[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
BAKSVIÐ Stefán E. Stefánsson ses@mbl.

BAKSVIÐ

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Þær breytingar sem gerðar voru á framkvæmdahópi um afnám gjaldeyrishafta og tilkynnt var um í fyrradag, benda til þess að vægi í mönnun nefndarinnar hafi verið jafnað á milli fjármálaráðherra, forsætisráðherra og Seðlabankans. Nú hafa tekið sæti í hópnum tveir fulltrúar Seðlabankans, þau Ingibjörg Guðbjartsdóttir og Jón Þ. Sigurgeirsson, sem jafnframt eru starfsmenn bankans, en Freyr Hermannsson sem einnig starfar hjá Seðlabankanum og sat í hópnum án tilnefningar frá yfirstjórn hans, hefur vikið sæti. Bankinn hefur með þessu í fyrsta sinn formlega aðkomu að skipun í hópinn. Jafnframt bætist í hópinn einn af helstu ráðgjöfum forsætisráðherra, eins og áður hefur komið fram í Morgunblaðinu.

Fram kemur í tilkynningu á vef fjármálaráðuneytisins að framkvæmdahópurinn hafi nú það hlutverk að rýna fyrirliggjandi tillögur um „breytingar á áætlun um losun hafta“ og „koma þeirri stefnu sem mótuð verður í framkvæmd“.

Glen Kim mun eftir sem áður leiða framkvæmdahópinn en athygli vekur að eftir hrókeringarnar eru varaformenn tveir, annars vegar Benedikt Gíslason og hins vegar Sigurður Hannesson, en fram kemur í tilkynningunni að sá síðarnefndi er skipaður tímabundið í verkefnið. Sigurður er sem kunnugt er náinn vinur og ráðgjafi forsætisráðherra, auk þess sem Eiríkur Svavarsson, sem áfram situr í hópnum, hefur tengsl við forsætisráðherra í gegnum InDefence hópinn.

Benedikt kom hins vegar til starfa í Stjórnarráðið sem aðstoðarmaður fjármálaráðherra, auk þess sem ráðning Glen Kim var að frumkvæði fjármálaráðherra, samkvæmt heimildum blaðsins.

Langt ferli

Allt frá því að fjármagnshöft voru sett á í árslok 2008 hefur það verið yfirlýst markmið stjórnvalda að nema þau sem fyrst úr gildi að nýju. Árið 2013 var starfandi vinnuhópur íslenska ríkisins, Seðlabanka Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem vann að því markmiði. Þeirri vinnu lauk samhliða því hléi sem gert var á aðildarviðræðum Íslands og ESB. Í kjölfarið var ráðgjafarhópur um afnám hafta skipaður sem leiddur var af Sigurbirni Þorkelssyni, fyrrum framkvæmdastjóra hjá Barclays Capital. Sá hópur lagði fram tillögur um ýmsar leiðir við afnám fjármagnshafta sem núverandi framkvæmdahópur tók við og hefur nú unnið tillögur úr, eins og vísað er til í tilkynningu fjármálaráðuneytisins. Í kjölfar mannabreytinganna nú mun því vera komið að því að rýna þær tillögur og hrinda þeim í framkvæmd. Fjármálaráðherra vildi ekkert tjá sig um breytingarnar í framkvæmdahópnum þegar eftir því var leitað.
Leynileg áætlun
» Framkvæmdahópnum er ætlað að fara yfir breytingatillögur við áætlun um afnám hafta.
» Í hópnum sitja Glen Kim, formaður, varaformennirnir Benedikt Gíslason og Sigurður Hannesson og meðstjórnendurnir Eiríkur S. Svavarsson, Ingibjörg Guðbjartsdóttir og Jón Þ. Sigurgeirsson.