Eftir mikla umhleypinga síðustu daga kólnar á landinu í dag. Norðanátt verður á landinu, nokkuð hvöss um norðvestanvert landið en víða verða um 8-13 metrar á sekúndu.

Eftir mikla umhleypinga síðustu daga kólnar á landinu í dag. Norðanátt verður á landinu, nokkuð hvöss um norðvestanvert landið en víða verða um 8-13 metrar á sekúndu. Fyrir norðan má búast við snjókomu og éljum og él verður á sunnanverðu landinu fyrripart dags, en síðar þornar upp, að sögn Haralds Eiríkssonar, veðurfræðings hjá Veðurstofunni.

Segir hann morgundaginn verða kaldan með éljum fyrir norðan en þurrt og bjart fyrir sunnan. Frost verði þó á öllu landinu. Horfurnar um helgina eru ekki ósvipaðar, áfram kuldi, þurrt syðra en á sunnudag hvessir úr austanátt með úrkomu nokkuð víða. „Það dregur þó aðeins úr kuldanum en ekki svo að það hláni,“ segir Haraldur. Kuldinn helst því í kortunum fram í næstu viku.