Neyðarflugbrautin 06/24 Deilt er um hve mikilvæg flugbrautin, sem fyrirhugað er að loka, er fyrir flugöryggið.
Neyðarflugbrautin 06/24 Deilt er um hve mikilvæg flugbrautin, sem fyrirhugað er að loka, er fyrir flugöryggið. — Morgunblaðið/RAX
Guðni Einarsson gudni@mbl.is „Það gerist áleitin sú spurning hvort sé mikilvægara í flugvallarmálinu að fá „rétta“ niðurstöðu eða faglega,“ sagði Sigurður Ingi Jónsson.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

„Það gerist áleitin sú spurning hvort sé mikilvægara í flugvallarmálinu að fá „rétta“ niðurstöðu eða faglega,“ sagði Sigurður Ingi Jónsson. Hann var fulltrúi Fluggarða í vinnuhópi um áhættumat vegna fyrirhugaðrar lokunar á flugbraut 06/24, svonefndri neyðarbraut, á Reykjavíkurflugvelli. Sigurður Ingi sagði að í hópnum hefðu verið flugöryggisfulltrúar flugrekstraraðila, allt flugmenn með langa reynslu af áætlunar- og sjúkraflugi. Vinnuhópurinn var leystur upp án þess að hann kæmist að formlegri niðurstöðu.

Isavia sendi frá sér yfirlýsingu sem greint var frá í Morgunblaðinu í gær. Þar kom fram að lokun brautar 06/24 myndi hafa óveruleg áhrif. Drög að niðurstöðu áhættumats Isavia hafa verið send Samgöngustofu til umfjöllunar.

Sigurður Ingi sagði að verkfræðistofan EFLA, sem samdi tvær skýrslur fyrir Isavia, byggði niðurstöðu sína um 97% nothæfisstuðul án neyðarbrautarinnar á útreikningum á aðeins einu gildi; hámarksmeðalhliðarvindsstuðli 13 hnúta sem gæfi hæsta mögulegan nothæfisstuðul. „Sleppt er að fjalla um skort á niðurstöðum útreikninga allra þeirra gilda sem áhrif hafa á niðurstöður og ber að nota samkvæmt reglugerð um flugvelli og alþjóðasáttmála,“ sagði Sigurður Ingi. „Þar eru tiltekin gildi eins og skyggni, skýjahæð, ókyrrð, vindhviður, ástand brauta, breidd brauta og fleira sem allt lækkar nothæfisstuðul við þær aðstæður sem skapast á Reykjavíkurflugvelli.“

Hann sagði að 13 hnúta hliðarvindsstuðullinn ætti við farþegaflugvélar eins og Fokker F-50 og Dash 8 en ekki sjúkraflugvélarnar sem notaðar eru hér á landi. Fyrir sjúkraflugvélarnar ætti að reikna með 10 hnúta hliðarvindsstuðli, sem lækkaði nothæfisstuðulinn verulega. Sigurður Ingi sagði að fullyrða mætti að miðað við 10 hnúta hliðarvindsstuðul færi nothæfisstuðull Reykjavíkurflugvallar, án flugbrautar 06/24, niður fyrir 95%. Engu að síður væri hinni villandi 97% niðurstöðu haldið einni á lofti.

Þá gagnrýndi Sigurður Ingi notkun hugtaksins „nothæfistími“ sem væri óskilgreint og því merkingarlaust gagnvart flugöryggi. „Reiknaðar niðurstöður í skýrslu um „nothæfistíma“ hafa því ekkert vægi gagnvart flugöryggi, nema ef vera kynni til að veita falskt öryggi gagnvart ákvörðun um að loka flugbraut 06/24,“ sagði Sigurður Ingi.