Guðrún Ólafsdóttir (Dúna) fæddist í Reykjavík 12. ágúst 1933. Hún andaðist á hjúkrunarheimilinu Skjóli, þar sem hún dvaldi síðustu þrjú og hálft ár, 17. janúar 2015.

Foreldrar Dúnu voru Aðalheiður Eggertsdóttir, f. 19. nóvember 1908 í Bolungarvík, d. 8. júlí 1986, og Ólafur Ingvar Guðfinnsson, bryti, f. 4. nóvember 1908 á Fossi, Húnavatnssýslu, d. 9. júlí 1993. Þegar Dúna var á fyrsta aldursári veiktist móðir hennar og var lögð inn á berklaspítalann á Vífilsstöðum til langdvalar. Dúnu var þá komið í fóstur til Kristjönu Elísabetar Kristjánsdóttur og Lárusar Halldórssonar á Gunnarshólma í Vestmannaeyjum. Elísabet fósturmóðir hennar lést 1946 og fluttist Dúna þá til Aðalheiðar móður sinnar og fósturföður, Samúels S. Jónassonar, f. 1914, d. 2012, í Kópavogi síðar Reykjavík. Fóstursonur þeirra var Viktor Bóasson, f. 1952, d. 2012.

Þann 16. maí 1957 giftist Dúna Gunnari Oddssyni rafvirkjameistara, f. 20. mars 1932. Börn þeirra eru; 1. Sif Gunnarsdóttir, f. 31. janúar 1954, búsett í Suður-Karólínu í Bandaríkjunum, gift William A. Burhans jr., öryggisstjóra, f. 1957. Börn Sifjar af fyrra hjónabandi með Hirti Aðalsteinssyni, f. 1953, eru Gunnar Örn Hjartarson, f. 1976, Anna Elísabet Hjartardóttir, f. 1982, og Ágúst Heiðar Hjartarson, f. 1984. 2. Oddur Gunnarsson, lögfræðingur, f. 8. desember 1957, giftur Guðnýju Kristínu Erlingsdóttur, viðskiptafræðingi, f. 1960. Börn þeirra eru Marta Katrín, háskólanemi, f. 1992, Margrét Dúna, menntaskólanemi, f. 1993 og fósturdóttir Odds, Ásta Axelsdóttir, viðskiptafræðingur, f. 1981, dóttir Guðnýjar af fyrra hjónabandi.

Dúna átti góðar minningar frá uppvaxtarárum sínum í Vestmannaeyjum og fósturforeldrunum, Elísabetu og Lárusi, sem hún talaði alltaf um að mikilli hlýju og væntumþykju. Hún flutti síðan um fermingaraldur til móður sinnar og Samúels S Jónassonar stjúpföður síns sem þá bjuggu í Kópavogi og síðar í Reykjavík. Dúna lauk gagnfræðanámi frá Ingimarsskóla í Reykjavík og útskrifaðist frá Húsmæðraskóla Reykjavíkur árið 1952Samhliða heimilisstörfum og barnauppeldi var Dúna lengst af útivinnandi. Hún starfaði í verslunum og síðar sem skrifstofumaður hjá Sölusambandi íslenskra fiskframleiðenda í um 14 ár. Eftir það réðst hún til starfa hjá Iðnaðarbanka, síðar Íslandsbanka. Í bankanum annaðist Dúna símvörslu í útibúi bankans í Lækjargötu 12 í um 10 ár eða þar til hún lét af störfum árið 2000. Dúna og Gunnar bjuggu lengst af á Seltjarnarnesi, til að byrja með á Melabraut 30 (nú 2) og í rúm 35 ár að Vallarbraut 5. Frá árinu 2000 bjuggu þau að Básbryggju 5 í Reykjavík.

Útför Dúnu fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 23. janúar 2015, og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku Dúna. Það eru forréttindi að hafa kynnst þér. Ég gleymi því aldrei þegar ég átti erindi í Íslandsbanka í Lækjargötu nokkrum dögum eftir að Oddur kynnti okkur 1989. Þar sem ég stend í afgreiðslusalnum á jarðhæð bankans kallar þú til mín á leiðinni niður stigann, léttfætt, há og grönn, svo glæsileg með brosið þitt fallega. Þú umvafðir mig hlýju og ástúð allt frá okkar fyrstu kynnum. Þarna starfaðir þú við símvörslu og hafðir verið tilnefnd starfsmaður ársins og fékkst margar viðurkenningar fyrir vel unnin störf og ég las verðskuldað hrós viðskiptavina í dagblöðum þar sem lipurð og falleg framkoma þín vöktu athygli viðskiptavina. Þú tókst Ástu dóttur minni, sem þá var átta ára, opnum örmum, sýndir henni ást og kærleika. Ég verð þér ævinlega þakklát fyrir það. Ásta var fljót að grípa ástúð þína og kallaði hún ykkur Gunna ömmu og afa nánast frá því hún hitti ykkur fyrst. Kynni okkar styrktust með árunum og vinskapurinn að sama skapi. Þú hjálpaðir mér skilyrðislaust, passaðir ömmustelpurnar þínar sem urðu þrjár þegar árin liðu, Ásta, Marta Katrín og Margrét Dúna. Svo fylgdu ókeypis þrif á heimilinu með enda vandfundin meiri snyrtimanneskja. Þú bakaðir púðursykurstertuna þína frægu fyrir ótal afmæli og aðrar veislur hjá okkur og allar gjafirnar og fallegu afmælis- og jólakveðjurnar sem voru svo einstaklega ljúfar og hjartnæmar.

