Það eina sem ég veit á þessari stundu er að ég er með æði fyrir gulu Pringles.

Hvað er ég? Hver er ég? Hvaðan kom ég? Hvert stefni ég?... Ég veit það ekki og ég nenni ekki að spá í það. Það eina sem ég veit á þessari stundu er að ég er með æði fyrir gulu Pringles.

Þetta er niðurstaða mín eftir áralanga leit í kimum heimspeki, og lista (lesist youtubeklippur og kvikmyndir) og er ég nokkuð sáttur við mikilvægi guls Pringles í lífi mínu að svo stöddu.

Áður en ég kynntist gulu Pringles ólst ég upp í Breiðholtinu og renndi mér á bala niður ísilagða hóla Fellahverfisins. Enginn Stiga-sleði fyrir þennan. Þrátt fyrir það þótti eldri systkinum mínum heldur mikið dekrað við örverpið. Helgaðist það af því að þau máttu sætta sig við að klæðast fötum hvert af öðru á meðan ég, prinsinn á heimilinu, fékk öðru hvoru keypt á mig ný tískuföt. Sérstaklega er mér minnisstætt þegar foreldrar mínir gáfu mér 12 ára gömlum Levi's 501-gallabuxur eftir þriggja mánaða væl. Það var mikil gleði sem markaði tímamót. Þannig voru Levi's-gallabuxurnar tímanna tákn sem í mínum huga marka upphaf góðærisins.

Nýlega varð mér hugsað til Levi's-buxnanna. Þannig er nefnilega mál með vexti að góður félagi minn gerði nýlega gys að bílnum mínum, níu ára gömlum Hyundai Getz, og spurði mig hvort ég ætlaði ekki að fara að fá mér nýjan. Fór hann mikinn þar sem hann sagði mér frá nýja bílnum sínum. Ég man ekki tegundina en hann var svartur og minnti mig pínulítið á Batman-bílinn. Hvað sem því líður þá leið honum eins með Batman-bílinn sinn og mér þegar ég eignaðist Levi's-gallabuxurnar forðum daga og síðar þegar ég eignaðist Huyndainn. Ég varð hugsi þegar vinur minn fór að tala um bílinn minn. Getur verið að hann hafi nokkuð til síns máls? Ætti ég að skipta um bíl? Úr varð að ég setti bílinn á bílasölu. Stóð hann þar í smástund þar til einn daginn að ég fékk sanngjarnt tilboð í bílinn. Eitt hafði þó breyst. Í millitíðinni hafði ég kynnst gulu Pringles og var það mikilvægara en nýr bíll. Ég hugsaði mig ekki tvisvar um og neitaði tilboðinu og velti því fyrir mér hvað hefði orðið um Levi's-gallabuxurnar.

Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is