Kjör Formenn 16 aðildarfélaga SGS á fundi samninganefndar í Karphúsinu í gær. Björn Snæbjörnsson, formaður SGS, er við enda fundarborðsins.
Kjör Formenn 16 aðildarfélaga SGS á fundi samninganefndar í Karphúsinu í gær. Björn Snæbjörnsson, formaður SGS, er við enda fundarborðsins. — Morgunblaðið/Eggert
Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands kom saman til fundar í Karphúsinu í gær til að ganga frá kröfugerð í komandi kjaraviðræðum.

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands kom saman til fundar í Karphúsinu í gær til að ganga frá kröfugerð í komandi kjaraviðræðum.

Björn Snæbjörnsson, formaður SGS, sagði við Morgunblaðið að afloknum fundi að kröfugerðin yrði ekki kynnt opinberlega fyrr en eftir fund með samninganefnd Samtaka atvinnulífsins næstkomandi mánudag.

„Þetta var mjög góður fundur og með þeim betri sem hafa verið í samninganefnd Starfsgreinasambandsins. Samstaðan og samheldnin var mikil og góð. Fundurinn gefur góðan tón fyrir það sem væntanlegt er í vetur. Við göngum bjartsýn til leiks um að gengið verði að okkar kröfum en erum jafnframt tilbúin í átök,“ segir Björn.

Formenn 16 aðildarfélaga SGS sitja í samninganefnd en þrjú félög til viðbótar, Flóabandalagið svonefnda, ganga frá sinni kröfugerð seinna í mánuðinum.

Skynjum hvað okkar fólk vill

Í Morgunblaðinu í gær sagði Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, það tímabært að forysta verkalýðshreyfingarinnar yrði ábyrgari í yfirlýsingum sínum. Sagði Þorsteinn enga innistæðu vera fyrir tuga prósenta launahækkunum á vinnumarkaðnum.

Um þessi ummæli Þorsteins segir Björn Snæbjörnsson: „Við skynjum vel hvað okkar fólk segir og hugsar. Við hlustum á okkar fólk og vitum hvað það vill. Því finnst hreinlega að það sé verið að halda láglaunafólki niðri á meðan aðrir fá að leika sér eins og þeir vilja. Samtök atvinnulífsins spila þar stóra rullu.“

Eins og fram kom í Morgunblaðinu á miðvikudag er þungt hljóð í forystu verkalýðshreyfingarinnar.

Áhersla er lögð á að hækka lægstu launin og miða lágmarkslaun við 300 þúsund krónur, sem er talið formlegt framfærsluviðmið. Krafa er uppi um að hækka skattleysismörkin samkvæmt heimildum blaðsins og leggja áherslu á krónutöluhækkanir.