Mannamót Þar sem Átthagafélag Sléttuhrepps kemur saman, þar er gaman. Borð svigna undan þorrakrásum í félagsheimilinu í Hnífsdal og margt gert sér til gamans.
Mannamót Þar sem Átthagafélag Sléttuhrepps kemur saman, þar er gaman. Borð svigna undan þorrakrásum í félagsheimilinu í Hnífsdal og margt gert sér til gamans.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þorrablót Átthagafélags Sléttuhrepps á Ísafirði verður haldið 14. febrúar í Félagsheimilinu í Hnífsdal. Formaður umrædds félags er Andrea Harðardóttir, sagnfræðingur og kennari við Menntaskólann á Ísafirði.

Ég búin að vera formaður Átthagafélags Sléttuhrepps í tíu ár og hef átt heima á Ísafirði í tuttugu ár, allan þann tíma hefur þorrablót þessa félags verið haldið í Félagsheimilinu í Hnífsdal en á árum áður var þorrablótið haldið á ýmsum stöðum í bænum,“ segir Andrea Harðardóttir, formaður og kennari.

Hvað er nú helst á dagskrá á svona þorrablótum? „Dagskráin er mjög hefðbundin hjá okkur. Það er söngur, heimatilbúin skemmtiatriði, happdrætti og svo náttúrlega dans.“

Skemmtiatriðin eru leyndarmál

Er mikið mál að finna skemmtiatriði?

„Nei, við höfum þann háttinn á hérna á Ísafirði að við erum með sjö nefndir sem skipt er út á sjö ára fresti. Ef einhver dettur úr nefnd vegna andláts eða brottflutnings er fenginn nýr aðili úr félaginu en kjarninn er ansi lífseigur. Hver nefnd ber ábyrgð á sínum þætti í blótinu. Ég er í þorrablótsnefnd núna og við sjáum um að finna skemmtiatriði og hljómsveit og halda utan um blótið í ár. Hver og einn félagi í Átthagafélagi Sléttuhrepps á Ísafirði kemur með sinn mat, við köllum það „að vera saman í trogi“, þá sameinast viss hópur um hvert trog. Oft er þetta bundið við fjölskyldur.“

Máttu nokkuð segja um skemmtiatriðin?

„Nei, það er ekki sagt frá þeim fyrirfram en undanfarin ár hafa menn verið að taka fyrir eitthvað sem hefur komið upp á í Sléttuhreppi yfir sumarið. Þar gerist margt á sumrin og fær umfjöllun á blótunum. Oft er þetta mjög staðbundið grín. Kannski finnst heimamönnum þetta afskaplega fyndið en aðkomufólk skilur ekki neitt í neinu.“

Hvaða hljómsveitir fáið þið yfirleitt?

„Við skiptum við hljómsveitir frá Ísafirði, Bolungarvík og víðar úr nágrenninu. Við leggjum mikið upp úr að spiluð séu lög við gömlu dansanna og svo verður að taka „kokkinn“. Þegar líður á kvöldið fer það eftir hljómsveitinni hvernig lögin raðast saman. En reynt er að hafa tónlist sem fjölbreyttasta svo allir aldurshópar geti verið með.“

Er nokkuð slegist á þorrablótunum hjá ykkur?

„Nei, það er frekar faðmaðst, þetta er yfirleitt bara gleði, fólk er ánægt að hittast og hlakkar til þess allt árið, þótt þetta sé allt svipað ár eftir ár,“ segir Andrea og hlær.

Merkilegasta sveit landsins

Ert þú sjálf úr Sléttuhreppi?

„Já, ég er frá Hornvík. Mamma mín var fædd þar og uppalin, ein af níu börnum Stígs Haraldssonar og Jónu Jóhannesdóttur í Hornvík. Mamma hét Sigrún og við erum þrjár systurnar, tvær búsettar á Ísafirði og ein í Garðabæ. Sú í Garðabæ fer stundum á þorrablót Átthagafélags Sléttuhrepps í Reykjavík, sem hafa verið ágætlega sótt undanfarin ár.“

Hvað er svona merkilegt við Sléttuhrepp?

„Okkur sem erum frá Sléttuhreppi, sem tilheyrir Hornströndum, finnst þessi sveit okkar sú merkilegasta á landinu. Við eigum mikil tilfinningatengsl við þessa sveit, sem nú er komin í eyði að vetrarlagi en á sumrin eru afkomendur brottfluttra Slétthreppinga gjarnan í húsum sem fjölskyldur þeirra eiga og áður var búið í allt árið. Það myndast þarna sérstakt samfélag yfir sumartímann og þar er komin uppsprettan að gríninu á þorrablótinu hér og þetta viðheldur tengslunum milli þessa fólks sem á ættir hingað að rekja.“

Varst þú í Hornvík sem barn?

„Nei, fólkið mitt flutti úr Hornvíkinni 1946 en við eigum húsið sem afi minn byggði á millistríðsárunum og við skiptumst á um að dvelja þarna, afkomendur hinna níu barna Stígs og Jónu. Það er mjög gaman að vera þarna á sumrin, algjör draumastaður. En ég myndi ekki vilja vera þarna að vetrarlagi.“

Ert þú alin upp á Ísafirði?

„Nei, ég er borin og barnfæddur Kópavogsbúi en ég á mikið af ættingjum á Ísafirði og mig langaði að prófa að eiga heima hér, ekki bara vera hér sem gestur. Ég ætlaði upphaflega að vera hér einn vetur en þeir eru nú orðnir tuttugu. Ég fór upphaflega til að kenna í grunnskólanum og kenndi þar í nokkur ár en er nú komin yfir í menntaskólann, þar hef ég kennt sögu og félagsfræði frá 1995.“

Ekki er spurt um ætternið

Er mikið mál að undirbúa eitt þorrablót?

„Við byrjum yfirleitt rétt eftir áramót að vinna við undirbúninginn hver nefnd. En þetta er í föstum skorðum. Mesta vinnan fer fram síðustu tvær vikur fyrir blótið, þá er verið að semja og æfa skemmtiatriðin. Hinum praktísku atriðum skiptum við á milli okkar og þá er ekki svo mikið sem hver og einn verður að gera.“

Fær enginn sem ekki er úr Sléttuhreppi að vera með ykkur á þorrablótinu?

„Jú, mikil ósköp. Það er ekki spurt um uppruna og ætterni á þessu þorrablóti, ef fólk vill koma og vera með okkur þá fær það að koma og við komum fram við það eins og aðra. Ef fólk er sem sagt til í að koma og dansa og syngja þá er þetta í fína lagi.“

Er dýrt að halda svona blót?

„Já, það er alltaf einhver kostnaður við þetta. En okkur hefur tekist að halda okkur fyrir ofan núllið hingað til. Ekki er þó hægt að segja að ágóðinn sé mikill. Markmiðið er að blótið standi undir sér og það tekst yfirleitt.“

Áttu von á mörgum gestum á blótið núna?

„Við rennum dálítið blint í sjóinn núna. Við fáum oftast einhverja gesti að sunnan en venjulega höfum við verið frá hundrað og þrjátíu til hundrað og áttatíu sem blótum saman þorra í Félagsheimilinu í Hnífsdal. Þorrablótin hér á Ísafirði eru yfirleitt haldin í þessu húsi og það er meðfram hugsað sem stuðningur við Björgunarsveitina í Hnífsdal, þeir sjá um dyragæslu og öryggisgæslu á þorrablótunum, þetta er þeirra hús.“ gudrunsg@gmail.com