Blótsnefnd Tveir nefndarmenn allsherjarnefndar Þorrablóts Súgfirðinga og konur þeirra. F.v. Magnús S. Jónsson, Ágústa Gísladóttir, Sigrún Sigurgeirsdóttir og Guðni Einarsson. Þau eru þarna á erlendum vettvangi.
Blótsnefnd Tveir nefndarmenn allsherjarnefndar Þorrablóts Súgfirðinga og konur þeirra. F.v. Magnús S. Jónsson, Ágústa Gísladóttir, Sigrún Sigurgeirsdóttir og Guðni Einarsson. Þau eru þarna á erlendum vettvangi.
Í heila átta áratugi hafa pilsin kvenna sveiflast og svitinn perlað niður vanga karlanna þegar dansinn hefur verið stiginn af miklum móð, ýmist á góugleði eða þorrablótum í Félagsheimili Súgfirðinga.

Í heila átta áratugi hafa pilsin kvenna sveiflast og svitinn perlað niður vanga karlanna þegar dansinn hefur verið stiginn af miklum móð, ýmist á góugleði eða þorrablótum í Félagsheimili Súgfirðinga. Magnús Sigurður Jónsson er formaður allsherjarnefndar þorrablótsnefndar Súgfirðinga en Guðni Albert Einarsson á einnig sæti í nefndinni.

Það var árið 1936 sem konur í Súgandafirði buðu körlum sínum til þorrablóts og mættu gestir með mat sinn í trogum,“ segja þeir Guðni Albert Einarsson og Magnús Sigurður Jónsson sem báðir sæti eiga í allsherjarnefnd þorrablótsnefndar karla á Suðureyri við Súgandafjörð.

„Árið eftir þökkuðu karlarnir fyrir sig með því að efna til Góublóts. Hefur sá siður haldist síðan að kynin hafa skipst á á bjóða til blóts sitt hvort árið, konur á þorra en karlar á góu. Nú er því fertugasta ár góublóts og er þetta jafnframt áttugasta blótið sem haldið er.“

En skyldi vera skipað hátíðlega í nefndir til þess að sjá um þessar skemmtanir Súgfirðinga?

„Já, hjá körlum er skipuð allsherjarnefnd sem skipar síðan í húsnefnd, skemmtinefnd og ræðunefnd. Það er heilmikið af nefndum í kringum þessar skemmtanir, bæði þorrablótið og góublótið, enda margt sem gera þarf til þess að svona blót verði haldið af þeim myndarskap sem Súgfirðingar vilja viðhafa á þessum skemmtunum sínum.“

Hvar er þorramaturinn fenginn?

„Þorramat sinn koma gestir með í trogum eins og í upphafi og venjulega er í þessum trogum algengur þorramatur, svo sem hangikjöt, súrsað slátur, blóðmör og lifrarpylsa, súrsaðir bringukollar, harðfiskur og fleira góðgæti.“

„Hvað sækja þessar skemmtanir venjulega margt fólk?

„Algengt er að gestir séu á bilinu hundrað og fimmtíu til hundrað og áttatíu manns. Allir koma í sparifötunum, sínum bestu klæðum. Þetta er skemmtun fyrir hjón og sambýlisfólk og geta pörin boðið með sér börnum sínum sem orðin eru eldri en átján ára, og bjóða má á blótin einstaklingum sem orðnir eru tuttugu og fimm ára.

Heimatilbúin skemmtiatriði

„Er undirbúningur þorrablótanna og góublótanna með svipuðu sniði?

„Já, hann er, má segja, mjög líkur enda eru blótin afskaplega svipaðar skemmtanir í reynd. Þau hefjast jafnan klukkan nítján og standa að jafnaði til klukkan þrjú að nóttu. Bæði blótin eru haldin í Félagsheimili Súgfirðinga.“

Og hvað er nú sér til gamans gert?

„Það er margt og mikið. Skemmtiatriði eru gjarnan heimatilbúin. Á góublótunum eru eingöngu skemmtiatriði sem karlar semja og flytja. En á þorrablótunum eru það konurnar sem eiga leikinn og eru í öllum hlutverkum skemmtiatriðanna. Stundum eru fluttar heilu revíurnar. Einnig sungin gamankvæði og auðvitað eru svo sungin minni kvenna á góublótum og karla á þorrablótum. Ekki fer umhverfið varhluta af söngnum því líka eru sungin minni Súgandafjarðar og Íslands alls á öllum blótum.“

Hvað með tónlistina?

„Fengnar eru hljómsveitir á svæðinu á hvert og eitt blót og auðvitað hafa margir tónlistarmenn komið og leikið fyrir dansi á þessum 79 blótum sem þegar hafa verið haldin. Allskonar tónlist er leikin og dansað af hjartans lyst eftir að hafa borðað fylli sína og notið skemmtiatriðanna. Í ár er það góublót sem stendur fyrir dyrum og er þegar hafinn undirbúingur að þeirri skemmtun. Þar verður ábyggilega margt og mikið sem hægt er að hlæja að og skemmta.“

gudrunsg@gmail.com