Berndsen Davíð er að vinna að sinni þriðju plötu.
Berndsen Davíð er að vinna að sinni þriðju plötu. — Morgunblaðið/Ernir
Davíð Berndsen er þessa stundina að vinna að sinni þriðju plötu undir nafninu Berndsen og stefnt er á að hún komi út í haust. Svo er Davíð á leið til Dúbaí og einnig Þýskalands í mars til halda tónleika.

Davíð Berndsen er þessa stundina að vinna að sinni þriðju plötu undir nafninu Berndsen og stefnt er á að hún komi út í haust. Svo er Davíð á leið til Dúbaí og einnig Þýskalands í mars til halda tónleika. „Þetta verður spennandi, ég hef aldrei spilað í Dúbaí áður en ástæðan fyrir því að við erum að fara að spila þar er að menn þaðan sáu okkur spila á Airwaves og buðu okkur að halda tónleika í Dubaí. Svo er ég með útvarpsþætti á Alvarpinu, sem er hlaðvarpsstöð á netinu. Þeir heita Júpíter og í þáttunum spjalla ég við tónlistarfólk og er að vinna að mínum þriðja þætti. Akkúrat núna er ég síðan að undirbúa stóra afmælisveislu sem verður haldin heima í kvöld.“

Davíð lauk prófum frá hljóðtækniskóla í Hollandi og er núna í leiðsögunámi í Endurmenntun HÍ en hann byrjaði í því í haust. „Áhugamálin núna eru því menning og saga Íslands og ferðalög. Svo hef ég líka mjög gaman af að elda. Við mamma ætlum að elda eitthvað saman fyrir veisluna í kvöld.“ Foreldrar Davíðs eru Eydís Mikaelsdóttir og Ellert Friðrik Berndsen, sambýliskona Davíðs er Guðrún Harðardóttir arkitekt en dóttir þeirra er Högna Davíðsdóttir, sem er rúmlega eins og hálfs árs.