Viðtal
Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Því gætu fylgt nokkur vandamál, kjósi Sameinuðu þjóðirnar að gefa friðargæsluliði sínu oftar leyfi til þess að beita valdi. Þetta er álit Mats Berdals, prófessors í öryggis- og þróunarfræðum við King's College í London, en hann hélt fyrirlestur hér á landi á föstudaginn í síðustu viku á vegum rannsóknasetursins Eddu, og Jafnréttisháskóla Sameinuðu þjóðanna við Háskóla Íslands. Í fyrirlestri sínum skoðaði Berdal einkum afskipti Sameinuðu þjóðanna af Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó, Vestur-Afríku og Haíti.
Erfitt að blanda stríði við frið
Mats segir þróunina hafa verið þá á síðustu tíu til fimmtán árum að leggja meiri áherslu á „harðari“ friðargæslu. Sú þróun hafi náð vissu hámarki í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó, þegar ákveðið var fyrir tveimur árum að veita hluta friðargæsluliðsins þar svonefnt bardagahlutverk.„Ég tel að þessari þróun fylgi nokkur vandamál af ýmsum ástæðum. Í fyrsta lagi sýnir sagan að það er bæði hættulegt og erfitt að ætla sér að blanda saman stríðsrekstri og friðargæslu,“ segir Mats og bendir á að slíkt hafi gjarnan þau áhrif að grafa frekar undan ástandinu.
„Það leiðir einnig til þess að Sameinuðu þjóðirnar, sem í orði kveðnu eiga að vera hlutlausar, verða þátttakandi í átökunum,“ segir Mats. Þá þurfi að ákveða hvort samtökin séu tilbúin til átaka, en Mats segir að Sameinuðu þjóðirnar séu að sínu mati lítt hæfar til þess að taka slíka ákvörðun, þar sem aðildarríkin séu mjög sundurleit og oft ósammála um réttar leiðir.
Hætta á að dragast með í átök
Mats segir það einnig skoðun sína að horfi menn of mikið á valdbeitingu geti þeir misst sjónar á takmarkinu, sem eigi að vera það að stilla til friðar. „Gerist það eykst hættan á að dragast með inn í átökin. Það þarf því að spyrja hvaða hlutverki valdbeitingin getur gegnt í friðarferlinu,“ segir Mats og bætir við að oftar en ekki sé meiri þörf á því að treysta innviðina á átakasvæðum heldur en að beita hervaldi. „Það er ekki hægt að halda friðinn til lengdar í pólitísku tómarúmi. Það er því sú hætta að með því að beita valdi á svæðum þar sem lítil von er á friði leiði bara til nokkurs konar hringrásar, þar sem valdbeitingin ýtir bara undir frekari átök á svæðinu,“ segir Mats.
Voðaverkin sköpuðu pressu
En hvaðan kom þessi áhersla á „harðari“ friðargæslu? „Það sem gerðist, var að í kjölfar hryllingsins á fyrri hluta 10. áratugarins í Rúanda og Srebrenica, þá kom upp sú tilfinning að Sameinuðu þjóðirnar gætu ekki setið hjá þegar slíkir atburðir ættu sér stað. Þá skapaðist mikil pressa á samtökin að beita sér til þess að koma í veg fyrir gríðarmikil hermdarverk af þessu tagi,“ segir Mats. Hann segist skilja það og sé sammála því að Sameinuðu þjóðirnar eigi ekki að sitja hjá í slíkum tilfellum. Hins vegar verði að greina á milli samtakanna og aðildarþjóðanna og þeirri ábyrgð sem þær beri. „Það sem öryggisráðið hefur oft gert með friðargæsluverkefni er að nota þau til þess að losa sig við erfið vandamál sem ráðið veit ekki hvernig á að leysa úr. Ég tel að slík notkun á friðargæslu sé að bjóða hættunni heim. Í tilfelli Júgóslavíu og Rúanda þarf að spyrja hvaða hluti Sameinuðu þjóðanna það var sem brást. Voru það samtökin sem slík, eða aðildarríkin sem eiga að veita þeim stuðning sinn? Munurinn þar á er mikill og við þurfum alltaf að hugsa um hvað við eigum við þegar við tölum um Sameinuðu þjóðirnar.“
Efasemdir meðal þróunarríkja
Mats tekur fram að það geti verið ástæða við vissar aðstæður að beita valdi, en að þá þurfi að vera skýr pólitísk markmið sem liggi að baki. „Án slíkra markmiða er líklegra að valdbeitingin muni valda meiri skaða.“ Samsetning Sameinuðu þjóðanna þýði það að líklegra sé að menn greini á um markmiðin, sem leiði aftur til þess að friðargæsluliðið hefur óskýrt umboð.Mats bendir á að nokkur áherslumunur sé á milli ríkja eins og Indlands og Brasilíu og hinna vestrænu ríkja um það hversu mikið gildi hernaðaraðgerðir geti haft í friðargæslu. Aðspurður segir Mats það ljóst að þjóðir gætu farið að hugsa sig tvisvar um. „Meirihluti þeirra þjóða sem leggja til friðargæslulið eru þróunarríki á borð við Indland, Pakistan og Bangladesh, og þau yrðu tregari til þess að senda lið á vettvang vitandi það að það gæti orðið mannfall,“ segir Mats. Það yrði því að hafa það í huga áður en stefnan yrði sett á aukið bardagahlutverk friðargæslunnar.