Guðni Einarsson gudni@mbl.is Kaþólska kirkjan hyggur á byggingu tveggja nýrra kirkna, það er á Selfossi og Reyðarfirði. Einnig þarf að stækka Maríukirkjuna í Breiðholti og Péturskirkjuna á Akureyri.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Kaþólska kirkjan hyggur á byggingu tveggja nýrra kirkna, það er á Selfossi og Reyðarfirði. Einnig þarf að stækka Maríukirkjuna í Breiðholti og Péturskirkjuna á Akureyri. Kaþólski söfnuðurinn á Íslandi hefur þrefaldast á síðustu tíu árum. Áætlað er að kaþólskir á Íslandi séu nú um 13.000 talsins eða um 3,5% heildarmannfjöldans. Átján prestar og 31 nunna þjóna söfnuðinum, að sögn Kaþólska kirkjublaðsins.

Pétur Bürcher Reykjavíkurbiskup hefur keypt, helgað og blessað þrjár nýjar kirkjur og tvær nýjar kapellur á sjö árum. Guðshús kaþólskra eru alls 18 víða um land. Kirkjan hefur einnig keypt nokkrar fasteignir og landspildur með stuðningi velunnara í Þýskalandi og Sviss. Unnið er að því að koma á fót Miðstöð fyrir menntun og námskeið í Stykkishólmi.

Benediktsmunkar frá Frakklandi eru hér á landi í þeim tilgangi að kanna með stofnun klausturs á Úlfljótsvatni. Munkarnir messuðu ásamt prestum og biskupi á Úlfljótsvatni í gær. Endanleg ákvörðun um stofnun klaustursins verður tekin síðar.

Benediktsreglan er stærsta klausturreglan í kaþólskum sið. Verði af stofnun klausturs á Úlfljótsvatni verður það þriðja kaþólska klaustrið hér á landi. Fyrir eru Karmelklaustrið í Hafnarfirði, sem er nunnuklaustur, og Kapúsínaklaustrið á Reyðarfirði, sem er munkaklaustur.