Einar S. Hálfdánarson
Einar S. Hálfdánarson
Eftir Einar S. Hálfdánarson: "Þessa dagana er RÚV í boði okkar sjálfstæðismanna og trúboðið er sem aldrei fyrr."

Ungur piltur var með fyrstu frétt í sjónvarpi RÚV sem svo hefur slegið í gegn og verið rækilega fylgt eftir þar á bæ. Samkvæmt fréttinni eiga 10% Íslendinga 75% eignanna. Þessa dagana er RÚV í boði okkar sjálfstæðismanna og trúboðið er sem aldrei fyrr. Hann fór yfir eignaskiptingu landsmanna sem er misjöfn líkt og annars staðar. Auðvitað gat hann ekki stillt sig um rangfærslur. Hann sagði öll verðbréf metin til verðs á nafnvirði sem er auðvitað reginfirra.

Á misjafnri eignaskiptingu eru auðvitað margar eðlilegar skýringar. Hún getur aldrei orðið jöfn. Flestallir byrja með tvær hendur tómar og efnast eitthvað með aldrinum. Aldur skýrir því misjafna eignaskiptingu að töluverðu leyti. Skuldir eru skráðar á uppreiknuðu verði með áföllnum verðbótum. Sumar skuldir verða aldrei greiddar að fullu, t.d. námslán þar sem endurgreiðslur fara eftir tekjum. Jafngildi tveggja þriðju hluta útlána LÍN falla því t.d. sem kostnaður á ríkissjóð. Fasteignir eru metnar á fasteignamatsverði. Því eru eignir hins venjulega íbúðareiganda vanmetnar. Skartgripir, listmunir, innbú o.s.frv. koma hvergi til álita. Svo má áfram halda.

Ríkasta prósentið er væntanlega atvinnurekendur. Atvinnutækin eru skráð á þeirra nafn og því betur sem þeim gengur, þeim mun betur vegnar okkur hinum. Hagnist þeir geta þeir borgað hærra kaup. Hvorki borða þeir skipin né hugbúnaðinn; sem sé neysla og ríkidæmi er fjarri því að vera það sama. Hverjum dettur í hug að 10% Íslendinga eyði 75% þjóðarframleiðslunnar? Tölfræði af þessum toga hefur afskaplega lítið upplýsingagildi.

Gamall verðlaunablaðamaður var að býsnast yfir ójöfnuðinum um daginn því að hætt hafði verið að tvískatta arð og söluhagnað. Og kenndi íhaldinu um. Hann vissi ekki að ríkisstjórnin sem hann var blaðafulltrúi fyrir hafði leiðrétt eigin mistök og hætt tvísköttuninni! Við trúboðana er þetta að segja: Öfundin er undirrót alls ills.

Höfundur er löggiltur endurskoðandi og hæstaréttarlögmaður.