Leita þarf ráða til að neysla leiði ekki til að ungmenni flosni upp úr námi

Vímuefnaneysla hefur farið minnkandi meðal unglinga á Íslandi ef marka má kannanir og er það vel. Vandinn er þó því miður ekki úr sögunni og á mbl.is var í gær haft eftir Þórði Kristjánssyni, skólastjóra í Seljaskóla, að komið hefðu upp tilfelli þar sem nemendur hefðu reykt kannabis á skólatíma. Hann bætir við að í slíkum tilfellum sé nemendum vísað úr skóla og þá sé ekkert úrræði til að taka við þeim.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu á fundi skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur á miðvikudag fram tillögu um að koma á sérúrræði fyrir grunnskólanema með áfengis- og vímuefnavanda. Mun tillagan vera að undirlagi skólastjóra í Árbæ og Breiðholti.

Það getur verið afdrifaríkt fyrir ungt fólk að misstíga sig og því þarf samstöðu um að tryggja að fyrir hendi séu úrræði, sem komi í veg fyrir að það flosni upp úr námi.