri er vægast sagt á hálum ís, eins og borgarar hafa verið frá því snemma í desember sl. vegna aðgerðarleysis hans í hreinsun gatna og stíga, þegar hann vill þurrka út þjóðhátíðardaginn með einu pennastriki. Það er á veturna sem þarf að bregðast fljótt við með ruðningi en ekki á sumrin.

Það vill svo til að 17. júní er lögbundinn frídagur á Íslandi. Er það helsta mál borgarstjóra í aðdraganda kjarasamninga að taka þennan rétt af borgurum?

Víkverji veltir því einnig fyrir sér hvort þetta sé liður í lengra sjónarspili borgarstjóra. Hann segir að ekki gangi að hafa tvo frídaga með einn vinnudag á milli. Sé hann samkvæmur sjálfum sér gengur þá alls ekki að hafa tvo frídaga í röð. Annaðhvort skírdagur eða föstudagurinn langi verður þá að víkja sem frídagur, páskadagur eða annar í páskum, hvítasunnudagur eða annar í hvítasunnu, jóladagur eða annar í jólum, gamlársdagur eða nýársdagur. Laugardagur eða sunnudagur.

Þetta útspil borgarstjóra er dæmt til að mistakast en hverju verður stungið upp á næst?