Biskup og munkar Pétur Bürcher Reykjavíkurbiskup ásamt Benediktsmunkunum frá Frakklandi.
Biskup og munkar Pétur Bürcher Reykjavíkurbiskup ásamt Benediktsmunkunum frá Frakklandi. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Ábóti og tveir munkar úr St. Wandrille-klaustri Benediktsreglunnar nálægt Rúðuborg í Frakklandi eru staddir hér á landi. Erindi þeirra er m.a. að kanna aðstæður á Úlfljótsvatni með klausturhald í huga.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Ábóti og tveir munkar úr St. Wandrille-klaustri Benediktsreglunnar nálægt Rúðuborg í Frakklandi eru staddir hér á landi. Erindi þeirra er m.a. að kanna aðstæður á Úlfljótsvatni með klausturhald í huga. Munkarnir og prestar kaþólskra hér á landi sungu messu í kirkjunni á Úlfljótsvatni í gær. Endanleg ákvörðun um klausturhald og hvenær það hefst verður tekin síðar. Reiknað er með að þrjá til fimm munka þurfi til að hefja klausturhaldið.

Benediktsmunkar fást gjarnan við búrekstur og jarðrækt auk bænagjörðar. Til greina kemur að munkarnir í klaustrinu á Úlfljótsvatni muni starfa við skógrækt á staðnum, en jörðin er sem kunnugt er í eigu Skógræktarfélags Íslands og Skátahreyfingarinnar.

Kaþólskir eru nú um 3,5% þjóðarinnar og telja um 13.000 manns. Fjöldi þeirra hefur þrefaldast á síðasta áratug. Margt hefur áunnist í tíð Péturs Bürchers, biskups í Reykjavíkurbiskupsdæmi, sem lætur senn af embætti af heilsufarsástæðum. Hann afhenti Frans páfa lausnarbeiðni sína fyrir nokkrum mánuðum. Gerð er grein fyrir helstu störfum og verkefnum Bürchers biskups á árunum 2007-2015 í Kaþólska kirkjublaðinu. Þar kemur m.a. fram að hann hafi lagt áherslu á að fjölga prestum og eru þeir nú 18 talsins. Þeir ásamt 31 nunnu úr alþjóðlegum trúarreglum þjóna söfnuði kaþólskra hér á landi.

Þá hefur Bürcher biskup staðið fyrir framförum á sviði menntunar, trúfræðslu og helgisiða innan kirkjunnar, m.a. með útgáfu bóka. Einnig hefur hann unnið að því að styrkja fjárhag og innviði biskupsdæmisins. Í biskupstíð sinni hefur hann keypt, helgað og blessað þrjár nýjar kirkjur og tvær nýjar kapellur. Þær eru kirkja Heilags Jóhannesar Páls II á Ásbrú á Keflavíkurflugvelli, Corpus Christi-kirkjan á Egilsstöðum, Kirkja Heilagrar fjölskyldu Jesú, Maríu og Jósefs á Höfn í Hornafirði, lítil kapella í biskupshúsinu í Landakoti og húskapella hjá Systrum Móður Theresu frá Kalkútta. Kaþólskir eiga nú alls 18 guðshús víða um land.

Talin er brýn þörf á að byggja tvær nýjar kirkjur og er stefnt að því að byggja kirkjur á Selfossi og Reyðarfirði. Einnig þarf að stækka Maríukirkju í Breiðholti og eins Péturskirkju á Akureyri.

Unnið er að því að koma á fót Miðstöð fyrir menntun og námskeið í Stykkishólmi. Hún verður í húsnæði við spítalann þar sem áður var rekinn leikskóli.

Stærsta klausturreglan

Benediktsreglan er stærsta klausturreglan í kaþólskum sið. Hún er kennd við Benedikt frá Núrsíu sem stofnaði regluna á 6. öld e. Kr. á Ítalíu. Benediktsklaustur geta ýmist verið munka- eða nunnuklaustur. Ellefu klaustur voru stofnuð hér í kaþólskum sið. Á meðal þeirra voru Benediktsklaustrin Þingeyraklaustur, Munkaþverárklaustur og Hítardalsklaustur. Viðeyjarklaustur var mikilvægt menntasetur en þar starfaði lengstum Ágústínusarregla en einnig Benediktsreglan um stutt skeið og tók þá Ágústínusarreglan aftur við klaustrinu. Eins tilheyrðu nunnuklaustrin á Kirkjubæ og Reynistað Benediktsreglunni.