Ráðaleysi Aron Kristjánsson klórar sér í höfðinu í leikhléi hjá íslenska liðinu í leiknum við Tékka. Hann þarf að finna ráð fyrir leikinn gegn Egyptum á morgun.
Ráðaleysi Aron Kristjánsson klórar sér í höfðinu í leikhléi hjá íslenska liðinu í leiknum við Tékka. Hann þarf að finna ráð fyrir leikinn gegn Egyptum á morgun. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Katar Ívar Benediktsson iben@mbl.is Niðurlæging, svartnætti voru tvö fyrstu orðin sem komu upp í hugann þegar flautað var til leiksloka í viðureign Íslendinga og Tékka í íþróttahöllinni í Al-Sadd í Doha í Katar í gærkvöldi.

Í Katar

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Niðurlæging, svartnætti voru tvö fyrstu orðin sem komu upp í hugann þegar flautað var til leiksloka í viðureign Íslendinga og Tékka í íþróttahöllinni í Al-Sadd í Doha í Katar í gærkvöldi. Gjaldþrot var fyrsta orðið sem kom fram á varir fyrirliðans, Guðjóns Vals Sigurðssonar, þegar hann hann hitti blaðamann Morgunblaðsins í leikslok eftir 11 marka skell, 36:25, fyrir Tékkum sem voru komnir með bakið upp að veggum í baráttunni um sæti í 16-liða úrslitum. Íslenska landsliðinu, sem virtust allir vegir færir eftir framúrskarandi leik gegn Frökkum á þriðjudagskvöldið, féll bókstaflega allur ketill í eld strax á fyrstu mínútu. Eftir það tók við óskipulagt undanhald undan eldinum í svartnættinu í Doha.

Nú tekur við hreinn úrslitaleikur fyrir íslenska landsliðið á morgun gegn Egyptum sem leikið hafa afar vel í keppninni og hafa auk þess stuðning nokkur þúsund manna á hverjum leik. Egyptar eru þegar öruggir áfram en miðað við nokkuð jafngóða leiki í keppninni til þessa er vandséð að þeir fari út af sporinu. Íslenska landsliðið verður að vinna leikinn til þess að komast í 16-liða úrslit þar sem Tékkar eiga fyrir höndum leik við Alsírbúa sem þeir eiga næsta örugglega að vinna og komast upp fyrir íslenska landsliðið tapi það eða geri jafntefli við lið Egypta.

Ef íslenska liðið kemst ekki í 16-liða úrslit keppninnar fer það í svokallaða forsetakeppni með átta lökustu liðum mótsins.

Það er hreint rannsóknarefni hversu miklar sveiflur eru í leik íslenska landsliðsins um þessar mundir. Segja má að það sé annaðhvort allt eða ekkert. Einn viðmælandi blaðamanns eftir leikinn í gær líkti liðinu um þessar mundir við Dr. Jekyll og Mr. Hyde og vitnaði einnig til leikjanna við Þýskaland í Laugardalshöll skömmu fyrir heimsmeistaramótið. Þá sýndi það einnig á sér tvær hliðar.

Er skýringarinnar að leita hjá þjálfaranum og í undirbúningi hans fyrir leiki eða liggur sökin á þessum sveiflum hjá leikmönnum og þjálfara? Það er alls ekki eðlilegt að í þremur af fjórum leikjum þessa móts heftur liðið ekki verið með á nótunum frá fyrstu mínútu. Og hvernig og hvenær bregst þjálfarinn við þegar í óefni er komið? Eða voru leikmenn íslenska landsliðsins kannski orðnir eilítið góðir með sig eftir að hafa endurheimt „gamla leikformið“ gegn Frökkum. Ekkert af þeim neista, gleði og einbeitingu sem fyrir hendi var í þeim leik endurspeglaðist í íslenska landsliðinu á keppnisvellinum í íþróttahöllinni í Al-Sadd í gærkvöldi. Strax í fyrstu sókn, með sendingu Alexanders Peterssons til Arons Pálmarssonar, var tónninn gefinn. Sá tónn var falskur en ekki tókst að leiðrétta hann það sem eftir var.

Í raun má segja að leiknum hafi hreinlega verið lokið í hálfleik, a.m.k. var ekki útlit fyrir annað þegar liðið gekk af velli í hálfleik 10 mörkum undir, 21:11. Það var ekkert í spilunum sem benti til þess að íslenska landsliðið myndi snúa taflinu við, því miður, enda kom það á daginn þrátt fyrir e.t.v. örlítið skárri leik.

Varnarleikurinn var í molum frá upphafi þar sem menn réðu alls ekki við þunga og stóra Tékka sem léku akkúrat eins og búist var við. Sóknarleikurinn var í molum. Tímasetningar á hlaupum í kerfum voru í ólagi og þar af leiðandi misfórust sendingar. Ekki tókst að koma hreyfingu á Tékkana, sem náðu, alveg eins og Svíar síðasta föstudag, að þvinga íslensku leikmennina í sinn leik.

Nú er spurningin sú hvort það verður Dr. Jekyll eða Mr. Hyde sem mætir til leiks fyrir Íslands hönd klukkan 16 á morgun. Ég veit satt að segja ekki á hvorn möguleikann skal veðjað.

Ísland – Tékkland 25:36

Ali Bin Hamad Al Attiya Arena, Doha, Katar, HM karla, C-riðill, fimmtudag 22. janúar 2015.

Gangur leiksins : 2:4, 4:9, 5:12, 7:15, 9:16, 11:21 , 12:22, 16:25, 19:27, 22:30, 24:32, 25:36 .

Mörk Íslands: Snorri Steinn Guðjónsson 5, Alexander Petersson 4, Arnór Þór Gunnarsson 3/2, Kári Kristján Kristjánsson 3, Róbert Gunnarsson 3, Stefán Rafn Sigurmannsson 2, Vignir Svavarsson 2, Ásgeir Örn Hallgrímsson 1, Aron Pálmarsson 1, Bjarki Már Gunnarsson 1.

Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 13/1, Aron Rafn Eðvarðsson 5.

Utan vallar: 14 mínútur.

Mörk Tékklands: Filip Jícha 11/4, Jakub Hrstka 6, Jan Sobol 4, Miroslav Jurka 3, Petr Linhart 3, Ondrej Zdráhala 2, Pavel Horák 2, Leos Petrovský 2, Roman Becvár 1, Jakub Szymanski 1, Tomás Babák 1.

Varin skot: Petr Stochl 22, Tomás Babák 1.

Utan vallar: 12 mínútur.

Dómarar : Bon-Ok Koo og Seok Lee frá Suður-Kóreu.

Áhorfendur : 500.