Hæstiréttur Íslands Staðfestur var sex ára dómur yfir manninum.
Hæstiréttur Íslands Staðfestur var sex ára dómur yfir manninum. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Viðar Guðjónsson vidar@mbl.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Hæstiréttur staðfesti í gær sex ára fangelsisdóm yfir karlmanni fæddum 1981 sem dæmdur var í héraðsdómi fyrir frelsissviptingu, hótanir, líkamsárás og nauðgun á barnsmóður og fyrrverandi unnustu sinni auk brots gegn valdstjórninni aðfaranótt og framundir morgun jóladags 2013.

Í dómnum kemur fram að maðurinn hafi haldið konunni nauðugri í íbúð sinni í fimm klukkustundir áður en henni tókst að flýja til nágranna. Á þeim tíma hafi hann kýlt hana í síðuna, hendur, andlit og hnakka og á sama tíma hótað að berja hana til dauða. Þá hafi hann notað hníf og rispað konuna. Meðal annars beitti hann konuna ofbeldi fyrir framan barn þeirra.

Þá var hann sakfelldur fyrir að nauðga konunni og þvinga hana til samræðis og annarra kynferðismaka meðan á frelsissviptingunni stóð. Í dómi héraðsdóms er tekið fram að atlagan hafi verið sérlega hrottafengin. Í dómi hæstaréttar segir að við ákvörðun sé ákærða til refsiþyngingar að nauðgunarbrot hans var framið á sérstaklega meiðandi hátt.

Loks var hann sakfelldur fyrir að hóta lögreglumanni sem var á vettvangi við skyldustörf og að beita hnífi gegn lögreglu er hún reyndi inngöngu í íbúðina. Auk fangelsisdómsins er manninum gert að greiða konunni 3,5 milljónir króna í skaðabætur og dóttur þeirra 800 þúsund krónur. Þá var honum gert að greiða áfrýjunarkostnað upp á rúmar 809 þúsund krónur.