Við tvær brölluðum ýmislegt skemmtilegt saman, fyrir utan að spjalla langtímum saman við eldhúsborðið fórum við í nokkrar helgarferðir til útlanda. Gátum svo endalaust rifjað upp og hlegið að þeim ferðum. Skemmtilegast var þó að koma í sumarbústaðinn ykkar Gunna í Eilífsdal. Þar varstu drottning í ríki þínu, sannkölluð Paradís sem þið voruð búin að skapa ykkur með dugnaði og útsjónarsemi. Þú stóðst á veröndinni sæl og útitekin með þitt fallega bros og hlýja viðmót, horfðir á okkur labba upp stíginn. Þarna stjanaðir þú við okkur, barst fram kræsingar hvort sem var inni í stofu, á sólpallinum eða í gróðurhúsinu. Þú sagðir sögur sem þú kunnir ógrynni af, þuldir vísur og hlóst þínum smitandi hlátri með okkur. Frásagnar- og kímnigáfa með endemum. Sumarbústaðurinn var þinn staður. Elsku Dúna, ég kveð þig með miklum söknuði en jafnframt með þakklæti fyrir tilvist þína og þær fallegu minningar sem þú skilur eftir í hjarta mínu, þær mun ég geyma til eilífðar.

Hvíl í fríði

Þín tengdadóttir,

Guðný Kristín.

Kveðjustundin er komin, amma mín, við erum búin að reikna með því undanfarin misseri að þetta færi að nálgast hjá þér. En ég er þess alviss að þú ert hvíldinni fegin og að þú ert nú komin á góðan stað þar sem þú hittir fyrir þá sem á undan þér hafa farið. Það verða vafalaust fagnaðarfundir þar. Ég er svo heppinn að eiga mikið af góðum minningum um yndislega tíma með þér og afa bæði heima á Vallarbrautinni og upp í bústað.

Eftir því sem ég eldist og fer að hugsa til baka um þær stundir sem við áttum saman finnst mér alveg með ólíkindum hvað þú hafðir alltaf mikla þolinmæði gagnvart mér, ég hef alveg án vafa verið talsvert fyrirferðarmikill og hávaðasamur, en ég finn ekki í hugskotum minninganna nokkra þá stund þar sem þér brást þolinmæðin. Alveg sama hvað ég sullaði oft niður eða dreifði drasli um öll gólf þá var það allt í lagi, amma kom og bjargaði málunum.

Alltaf tókst þér að tryggja það að ég átti minn stað þegar ég var hjá ykkur, og er mér sérstaklega minnistætt það að geta gengið að mínum bolla á sínum stað í sumarbústaðnum, alveg sama á hverju gekk þá var bollinn minn að bíða eftir mér. Þér var ávallt mikið í mun að halda öllu snyrtilegu og á sínum stað, samt mátti ég vera eins mikið í búðaleik með servéttur í spariskápnum og ég vildi. Ég hef nú líka aldrei kynnst nokkurri annarri ömmu sem kann að „jöggla“ með 3-4 appelsínur og jóðla á meðan.

Ég er líka búinn að læra það að það á ekki að læsa fólk inni á salerni, alveg sama hvar eða hvenær það er.

Þú kemur til með að eiga pláss í hjarta mínu það sem eftir er.

Farðu í friði, amma Dúna, megi hinn hæsti höfuðsmiður himins og jarðar gæta þín nú og um alla framtíð. Ég veit að þið afi komið til með að sakna hvort annars meira en nokkur orð fá lýst, en þú getur treyst því að við pössum upp á hann fyrir þig.

Góða ferð.

Gunnar Örn Hjartarson.

Margt kemur í hug á svona stund, allra helst hvað þú varst alltaf góð við okkur og alla sem þekktu þig. Það eru nú ófáar minningarnar úr bústaðarferðum eða bara heima hjá ykkur afa á Vallarbrautinni. Ein saga stendur samt mest upp úr fyrir mig og Gústa, við vorum úti á róló og þar voru einhverjir stórir strákar sem voru að reyna að stela namminu okkar. Við vorum mjög hrædd og sár, við komum grátandi til þín og þú varst svo reið, við fórum og þú lést þessa pörupilta vita að svona kæmi maður ekki fram við litla krakka. Okkur fannst þú svo mikil hetja og bjargvætturinn okkar, takk, elsku amma, fyrir að vera alltaf til staðar fyrir okkur.

En nú ert þú farin, yndislega Amma, en komin í hugarró. Hvíldu í friði.

Með kveðju,

Anna og Ágúst.

Ég man enn daginn sem ég hitti ömmu Dúnu í fyrsta skipti. Ég var á áttunda aldursári og amma og afi komu í heimsókn. Ég held að mamma mín hafi líka verið að hitta þau í fyrsta skiptið, en í minningunni roðnaði hún og sökk dálítið ofan í sófann þegar ég tilkynnti ömmu að súkkulaðið sem henni var boðið upp á væri útrunnið. Amma skellihló bara og sagði að ég væri frábær. Svo var ég orðin barnabarnið hennar og afa. Reglulega eftir þetta var súkkulaðisagan rifjuð upp og alltaf hló hún amma jafn mikið.

Fljótlega fór ég svo að heimsækja ömmu og afa í sumarbústaðinn þeirra og voru þau ekki lengi að planta niður tré í mínu nafni við bústaðinn eins og þau gerðu fyrir öll sín barnabörn. Þetta var ekkert flókið í þeirra huga, ég var orðin barnabarnið þeirra og aldrei fann ég fyrir neinum greinarmun hvað það varðaði.

Sumarið sem ég varð tólf ára seldi ég DV í miðbæ Reykjavíkur. Þar sem ég var yngst og nýjust í hópnum hafði ég ekkert horn til þess að standa á eða fastakúnna. Ég flæktist því bara um miðbæinn og reyndi að selja blaðið. Það brást ekki að um hádegisbil var hún amma mín mætt til að kaupa af mér blaðið. Alveg sama hvernig viðraði þá fór hún út í göngutúr hádegishléinu sínu til að leita að mér.

Amma starfaði við símsvörun hjá Íslandsbanka og heimsótti ég hana stundum í vinnuna sem unglingur. Það var gaman að sjá hversu góð hún var í starfi sínu og hvað hún var vel liðin af öllum í kring um sig. Einnig var hún reglulega heiðruð innan fyrirtækisins og í tvígang gerðist það að ókunnugt fólk tók sér tíma til að skrifa grein í blöðin um það hversu frábær hún væri. Amma fór alltaf hjá sér við svona hrós en við hin vorum afskaplega montin af henni .

Þegar amma hélt matarboð þá borðaði hún aldrei með gestunum heldur var hún alltaf upptekin við að passa upp á að allir hefðu nóg af öllu og væru ánægðir. Maturinn var alltaf mjög góður en ef einhver hrósaði henni þá sagði hún oftast bara ákveðið „nei“ og hélt svo áfram að dekra við mannskapinn. Til dæmis var hún farin að sigta súpuna ofan í diskana fyrir okkur barnabörnin svo að við þyrftum ekki að borða sveppina eða aspasinn og það þótti okkur góð þjónusta.

Amma Dúna var alltaf svo góð og ánægð með allt sem ég tók mér fyrir hendur. Ég minnist hennar sem yndislegrar konu sem ég var heppin að fá að kynnast og hafa í lífi mínu.

Hvíl í friði, elsku amma mín.

Ásta Axelsdóttir.

Elsku amma, fyrir stuttu síðan sagðirðu við okkur að þegar að kveðjustund kæmi þá skyldum við muna að það væri ekki slæmt, það var huggun að vita að þú værir undir ferðina búin á góðan og betri stað.

Nú þurfum við að kveðja þig og verður að segjast að þessi orð fá á einhvern hátt aðra merkingu og erfitt að trúa því að við séum að skrifa þessa grein.

Elsku amma, við verðum ætið þakklátar fyrir allt sem þú hefur gert fyrir okkur.

Ótalmargar helgarferðir með þér og afa upp í bústað þar sem við fórum í ævintýraferðir upp í fjall eða niður við lækinn, við systurnar sátum kannski á stóra steininum sem við kölluðum Hestinn og heyrðum þig kalla okkur í mat úr fjarska „Júhúú!“. Þú passaðir alltaf uppá að okkur liði vel og hélst uppi hlátrasköllunum með skemmtiatriðum og fíflalátum.

Minningarnar eru lýstar upp af gleði og einkennast af ást og umhyggju, að hugsa til þín vekur hjartayl og ekki annað hægt en að brosa í gegnum tárin.

Elsku amma, þú verður alltaf okkar stærsta fyrirmynd og við kveðjum þig með söknuði í hjarta.

Marta og Dúna.